07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

11. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Mér er með öllu óskiljanlegt, hvernig hv. þm. V-Húnv. vill reyna að rökstyðja mál sitt, því að það er honum tæplega hægt. Hv. milliþn. er búin að sýna fram á það í greinargerð sinni með frv., að það hefur verið ætlun hennar að lækka prósentugjöld, en ekki hækka þau. Það má hv. þm. V-Húnv. vita, að ef það væri ekki einmitt hið stórhækkandi verðlag afurðanna, sem hefur valdið því, að ríkissjóður hefur fengið hærra og hærra þinglestrargjald og stimpilgjald af lánum í sambandi við afurðalánin, þá væri búið að hækka þessi gjöld miklu meira en gert hefur verið á undanförnum árum. Fyrsta hækkun á aukatekjum ríkissjóðs fór fram 1938. Voru þau þá hækkuð um 25% og hafa síðan farið smátt og smátt hækkandi. Nokkur undanfarin ár hefur hækkunin numið 140% frá því, sem ákveðið var í löggjöfinni frá 1921. Af því að hér er um að ræða prósentugjald, var ekki rétt að hækka þinglestrargjöldin af afurðalánum um 140%, þar sem afurðirnar hafa við vaxandi dýrtíð hækkað það mikið, að ríkissjóður hefur á þann hátt fengið fyllilega það, sem honum bar. Má benda á í þessu sambandi, að verðlag á dilkakjöti hefur rúmlega 14-faldazt frá 1934, og á þann hátt hefur ríkissjóður fengið hækkanir bæði á stimpilgjöldum af víxlum og þinglestrargjöldum af tryggingarbréfum, sem eru fyrir víxlunum. Eins og ég tók fram áðan, tel ég, að þinglestur sé þjónusta, sem ríkissjóður lætur í té og á ekki að vera óeðlilegur tekjupóstur fyrir ríkissjóð. Samhliða þinglestrargjöldunum fær hann stimpilgjöld af þeim lánum, sem eru tekin í sambandi við afurðirnar, og eru það allhá gjöld. Þar virðist ríkissjóður fá sínar aukatekjur, sem ættu að nægja í sambandi við þessa tegund lána, og ætti því ekki að taka, eins og ég hef tekið fram, þetta óeðlilega gjald, sem gert er ráð fyrir í frv. í sambandi við þinglestur.