06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

178. mál, útsvör

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég get nú að mestu leyti vísað til þess, sem hv. frsm., þm. S-Þ. (KK), sagði, en vil þó taka fram, svo að ótvírætt sé, af hverju helgast minn stuðningur bæði við flutning frv. og hér í d. Ég tel ekki, að 2. gr. frv. breyti öðrum ákvæðum útsvarslaganna en því, sem þar stendur, að þar komi viðbót, sem breyti ekki öðrum ákvæðum. Ég tel, að þessi viðbót sé nauðsynleg, m.a. vegna þess, að ef á að gera veltuútsvörin frádráttarhæf, þá er alveg nauðsynlegt, að það sé ljóst, hver veltuútsvör hafa verið að undanförnu. Annars er ekki hægt að setja um þetta, neinar skynsamlegar reglur, m.a. vegna þess, að allir eru ásáttir um, að einhver takmörk verði að vera sett á veltuútsvör jafnframt því, sem þau séu gerð frádráttarhæf á sköttum. Þegar af þeirri ástæðu er alveg nauðsynlegt að knýja fram, að þessar almennu reglur, sem setja á og birta á samkv. 2. gr., séu fyrir hendi, þannig að ekki verði um deilt, hverjar þær hafi verið.

Ég tel, að það sé alger misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv. (HG), að þetta breyti nokkru um rétt eða skyldu niðurjöfnunarnefnda til þess að meta framtöl. Þær almennu reglur, sem birtar verða, hljóta að miðast við það, að framtölin séu tekin gild á annað borð, og verða birtar undir þeim fyrirvara. Þær reglur geta ekki falið í sér eðli sínu samkvæmt, að þeir, sem hafa gefið framtöl, sem ekki eru tekin gild, geti reiknað út skatt sinn eftir reglunum. Það væri ómögulegt. Að því leyti má segja, að orðalag gr. sé ófullkomið, en það leiðir af eðli málsins engu að síður, að gr. verður að skilja á þennan veg.

Það, sem menn eiga rétt á, eftir að gr. er lögfest, ef hún verður lögfest, er það, að menu geti séð við útreikning sinn á útsvarinu eftir þeim reglum, sem birtar eru, hvort framtal þeirra hefur verið lagt til grundvallar eða ekki, og það geta menn ekki eins og sakir standa. Menn geta það hér í Reykjavík, en ekki á ýmsum öðrum stöðum, og ég álít, að það sé ekki ætlazt til þess, að um þetta séu settar almennar reglur skýrari en í Reykjavík er gert nú þegar, þegar veltuútsvörunum er sleppt. En menn eiga rétt á því, ef greinin verður lögfest, að þeim sé gerð skýr grein fyrir, hve mikill hluti útsvarsins er lagður á þá vegna þess, að framtalið hefur ekki verið tekið til greina, og þá a.m.k. skapast þeim sá réttur, sem þeir í raun og veru hafa ekki haft fram að þessu, að færa sönnur á, að nefndin hafi misskilið og lagt ranglega á miðað við staðreyndirnar.

Eins tel ég og vil taka það fram, að ég skil greinina með þeim fyrirvara, að ég tel, að það séu ýmis tillit, sem taka á samkvæmt útsvarslögunum, eins og hv. 4. þm. Reykv. gat um, og sum eru þess eðlis, að ómögulegt er að gera fulla grein fyrir þeim í þeim almennu reglum, en nefndin hafi eftir sem áður heimild til þess að taka þau tillit, einungis ef þær almennu reglur sýna, hversu mikið er á lagt samkvæmt þeim, og nefndin síðan er reiðubúin og getur sýnt hverjum einstökum gjaldanda fram á, hvernig í hans tilfelli hafi verið tekið tillit til þeirra sérástæðna, sem útsvarslögin heimila.

Með þessum skilningi styð ég þetta frv. Ég tel þess vegna, að rök þau, er hv. 4. þm. Reykv. færði hér, fái ekki staðizt og hann ætti í raun og veru að taka þessa till. til baka, vegna þess að það yrði styrkasti vegur hans til þess að styðja að réttum skilningi þessa lagaákvæðis.