31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Það var aðallega í tilefni af ræðu hv. 2. landsk., þar sem hann setti svo mjög fyrir sig þessa 1% þóknun. sem hann kvað Framkvæmdabankann taka í sambandi við lántökur, að ég kvaddi mér hljóðs, því að ég legg ekki nokkurn skapaðan hlut upp úr því. 1% þóknun, sem þar að auki rennur til ríkisstofnunar, skiptir alls engu máli í sambandi við 175 millj. kr. lántöku. Það, sem máli skiptir, eru lánskjörin, og það þarf ekki nema brot úr prósentu á ári til langs tíma, að það borgi sig að borga þeim, sem bezt lánskjör býður, góða „provision“, hver svo sem það er. Annars er það svoleiðis hjá okkur, að við höfum stofnað þennan banka af því, að við álítum okkur hafa hag af því, af því að við álitum, að hann hafi betri aðstöðu gagnvart erlendum lánveitendum heldur en við höfum 'haft hingað til. Það er skylda okkar að gera hann sterkan og að ryðja hans braut, og við vitum það, að á erlendum markaði getur hann fengið aðstöðu til að fá miklu ódýrari lán heldur en ríkisstj. getur tekið, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu ýmissa aðila, sins í hvert skipti. Því sterkari sem bankinn verður og fær meira fé til umráða, því vísari eru skilyrðin fyrir því, að hann geti fengið betri lánskjör heldur en aðrir geta útvegað, og það er höfuðatriði málsins. Ég býst við, að enginn dragi í efa, að þeir erlendu peningar, sem á að taka, séu til mjög nauðsynlegra framkvæmda, og er því engin hætta á því að leyfa þessa lántöku af ótta við, að peningunum verði sóað í óþarfa.