07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal aðeins bæta fáu við það, sem ég sagði áðan, en sennilega hef ég ekki verið nógu skýr í máli, því að mér skildist, að hv. 2. þm. Reykv. vildi mega draga þá ályktun af orðum mínum, að sú almenna lánsheimild, sem Framkvæmdabankanum var ætluð fyrir utan lánsheimildirnar til sementsverksmiðju og raforkuframkvæmda, mundi vera eitthvað verulega mikið hækkuð með þessari hækkun, sem hér er gerð úr 175 millj. upp í 225 millj. En því er ekki þannig varið. Það eru nú ráðagerðir um það innan ríkisstj. að fá hækkaðar lántökur til bæði sementsverksmiðjunnar fyrirhuguðu og raforkuframkvæmdanna, eða það verður a.m.k. freistað þess að fá meiri lán en ráðgert var, þegar frv. var flutt, og varðandi hina almennu heimild, sem Framkvæmdabankanum sjálfum er ætluð, er hér ekki um neina breytingu að ræða.

Varðandi till. hv. þm. um lántökugjaldið, þá er það nú svo, að það má vera allt að 1%. Það þýðir ekki, að það skuli vera 1%, og út af fyrir sig sé ég nú litla ástæðu til þess, að það séu sett ákvæði um, að það skuli vera fjórðungi lægra, þegar ríkisfyrirtæki og bæjarfyrirtæki eiga í hlut heldur en einstaklingar eða félög, sem kynnu að fá lán hjá bankanum. En hv. 2. þm. Reykv. ofbýður, hvað gjaldið er hátt, og taldi þar sérstaklega fram háar greiðslur vegna lántökugjalds til Sogsins. Ég held nú, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé ekki öll sagan sögð með því, sem Sogsvirkjunin greiddi í lántökugjald til Framkvæmdabankans. Ég man ekki betur en að í sambandi við útreikning á vaxtagreiðslum Sogsvirkjunarinnar til Framkvæmdabankans hafi verið tekið tillit til umkvartana um hið háa lántökugjald, þannig að það í raun og veru hafi verið lækkað og orðið samkomulag um annan vaxtaútreikning en áður var búið að gera ráð fyrir, þannig að greiðslurnar yrðu raunverulega minni en lántökugjaldið sjálft er uppfært og hv. þm. vitnaði til. Eins og ákvæðið er í lögunum, þá er það á mati bankastjórnarinnar á hverjum tíma, hvað hún vill hafa lántökugjaldið hátt. Mér finnst nokkuð broslegar þessar orðræður um hina gífurlegu auðsöfnun, því að þetta lántökugjald rennur þá í þann sjóð, sem síðar er verið að lána til þess að auka framkvæmdir og atvinnustarfsemi í landinn, eins og tilgangur bankans er. Eflist sjóður bankans fyrir þetta og þau fyrirtæki, sem hann lánar, séu megnug að greiða slíkt lántökugjald, þá verður hann þeim mun færari til þess að veita öðrum lið og annars staðar á landinu til þess að koma upp nýjum atvinnutækjum og atvinnustarfsemi. — Það er svo ekki meira, sem ég þarf við þetta að bæta, en vildi hafa sagt þetta til frekari skýringar á fyrri greinargerð minni.