05.04.1954
Neðri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka til máls í sambandi við þetta frv., en vegna þess að hv. 2. þm. Reykv. gerði það hér dálítið að umtalsefni og varpaði spurningu fram til ríkisstj., en hæstv. fjmrh. er ekki við, þá skal ég gjarnan segja hér nokkur orð.

Í sambandi við lántökugjaldið, sem virðist vera aðalþyrnirinn í augum hv. 2. þm. Reykv., er það að segja, að samkvæmt lögum um Framkvæmdabankann getur lántökugjaldið aldrei farið yfir 1%, — það getur aldrei orðið meira en 1%, en það getur vitanlega orðið miklu minna, — og í sambandi við þær lántökur, sem ætlazt er til að Framkvæmdabankinn inni af höndum nú, þá get ég upplýst, að það er ekki ákveðið, að Framkvæmdabankinn taki 1%. Það getur alveg eins orðið 1/2 % eða 1/4 % eftir því, sem ákveðið verður. Það er þess vegna ekki nein hætta hér á ferðinni, þar sem hv. þingmaður og allir hv. þm. vita, að það verður ekki hærra en 1%.

Nú skulum við hugsa okkur það, að Framkvæmdabankinn færi í þessu tilfelli í hámark og tæki 1% lántökugjald. En hvað skeður þá? Það má vitanlega um það deila, hvori, það sé réttmætt. Hitt vitum við allir, að sá sjóður, sem Framkvæmdabankinn kann að skapa sér, hvort sem það er með lántökugjaldi eða með vaxtamismun eða af öðrum tekjum, sem bankanum kann að hlotnast, verður eingöngu notaður til nauðsynlegra framkvæmda í landinu. Það er ákaflega mikill munur að geta verið alveg viss um það, að sá sjóður, sem Framkvæmdabankinn kann að eignast, verður aldrei notaður til annars en nauðsynlegra framkvæmda í landinu, og það er ákaflega þýðingarmikið atriði og þess vegna því minni ástæða til þess að vera hræddur eða óttast nokkuð, jafnvel þótt bankinn færi í hámark með lántökugjaldið.

Um það atriði, hvort heppilegra sé, að Framkvæmdabankinn annist lántökuna heldur en ríkisstj. eins og áður, vil ég segja það, að ég tel það heppilegra, að þetta sé sameinað á eina hönd og að það sé einn og sami aðili, sem annist lántökur, heldur en með því fyrirkomulagi, sem áður var, og ég vil einnig segja, að það er miklu líklegra, að lánin fáist með hagstæðum kjörum með því fyrirkomulagi, sem nú er haft, heldur en því, sem áður var, og þess vegna hefur Framkvæmdabankanum verið falið að annast þetta.

Hæstv. fjmrh. er nú kominn hér inn í d. og getur gefið upplýsingar um það, hvers vegna er farið fram á, að lánsheimildin sé hækkuð, en úr því að ég er kominn upp í ræðustólinn, þá get ég einnig gert það með fáeinum orðum.

Satt að segja hélt ég, að flestum hv. þm. væri ljóst, til hvers þessi lántökuheimild er hækkuð, hvað á að gera við þetta fé, þegar það er fengið. Það á að nota það til þess að byggja sementsverksmiðjuna, 40–50 millj., og það á að nota það til þeirra raforkuframkvæmda, sem ætlað er að hrinda í framkvæmd nú á næstunni. Það er þess vegna ekki hér verið að fara fram á lántökuheimild til þess að nota síðar sem eyðslufé, og það er vitanlega allur munurinn, og það er þess vegna, að hv. alþm. greiða atkv. með því, að þessi heimild verði hækkuð.

Ég ætla, að þetta þarfnist ekki fleiri skýringa, og mér þætti ekkert óeðlilegt, þótt hv. 2. þm. Reykv. eða einhverjir fleiri segðu: Er þetta nóg? Þarf ekki meira lánsfé? Þarf ekki ríkisstj. hærri lánsheimild en hér er farið fram á til þess að koma í framkvæmd þeim miklu málum, sem eru enn óleyst, virkjunum víðs vegar um landið, t.d. Sogsvirkjuninni, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi hér ekki áðan, en hefur stundum haft áhuga fyrir? Þess vegna hefði ekkert verið óeðlilegt, að hann hefði spurt sem svo: Er þetta nóg? — Og það getur vel verið, að hv. þm. komist að raun um það í meðferð þessa máls og fái reyndar að sjá framan í það, að þetta — 175 millj. — er ekki nóg, ef við eigum að koma í framkvæmd því, sem við þurfum nauðsynlega að koma af stað nú mjög fljótlega, t.d. Sogsvirkjuninni, til viðbótar því, sem áður hefur verið nefnt.