08.04.1954
Efri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

183. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. sjá, hefur þetta mál tekið þeirri breyt. í hv. Nd., að hin fasta ábyrgðarheimild til Framkvæmdabankans er hækkuð verulega. Í þeim önnum, sem hér hafa verið í d., hef ég nú ekki getað fylgzt verulega með gangi þessa máls í hv. Nd., en ég hygg, að þessi hækkun stafi af því, að hugsað sé til þess að fela Framkvæmdabankanum lánsútveganir vegna fyrirhugaðrar virkjunar Sogsins. Ég vona, ef þetta er ekki rétt hjá mér, að það verði þá leiðrétt. N., sem hafði þetta mál til meðferðar, þegar það var hér fyrir deildinni, fjhn., hefur vitanlega ekki haft neinn tíma til að taka málið til athugunar nú, og ég get því ekkert sagt um afstöðu n. til þess eins og það liggur nú fyrir, en ég fyrir mitt leyti er því meðmæltur, að þetta frv. verði samþ. óbreytt nú. Aðrir nm. geta þá sagt til, ef þeir hafa annað sjónarmið, og þá er sjálfsagt að fresta málinu, ef slíkt kemur fram, og n. reyni þá að athuga frumvarpið.