05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um aukatekjur ríkissjóðs, er samið af þriggja manna milliþn., sem skipuð var til að endurskoða þessa löggjöf, og í henni voru sýslumennirnir Júlíus Hafsteen og Jón Steingrímsson og Þorlákur Jónsson stjórnarráðsfulltrúi. Frv. þetta fjallar um það að breyta réttargjöldum, leyfisbréfagjöldum, þinglestrargjöldum og öðrum aukatekjum ríkissjóðs og allt til hækkunar í samræmi við lækkun á gildi peninganna.

Frv. hefur gengið í gegnum hv. Ed., og fjhn. þessarar hv. d. mælir með, að það verði samþ. með tveimur smávægilegum breytingum, sem er fullt samkomulag um. Er önnur þeirra sú, sem er með nál. á þskj. 630, um það að bæta við niðurfellingu á einum lið í stimpilgjaldalögunum. Er þessi brtt. sprottin af því, að það var upphaflega gert ráð fyrir, að þessi lög um breytingar á aukatekjulögunum og breytingar á stimpilgjaldalögunum yrðu samferða í gegnum þingið, og þá hefði þessi niðurfelling komið af sjálfu sér, en nú er ekki gert ráð fyrir því, að stimpilgjaldalögin verði samþ. á þessu þingi, og þess vegna er þessi brtt. flutt af hv. fjhn. Hin brtt., sem er á þskj. 663, er um það, að í 43. gr. sé sett, að lögin öðlist gildi 1. maí n.k., í stað þess, að þar stendur, að þau öðlist gildi nú þegar, og við höfum fengið bendingu um það frá skrifstofustjóra fjmrn., að það sé hentugra, að það sé dálítill frestur á því, að lögin taki gildi, og það hefur orðið samkomulag um, að það sé miðað við 1. maí næstkomandi.

Að öðru leyti sé ég ekki fyrir n. hönd ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv. En hér liggur fyrir till. frá hv. þm. Snæf. (SÁ) um að lækka einn lið í þessu frv., sem er um þinglestur skjala með veði í framleiðsluvörum sjávarútvegs og landbúnaðar, og að sjálfsögðu er ýmislegt af þessum gjöldum það hátt, að það væri æskilegt að fá þau eitthvað lækkuð. En þetta gjald var lækkað nálægt því um helming í hv. Ed. frá því, sem það var í frv. upphaflega, og það var ekki samkomulag um það í hv. fjhn. að lækka það meira en orðið er.