07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. kom til þessarar hv. d., var það um að hækka heimild Framkvæmdabankans í 9. gr. laganna til að taka lán með ábyrgð ríkissjóðs úr 80 millj. upp í 175 millj. Þá var í grg. frv. sagt, eins og það lá fyrir upphaflega, að þetta væri gert í fyrsta lagi vegna fyrirhugaðrar sementsverksmiðju, að yfirfæra þá lánsheimild yfir á Framkvæmdabankann, í öðru lagi vegna erlendra lána til raforkuframkvæmda, sem ráðizt er í samkvæmt áætlun ríkisstj., og í þriðja lagi, eins og segir í aths., með leyfi hæstv. forseta: „Auk þess verður svo á hverjum tíma að vera fyrir hendi hæfileg ábyrgðarheimild í 9. gr. l. um Framkvæmdabankann, til þess að bankanum sé unnt að gegna hlutverki sínu lögum samkvæmt.“

Með öðrum orðum: Allar þessar þrjár röksemdir, sem hv. frsm. fjhn. hér færir fram fyrir því að hækka nú úr 175 millj. upp í 225 millj., voru fyrir hendi og voru settar fram í grg. fyrir lagafrv., eins og það lá upphaflega fyrir, um hækkunina úr 80 millj. upp í 175 millj., þannig að um tvennt er þá að ræða: annaðhvort hefur verið reiknað mjög skakkt upphaflega, þegar þetta hefur verið lagt fyrir, eða þá að það er farið hér fram á að hafa heimildina allmiklu rýmri en áður var hugsað. Það hefði nú ekki verið neitt að því, þó að það hefði verið sagt enn þá nákvæmar, því að það að fara fram á svona heimild, að hækka það um 50 millj. kr. fram yfir það, sem er til sementsverksmiðjunnar og raforkuframkvæmdanna, og það, sem á að vera afgangs handa Framkvæmdabankanum þar að auki, er þó nokkur upphæð.

Ég vil segja það, að það er þó nokkur hætta fólgin í þessum sífelldu hækkunum á lánsheimildum og lántökum, svo framarlega sem ekki er á sama tíma hugsað fyrir aukningu þess atvinnuvegar, sem á að standa undir öllum þessum lánum sjávarútvegsins. Ég er fyrir mitt leyti yfirleitt ekki sérstaklega hræddur við lán og ekki heldur við erlend lán, svo framarlega sem ég sé, að samtímis því eða þá þessum lánum að meira eða minna leyti sé varið til þess að efla þann atvinnuveg okkar, sem stendur undir öllum okkar útlendu lánum og stendur yfirleitt undir allri okkar lífsafkomu; ég á við sjávarútveginn. Og ég vil segja það, að ég álit það beinlínis hættulega stefnu, sem verið er að framkvæma, þegar lagt er í eins nytsöm, nauðsynleg og sjálfsögð fyrirtæki og ný raforkuver, sementsverksmiðju og annað slíkt og ekki er samtímis lagt í það að auka okkar togaraflota. Ég álít það hættulega stefnu. Hér fyrir hv. d. liggur frv. frá nokkrum þm. Sósfl. um kaup á togurum til landsins og lánsheimild í því sambandi. Því hefur ekki verið sinnt. Og nú hefur í 5 ár ekki verið keyptur einn einasti nýr togari til Íslands. Ég veit að vísu, að menn munu máske segja sumir: Ja, til hvers að kaupa togara? Er ekki verið að leggja þeim, sem fyrir eru? — Það er mál út af fyrir sig, hvers konar óstjórn kann að vera á þjóðarbúskapnum um það, að togurunum sé lagt, en það vil ég segja, að það þýðir a.m.k. ekki að hugsa um raforkuframkvæmdir, sementsverksmiðju, lántökur og afborganir af lánum, svo framarlega sem togararnir eiga að liggja til frambúðar.

Ég held þess vegna og vil aðeins vekja athygli á því, að þessir hlutir þurfi að fylgjast að. Það þarf að halda áfram að efla okkar sjávarútveg um leið, og síðan séu gerðar og samtímis ráðstafanir til þess að tryggja, að hann gangi, um leið og ráðizt er í þessa stóru hluti, sem verið er að ráðast í hér innanlands. Ég vil minna á, eins og ég benti á í sambandi við raforkuáætlun ríkisstj., að það gæti einn togari framleitt þann útlenda gjaldeyri, sem þyrfti til þess að framkvæma það „plan“ á næstu 10 árum. Einn togari, ef hans afköst eru hagnýtt til fulls, getur framleitt fyrir 12 millj. kr. á ári, eða 120 millj. kr. á 10 árum, sem er hér um bil sá gjaldeyrir, sem þarf í raforkuver, sem kosta 250 millj., og á ég þá við, að togarinn framleiði fisk, sem unnið er úr hér innanlands og sé þetta að verðmæti.

Ég vil líka minna á, að sú fyrirhugaða sementsverksmiðja, sem nú mun eiga að kosta 96 millj. kr., á að framleiða sement, 50 þús. tonn á ári, skulum við segja, — annars veit ég það nú ekki alveg nákvæmlega, — en 50 þús. tonn á ári þurfum við a.m.k. inn núna, og þau 50 þús. tonn á ári kosta núna í útlendum gjaldeyri frítt um borð í erlendri höfn um 11 millj. kr. á ári, eða það sama sem einn togari getur framleitt á ári. Ég vil minna á þetta vegna þess, að mönnum hættir svo oft við að gleyma því, að afkastamestu tækin, sem við höfum til framleiðslu á gjaldeyri, eru okkar togarar og samtímis því sem við erum að auka og efla og byggja upp okkar atvinnulíf innanlands, þá þurfum við að efla þessi afkastamestu tæki, sem eiga að standa undir því. Þetta vildi ég nú aðeins minna á, um leið og farið er fram á aukin lán, og út af fyrir sig er ég ekkert sérstaklega á móti þeim, en vænt þætti mér að heyra samt frá hæstv. ríkisstj., hvort hún hefur sjálf engar áhyggjur út af því, að sjávarútvegurinn aukist ekki og gangi ekki að sama skapi eins vel og verksmiðjan hér í þinginu að framleiða lánsheimildirnar til þess að taka ný útlend lán.

Þá vildi ég minnast á hitt, sem ég hef raunar minnzt hér á áður, en ekki fengið upplýsingar um. Er nokkur breyting að verða viðvíkjandi lántöku til sementsverksmiðju? Þýðir það, að Framkvæmdabankinn á nú að annast þetta, að það er í undirbúningi að gera sementsverksmiðjuna eign einkaaðila? Við vitum nú, að Framkvæmdabankinn á sérstaklega að hlynna að einkaaðilunum, og það er þess vegna máske enn þá þægilegra, þegar hann á að fara að annast lánin, að hann geti sett slík skilyrði. Ég býst ekki við að fá neitt svar við því, því að það er náttúrlega með það eins og með áburðarverksmiðjuna, — slíka hluti gerir maður, slíka hluti segir maður ekki, mundi hæstv. ríkisstj. segja, en þegar kæmi að skuldadögunum að „nappa“ sementsverksmiðjunni á sama hátt og áburðarverksmiðjunni, þá verður það gert og ekki talað mikið um það áður.

Svo — og það er nú sú hliðin, sem snýr að því að reyna að varðveita hagsmuni hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál — er í fyrsta lagi viðvíkjandi vöxtunum. Það var nú stundum hér fyrr á tímum á Alþ., þegar það gekk ekki alveg svona eins og í gegnum verksmiðju að framleiða lánsheimildir handa ríkisstj., að það var spurt um, hvaða vextir mundu vera, og það var jafnvel ákveðið í lánsheimildum til hæstv. ríkisstj., hvaða vextir skyldu vera, jafnvel stundum minnzt á, á hvað mörgum árum lánið skyldi greiðast, og það er nú ekkert undarlegt, þó að við spyrjum að því: Hefur hæstv. ríkisstj. hugmynd um, ef Framkvæmdabankinn á að annast þetta, hvaða vextir verði af þeim lánum, sem hann kemur til með að útvega? Ég vil vekja athygli á því, að það fara að verða allþungar vaxtabyrðarnar, sem hvíla á okkur Íslendingum með þeim lántökum, sem nú er stofnað til.

Svo er það að síðustu eitt, sem ég hef raunar minnzt á áður og ég nú ætla að leyfa mér að flytja till. um. Það er viðvíkjandi lántökugjaldinu. Í þeirri 9. gr., sem hér er rætt um breyt. á, er ákveðið, að fjmrh. sé heimilt að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs erlend lán og þau megi sem sé ekki vera — segir þar í gr. — meira en 80 millj. kr., sem nú átti að hækka upp í 225 millj. Síðan segir í 11. gr., að Framkvæmdabankinn skuli, ef fjmrh. óskar þess, annast f.h. ríkissjóðs innheimtu vaxta og afborgana og annað slíkt, og þá er það tekið fram, að ríkissjóður skuli greiða bankanum hæfilega þóknun. Hins vegar er ekki sérstaklega minnzt á, hvað hann greiðir honum fyrir útvegun á lánum ríkinu til handa. Hins vegar stendur í 12. gr., þar sem talað er um, að bankinn starfi á almennum viðskiptagrundvelli: „Lántakendur skulu, um leið og lán er veitt, greiða lántökugjald, er nemur allt að 1% af lánsupphæð.“ Nú hef ég að vísu aldrei skilið, að svona hátt lántökugjald mundi Framkvæmdabankinn heimta af ríkissjóði í sambandi við útvegun erlendra lána, og ég á bágt með að gera mér í hugarlund, að það verði yfirleitt hærra gjald en kannske 1/4% eða svo, en þætti samt vænt um að heyra það frá hæstv. ríkisstj. En svo framarlega sem ríkið sjálft fær að sleppa með lántökugjald, sem væri t.d. ekki meira en 1/4%, og það finnst mér sjálfsagt, þá álit ég, að aðrar stofnanir ríkis og bæja eigi ekki heldur að greiða meira lántökugjald en þetta, og ég vil leyfa mér að flytja brtt. við þessi l., svo hljóðandi, að á eftir 1, gr.

þessa frv. komi ný gr., svo hljóðandi: „Við 2. málsgr. 12. gr. l. bætist: Þó skulu stofnanir ríkis og bæja aldrei greiða hærra lántökugjald en 1/4%.“ M.ö.o.: Við þetta frv., sem hér er til umr. og er aðeins tvær gr., bætist ný gr., sem geri þá breyt. á 12. gr. l. um Framkvæmdabankann, að síðari málsgr. þar verði í heild orðuð sem nú skal greina: „Lántakendur skulu, um leið og lán er veitt, greiða lántökugjald, er nemur allt að 1% af lánsupphæð. Þó skulu stofnanir ríkis og bæja aldrei greiða hærra lántökugjald en 1/4%.“

Það liggur nú fyrir þessari hv. d. frv. um að heimila stjórn Sogsvirkjunarinnar að taka látt að upphæð allt að 100 millj. kr. Svo framarlega t.d. sem eitthvað slíkt væri nú gert í gegnum Framkvæmdabankann, þá mundi það þýða, et Framkvæmdabankinn hefði sama hátt á eins og hann hefur haft hingað til gagnvart Sogsvirkjuninni, að hann mundi taka 1 millj. kr. fyrir að útvega þetta lán, bara sem lántökugjald. Hann tók nýlega, eins og ég las hér upp við 1. umr. þessa máls, 690 þús. kr., þ.e. 1%, fyrir lánsútvegun til Sogsvirkjunarinnar, og Sogsvirkjunin er, eins og menn vita, sameign ríkisins og Reykjavíkurbæjar. Ég álít það ófært, að opinber fyrirtæki séu látin greiða til ríkisbanka svona hátt lántökugjald. Það er nóg að stynja undir þeim vöxtum, sem þangað þarf að greiða, þó að það sé ekki þar að auki verið að greiða slíkt lántökugjald sem þarna er farið fram á. Það hefur verið sagt, að þetta rynni í góðan sjóð. Ég vil nú segja, að að svo miklu leyti sem svona lántökugjald rynni til ríkisins og Reykjavíkurbæjar eða t.d. í þessu tilfelli til Sogsvirkjunarinnar að einhverju leyti, þá væri það ekki síður gott. Það eru fleiri góðir sjóðir til heldur en sjóðir bankanna hérna. Ég býst við, að bæði ríkissjóður og bæjarsjóður Reykjavíkur og Sogsvirkjunin mundu öll saman vinna fljótar og betur fyrir það, sem fer í þeirra sjóð, heldur en hvað það gengur að ná út úr bönkunum því, sem þar fer inn. Og ég verð að segja það, að svo framarlega sem það á að fara að taka þann hátt upp, að ríkisfyrirtæki eigi að reka svona vægðarlausa auðsöfnunarpólitík, að þau eigi að heimta inn af hvað smáu sem er, hví í ósköpunum á þá að fara að undanskilja ríkissjóð sjálfan? Við vorum hér áðan að ræða um aukatekjur ríkissjóðs. og þar virtust menn vilja fara að hækka heilmikið gjöld þau, sem eru á almenningi, ef einn vélstjóri þarf að fá skírteini eða annað slíkt. En ég vil spyrja: ríkissjóður ábyrgist fyrir Framkvæmdabankann eins og aðra banka öll þau lán, sem hann tekur. Fer ekki hæstv. ríkisstj. að detta í hug að fara fram á að taka þá eitthvert ábyrgðargjald af þessum bönkum fyrir að ábyrgjast fyrir þá hvern milljónatuginn á fætur öðrum? Ef hæstv. fjmrh. væri hérna inni, þá mundi ég nú benda honum á, af því að hann er nú alls staðar að leita eftir að hækka öll gjöld, að það væri þá kannske ekki alveg ófært að taka smágjald af því, sem ríkissjóður lætur þessum bönkum í té. Ríkið lætur ábyrgð í té til þessara banka. Hví ekki að taka 1% ábyrgðargjald af Framkvæmdabankanum, ef hann ætlar að taka 1% í lántökugjald af ríkinu? Þá fara að jafnast metin. Ég vil líka minna á, að ríkissjóður lætur Landsbankann hafa 280 millj. kr. í seðlum til þess að borga út hér á Íslandi og lána. Það væri hægt að fara að taka gjald af þessum seðlum og ná þar með peningum í ríkissjóðinn. Ég verð að segja það, ef svona vægðarlaus auðsöfnunarpólitík á að vera góð og gild, þegar ríkisbankarnir eru annars vegar, og ef hún þykir góð og gild, þegar ríkissjóður er að eiga í viðskiptum við almenning, við þann almenna borgara, hví í ósköpunum getur hún þá ekki verið góð og gild, ef ríkissjóður er að fást við bankana sjálfa? Þessu vildi ég nú aðeins skjóta fram, því að ég held, að það megi halda áfram að auka þannig gjöldin og þyngja þannig álögurnar, að að síðustu bresti þetta, ekki sízt ef ekki er betur hugsað um grundvöllinn, sjávarútveginn, heldur en nú er gert.

Ég vil svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari brtt. minni, af því að hún er bæði of seint fram komin og skrifleg.