31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil aðeins fyrst segja það, að mér finnst furðulegt, að hæstv. viðskmrh. skuli láta annað eins út úr sér og það, að ég sé andvígur því, að tekið sé lán til þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir, enda þótt ég hefði um það alllangt mál þegar í upphafi, að ég væri samþykkur því, að veitt væri lánsheimild til þessara framkvæmda, og mundi að sjálfsögðu greiða því atkvæði. Ég var aðeins andvígur aðferðinni við töku þessara lána, svo að þessi ummæli hæstv. ráðh. eru blátt áfram furðuleg.

Það, sem var sérstaklega athyglisvert af því, sem ráðh. sagði, var það, að hann svaraði nú loks þeirri fsp. minni, hvort bankinn mundi taka 1% fyrir útvegun slíkra lána, og hann sagði, að hann gerði ráð fyrir því, að þóknunin mundi ekki verða svo há, að hún mundi ekki verða meiri en 1/2% og kannske talsvert minni. Það er alltaf gott að heyra það, ef svo er. En þá vil ég spyrja: Hvers vegna tekur bankinn þá 1% fyrir að útvega lán til Sogsvirkjunarinnar og það aðeins úr mótvirðissjóði? Hvers vegna þarf það að kosta 1% að færa fé úr einum reikningi yfir á annan? Það var að sjálfsögðu eðlilegt, að ég gerði ráð fyrir því, að það mundi ekki kosta minna að útvega erlend lán en að færa fé úr einum reikningi yfir á annan, og bankinn hefur tekið 1% fyrir það.

Ég vil aðeins svara því, sem hv. þm. Seyðf. sagði hér áðan. Hann sagði, að það væri vitað, að Framkvæmdabankinn hefði miklu betri aðstöðu en ríkisstj. til þess að taka lán erlendis. Það væri gott að fá þetta skýrt. Ég veit ekki betur en að Framkvæmdabankinn sé ríkisstofnun og að hann hafi ekki annað stofnfé en honum er lagt til af ríkinu. Hvernig stendur þá á því, að þessi banki hefur svona miklu betri aðstöðu? Það væri fróðlegt að fá skýringar á því.