05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Á þskj. 628 hef ég leyft mér að bera fram brtt. við frv. það, sem hér er tekið til meðferðar. Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir að taka sama þinglýsingargjald af öllum skjölum, hvort heldur um var að ræða skuldabréf með veði í fasteignum til langs tíma eða af stuttum lánum, eins til þriggja mánaða, sem algengast er að veita í sambandi við afurðalán fyrir atvinnuvegina. Hér er oftast um að ræða víxillán, sem tryggð eru með veði í afurðum atvinnuveganna, og í flestum tilfellum mjög stutt lán. Það má öllum vera ljóst, að engin sanngirni er að taka sama þinglýsingargjald af veðskjali, sem á að standa langt tímabil, í mörgum tilfeilum 30–50 ár, og tryggingarbréfum fyrir afurðavíxlum, sem aðeins eiga að standa í einn til sex mánuði.

Hv. Ed. gerði breyt. á frv. hvað þetta snerti með því að ákveða sama þinglýsingargjald af tryggingarbréfum fyrir afurðavíxlum atvinnuveganna og tekið hefur verið undanfarin ár. Frumgjaldið, sem samkvæmt frv. hækkar úr kr. 16.80 í 50 kr. fyrir fyrstu 5 þús., er látið vera það sama fyrir afurðalán atvinnuveganna og fyrir önnur lán.

Í brtt. minni á þskj. 628 hef ég þó fundið ástæðu til að ganga enn lengra í þessum efnum. Ég legg til, að frumgjaldið, 50 kr., sé það sama af tryggingarbréfum fyrir afurðavíxla atvinnuveganna og fyrir önnur lán, en síðan 1 kr. af þúsundi af skjölum varðandi afurðalán, eða sama gjald og ákveðið var með lögum nr. 27 1921.

Ég vil með nokkrum orðum benda hv. dm. á, að þessi brtt. mín er byggð á fyllstu sanngirni. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í athugasemdir, sem prentaðar eru með frv. Þar segir:

„Þetta frv. er ekki fremur en frv. um stimpilgjald flutt í tekjuöflunarskyni. Á hinn bóginn hafa föst gjöld samkvæmt aukatekjulögunum hækkað óeðlilega lítið, ef miðað er við verðbreytingar, sem orðið hafa síðan 1921, og er því í frv. gert ráð fyrir nokkurri hækkun á fastagjöldum til samræmis við breytt verðlag, en á hinn bóginn nokkurri lækkun á hundraðsgjöldum, sem greidd eru af gjaldstofni, er hækkað hefur vegna vaxandi dýrtíðar, svo sem nánar er vikið að í grg. nefndarinnar.“

Í grg. hv. milliþn. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við breytingar þær, er n. hefur gert á upphæð gjaldanna, hefur hún einkum haft hliðsjón af verðbreytingum þeim, sem orðið hafa í landinu síðan síðustu aukatekjulög voru sett 1921, fremur en upphæð þeirra nú, eftir þær hlutfallshækkanir, sem Alþingi hefur samþykkt.“ — Þá segir mþn. enn fremur: „Hækkanir þessar eru lagðar jafnt á fastákveðin gjöld og „prósentu“-gjöld og skapa því misræmi, þar sem gjaldstofn „prósentu“-gjaldanna hefur hækkað með hækkandi verðlagi. Samkvæmt framansögðu leggur n. til, að fastagjöld hækki allverulega, en „prósentu“gjöldin lækki.“

Ég vil biðja hv. þdm. að athuga þetta, að hv. mþn. segir, að hún leggi til, að prósentugjöldin lækki. Og ég er sammála hv. mþn. um það, að þau sjónarmið, sem hún ræðir í grg. með' frv., eigi að vera ráðandi, er frv. endanlega fær afgreiðslu þingsins. Af þessum ástæðum hef ég flutt brtt. mína og tel hana vera í anda þeirra aðila, sem að frv. standa, og beri því að lækka að miklum mun frá því, sem þau voru 1951, þinglestrargjöld af tryggingarbréfum afurðavíxla, hvort heldur í hlut á landbúnaður, sjávarútvegur eða iðnaður. Ég vil aðeins benda á eitt dæmi til að sýna hv. þd. nauðsyn þess, að þetta þinglestrargjald verði fært í rétt horf, eins og till. mín fer fram á.

Þegar kjötsölulögin gengu í gildi haustið 1934, var heildsöluverð á dilkakjöti ákveðið kr. 1.15, en nú á s.l. hausti kr. 16.31. Með því að ákveða þinglestrargjaldið það sama og lögin frá 1921 kváðu á um, eða 1 kr. fyrir hvert þúsund, auk frumgjaldsins, 50 kr. fyrir fyrstu 5 þúsundin, sem frv. gerir nú ráð fyrir, verður tekjuöflun ríkissjóðs samt sem áður það hagstæð, að ríkissjóður fær nú rúmlega fjórtánfalt hærra þinglestrargjald af tryggingarbréfum fyrir afurðavíxlum landbúnaðarins en hann fékk 1934. Gera má ráð fyrir, að sama gildi einnig um afurðir sjávarútvegsins og Iðnaðarins, þar sem hækkanir á framleiðsluvörum þeirra hafa hækkað að líku marki.

Að lokum vil ég benda á það, að bankarnir, sem hafa fengið frv. til umsagnar, bentu mjög ákveðið á það í bréfi til hv. fjhn. Ed., að nauðsyn sé á því að lækka þessa tegund þinglestrargjaldanna frá því, sem þau eru núna.

Ef frv. hefði orðið lögfest óbreytt eða eins og það var lagt fram hér á Alþ. í byrjun þings, hefði verið um 70-falda hækkun að ræða á þinglestrargjöldum á tryggingarbréfum fyrir afurðavíxlum landbúnaðarins frá því, sem þessi gjöld voru 1934. Það er því augljóst, að þessa brtt. mína ber að samþykkja, enda er hún byggð á þeim forsendum, sem mþn. mælir með í grg. sinni með frv., að prósentugjöldin beri að lækka frá því, sem þau eru nú og framlengd hafa verið óbreytt undanfarin ár.

Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um þessa brtt. mína. Það er augljóst, að hún stefnir í þá átt, að það sé tekið rétt þinglestrargjald af þessum tryggingarbréfum fyrir víxlum aðalatvinnuvega þjóðarinnar, enda virðist í athugasemdum hv. milliþn., að hún hafi ætlazt til, að svo væri.