31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Samkvæmt frv. þessu er gert ráð fyrir, að Framkvæmdabanki Íslands taki lán, en fjmrh. talaði fyrir þessu máli í Nd., þar sem lántökur heyra undir hann.

Ég heyrði lítið af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, þar sem ég var ekki hér inni í deildinni, en það heyrði ég, að hann vildi andmæla frv. og leggja til, að það væri fellt. Ég held, að hv. þm. hafi tæplega gert sér grein fyrir því, að með því að hafa Framkvæmdabanka Íslands fyrir millilið og láta hann annast erlendar lántökur, þá sé veríð að auðvelda framkvæmdir í landinu fram yfir það, sem áður hefur verið, þegar lán hafa verið tekin með öðrum og óheppilegri hætti. Það, sem farið er fram á með þessu frv.„ er það, að í stað „80 millj.“ í 2. málsgr. 9. gr. l. komi „175 millj.“ og eins og segir hér í grg., þá er fram tekið, til hvers á að nota þetta lán, en það er til hinna nauðsynlegustu framkvæmda, sem ekki þola bið, t.d. eins og sementsverksmiðjan og ýmsar raforkuframkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að koma í framkvæmd samkvæmt stjórnarsamningnum.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frv., en legg áherzlu á, að frv. verði samþykkt. Það væri sem sagt æskilegt að heyra einhver rök frá hv. þm. fyrir því, hvers vegna hann telur rétt að fella frv. og hafa lántökur til nauðsynlegra framkvæmda með öðrum hætti. Það þarf önnur rök en fram hafa komið hjá hans flokksbræðrum, en þau eru ekki önnur en að Framkvæmdabankinn sé amerískt fyrirtæki, sem þjóni ekki íslenzkum hagsmunum, en það út af fyrir sig er gömul plata. Hafi hv. þm. ekki annað hér fram að bera í deildinni í sambandi við þetta frv., þá er ástæðulaust fyrir hann að koma hér upp aftur til þess að ræða um þetta mál.