08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

170. mál, almannatryggingar

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar einum þætti samkomulags, sem gert var milli félagsskapar útgerðarmanna og sjómanna í janúarmánuði s.l. Þessi þáttur samkomulagsins fjallar um, að þær dánarbætur, sem greiddar eru í einu lagi samkvæmt gildandi lögum vegna lögskráðra sjómanna, sem farast í slysum, skuli hækka eins og í frv. segir. Mun láta nærri, að þessar dánarbætur hækki samkvæmt frv. um 100%, eða rétt rösklega tvöfaldist.

Það hefur lengi verið álit þeirra, sem við slysatryggingarlögin búa, að þær dánarbætur, sem greiddar eru í eitt skipti fyrir öll, þ.e.a.s. ekkjum, foreldrum og í sumum tilfellum systkinum og uppkomnum börnum yfir 16 ára aldri, hafi verið óeðlilega lágar. Á þessu er gerð nokkur leiðrétting með þessu frv., ef það verður að lögum, þannig að ekkjubætur t.d. hækka um 22 þús. kr., sá hluti, sem greiddur er í einu lagi, eða úr rösklega 14 þús. kr. upp í rösklega 36 þús. kr. fyrir hvert slys, enda sé þá um lögskráða sjómenn að ræða og slysfarir í sambandi við atvinnu þeirra. Bætur til foreldra og bætur til systkina eða barna yfir 16 ára aldri, er hafa verið á framfæri hins slasaða, hækka nokkru minna.

Þó er gert ráð fyrir því, að hækkunin nemi hjá foreldrum frá 2 til 6 þús. kr. í grunn, þannig að samanlagðar nema bæturnar 5–15 þús. kr. í grunn, eða í hámarki um 23 þús. kr. til hvors foreldris, ef það hefur verið framfært að fullu af hinum slasaða manni. Þá er enn fremur það nýmæli í þessu frv., að öll dauðaslys skuli bætt, jafnvel líka þau, þar sem ekki er um neina vandamenn eftirlátna að ræða, og bæturnar fyrir slík slys eru ákveðnar 10 þús. kr. miðað við núverandi vísitölu, eða um 6400 kr. að grunnupphæð. Til þess að mæta þessum kostnaðarauka slysatrygginganna, sem gert er ráð fyrir að verði um 900 þús. kr. á ári, þarf að hækka iðgjöld sjómannatryggingarinnar um hér um bil 6 kr. á ári, eða um 37.5% í viðhót við það, sem þau eru nú. Um það atriði var fullt samkomulag við útgerðarmenn, sem greiða þessi iðgjöld, eins og samkomulag var einnig um, hvernig bótunum skyldi hagað.

Þetta frv. hefur verið afgreitt frá Nd., og lagði nefndin þar til einróma, að frv. yrði samþ. Heilbr.- og félmn. Ed. hefur einnig fallizt á efni frv. að öllu leyti og leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það nú er. En rétt þykir mér að láta það koma fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að mín persónulega skoðun er sú, að þegar búið er hækka þessar bætur til aðstandenda lögskráðra sjómanna, sem eru slysatryggðir, þá hljóti af því að leiða, að tilsvarandi hækkun á dánarbótum verði einnig í iðntryggingunni, þ.e.a.s. fyrir önnur atvinnuslys, hvort sem þar er um að ræða trillubáta, sem ekki komast undir þessi lög, eða tryggingu við störf í landi. En það verður að bíða síðari tíma.