02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

194. mál, raforkulög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. frá hæstv. ríkisstj. skuli nú vera komið fram, og mig langaði í sambandi við þetta stóra mál að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj., eins og ekki er máske óeðlilegt, því að hér er nú farið inn á það mjög lofsverða fyrirtæki, ekki aðeins að ætla sér að leiða rafmagn til fjölmargra íbúa landsins, sem hingað til hefur skort það, heldur líka hitt, að gera fyrir fram áætlun til 10 ára um, hvernig þetta skuli gert, og það er efalaust aðferð, sem er heppileg bæði á þessu sviði og fleirum. En um leið og við hugsum til þess að búa til slíka áætlun um einn lið í okkar þjóðarbúskap, sem sé um raforkuveitur og dreifingu raforkunnar, þá er ekki óeðlilegt, að við spyrjum, í hvaða samræmi slíkar fyrirætlanir séu við aðrar áætlanir um eflingu annarra þátta í þjóðarbúskapnum og þá jafnvel þátta, sem að einhverju leyti kæmu til með að standa undir svona framkvæmdum. Ég vil þess vegna alveg sérstaklega leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh. í sambandi við þau raforkuver, sem nú eigi að koma upp á næstunni utan orkuveitusvæðis Sog, og Laxárvirkjananna. Ég veit, að hér í þinginu er alveg sérstaklega hugsað um tvö stærri orkuver í slíku sambandi, og liggja nú þegar fyrir frv. um þau og komin alllangt í gegnum þingið, þ.e. frv. um nokkuð stór orkuver bæði á Austurlandi og Vesturlandi. Ég hef bent á það áður í sambandi við fyrirhuguð orkuver á Austurlandi og Vesturlandi, að það, sem þyrfti að verða samferða slíkum orkuverum, ef þau eiga að vera eins vel úr garði gerð, eins stór og þarf fyrir vöxt þessara landsfjórðunga, sé að hugsa samtímis fyrir ákveðnum atvinnuframkvæmdum á þessum stöðum. Ég velt, að sú spurning, sem raforkumálastjórnin leggur fyrir Alþingi og ríkisstj. í hvert skipti, sem lagt er til - við skulum segja — að koma upp orkuveri, t.d. að fara að virkja Dynjanda á Vesturlandi eða Lagarfoss á Austurlandi, er þessi: Hvað er við svo mikla raforku að gera eins og mundi fást úr slíkum orkuverum með því að nota beztu og gjöfulustu auðlindirnar á þessum stöðum? Ef raforkumálastjórnin á að svara fyrir sig, þá reiknar hún einfaldlega út, hvað eru margir íbúar á Austurlandi eða Vesturlandi, hvað þeir hafa verið margir síðustu áratugina. Svo lítur hún máske á Sléttuhreppinn eða einhverja aðra slíka og segir: Já, kemur ekki til með að flytja eitthvað af fólki burt frá þessum stöðum?

Það er gefið, að einmitt þegar við ætlum að ráðast í raforkuver á Austurlandi og Vesturlandi m.a. og jafnvel þau stærstu þar, þá verðum við samtímis að hugsa fyrir því, hvaða stórum atvinnufyrirtækjum við ætlum að koma upp á þessum stöðvum, sem hagnýti rafmagnið. Við megum ekki hugsa raforkuveiturnar eingöngu út frá neyzlunni til almennings. Við verðum að hugsa þessar raforkuveitur samtímis út frá því, að þær eigi að vera undirstaðan, þær eigi að öðlast mikinn og góðan markað fyrir sitt rafmagn í stórum atvinnutækjum á þessum stöðum. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvað hefur hún hugsað sér, — jafnvel þó að hún hafi enn enga áætlun gert, — hvað hefur hún hugsað sér um iðju eða iðnað, fiskiðnað og aðrar atvinnuframkvæmdir á þessum stöðum á landinu? Ég heyrði, að hæstv. landbrh. talaði mikið um sveitabýlin. En ef rafmagnið á að verða ódýrt fyrir sveitabýlin á þessum stöðvum, þarf það að byggjast á, að notkunin í bæjunum, vaxandi bæjum, sé svo mikil, að það sé hægt að standa undir dreifingu orkunnar út til sveitanna. Ég veit, að það munu samtímis koma upp spurningar, við skulum segja eins og viðvíkjandi Austurlandi eða Vesturlandi: Á að virkja Lagarfoss, á að virkja Dynjanda, fossa, sem gefa svo og svo miklu meira en kannske brýn þörf væri fyrir í dag, en fossa, sem er tiltölulega langódýrast að virkja og gefa þess vegna ódýrast rafmagn? Ég álit alveg tvímælalaust, að á þessum stöðum á fyrst og fremst að leggja í svona virkjanir, sem þar mundu nú verða kallaðar stórvirkjanir. En það verður ekki lagt í þessar virkjanir á þann praktískasta hátt, nema ríkisstj. og Alþingi segi um leið: Það á að miða þessar virkjanir við, að þessir fjórðungar séu að vaxa, við, að atvinnufyrirtækin í þeim séu að blómgast og þeim sé að fjölga. — Þessu verður að slá föstu, því að svo framarlega sem við afgreiðum þessi mál þannig frá okkur, að það er eingöngu um raforkuveiturnar að ræða, þá er viðbúið, að það verði lagt í sem minnstar rafvirkjanir á þessum stöðum og þar með um leið líka sem dýrastar. Svo verður endað með því að ætla að finna út einhvern nýjan verðjöfnunarskatt til þess að verðjafna rafmagnið frá ópraktískum rafveitum yfir á þá, sem hafa praktiskar rafveitur, og slíkt yrði óvinsælt. Við eigum að hugsa það skipulega og það stórt í sambandi við þessar virkjanir, að við leggjum í þá fossa, sem er praktískast að virkja á þessum stöðum. En það verður því aðeins gert, að samtímis því að hugsa í 10 ára „plani“ um raforkuna, þá hafi menn líka a.m.k. bak við eyrað 10 ára „plan“ um aðrar atvinnuframkvæmdir á Íslandi, um atvinnulífið á Íslandi, um það atvinnulíf, sem á að standa undir raforkuframkvæmdunum. Þessu vil ég í fyrsta lagi vekja eftirtekt á.

Í öðru lagi: Samtímis því, sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir 10 ára áætlun viðvíkjandi raforkunni, vil ég leyfa mér að spyrja hana: Er hún með í sínum huga, jafnvel þótt það væri ekki nema ákaflega frumstætt, nokkra 10 ára áætlun um aukningu sjávarútvegsins, stóriðjunnar, landbúnaðarins eða annarra atvinnugreina á Íslandi? Hver er hennar hugsun í þessum efnum? Það var ekki minnzt neitt á slíkt, og við vitum þó hins vegar, að það er sjávarútvegurinn og þá fyrst og fremst sjávarútvegurinn, — mér liggur við að segja sjávarútvegurinn einn, — sem á að standa undir því að koma upp þessum raforkuveitum. Það er rætt um 250 millj. kr. á næstu 10 árum, að meðaltall 25 millj. kr. á ári. Þar af er helmingurinn útlendur gjaldeyrir, eða um 12 –13 millj., og ég vil taka það fram, að það er enginn sérstakur vandi að sjá um framleiðslu á þeim útlenda gjaldeyri. sem til þessa þarf. Einn einasti togari getur, ef réttilega er stjórnað af ríkisvaldinu, framleitt gjaldeyri með því að láta vinna úr hans afla hér heima fyrir 12 millj. kr. á ári. Það þarf ekki nema framleiðslu rúmlega elns togara til þess að standa undir þeim gjaldeyri, sem þarf til þessara raforkuvera og veitna, svo framarlega sem rétt er á haldið. En hins vegar er vitanlegt, að það þarf náttúrlega að gera fleira á þessu tímabili. Ég vil aðeins undirstrika þetta til þess að leggja áherzlu á, hver undirstaða sjávarútvegurinn er undir öflun þess gjaldeyris, sem þarf til raforkuveranna og raforkuveitnanna. En ég vil líka leggja áherzlu á, að því meira sem hægt er að tengja þá raforku, sem við hugsum til að framleiða, við vaxandi iðju í landinu, hvort heldur það er í sambandi við fiskiðnaðinn eða annan iðnað, því betra upp á það að fá rafmagnið ódýrara. Þess vegna væri mjög æskilegt, ef hæstv. ríkisstj. léti okkur heyra, hvað hún hefur hugsað fyrir um aukninguna á öðrum þáttum þjóðarbúskaparins.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. og vitna þar til hennar eigin stjórnarsamnings. Utan við þetta frv., sem hér er til umr., er áframhaldandi virkjun Sogsins og Laxár. Ég hef flutt ásamt öðrum tvö frv. á þessu þingi, þar sem komið er inn á lánsútveganir til áframhaldandi virkjunar Sogsins. Það er vitanlegt, að þriðja virkjun Sogsins mun kosta milli 90 og 100 millj. kr., og það er nauðsynlegt, að það sé hafizt handa um hana nú þegar á þessu ári. Og í samningi ríkisstj., sem vitnað er í hér í grg. fyrir þessu lagafrv., stendur: „Auk þessa séu gerðar ráðstafanir til að hraða áframhaldandi virkjun Sogsins.“ Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh.: Hvað hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér viðvíkjandi áframhaldandi virkjun Sogsins? Það er ekkert frv. komið fram frá hæstv. ríkisstj. um neitt slíkt. Um sjálfa virkjunina eru að vísu lög til, en lánsheimild er engin til hennar. Ég vil um leið leyfa mér að minna þær nefndir, sem geyma vel þau frv., sem ég hef flutt um það efni, lánsútveganir til áframhaldandi virkjunar Sogsins, — minna þær á, að þær mættu gjarnan fara að hraða sínum störfum.

Þá vildi ég enn fremur minna á, að í frv., sem ég hef flutt hér í þessari hv. d. um rafmagnsmálin yfirleitt, er rætt um heimild til rannsókna og undirbúnings að virkjun Þjórsár. Það er engum efa bundið, að ef við hugsum um rafmagnsmálin fyrir næsta 10 ára tímabil, þá er ákaflega eðlilegt fyrir okkur að hugsa eitthvað um þann hlut, og er ég þó þar með ekki að meina, að það ætti að fara að taka neitt slíkt upp í þetta frv. Það yrði að vera alveg sjálfstætt auðvitað, eins og ég hef líka lagt til í því frv., sem ég hef flutt. Mér þætti þess vegna mjög vænt um, að það kæmi greinilega fram, annaðhvort nú við 1. umr. þessa máls eða þegar þetta mál kemur úr nefnd, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér viðvíkjandi áframhaldandi virkjun Sogsins.

Þá vil ég leyfa mér í þriðja lagi að beina fsp. til hæstv. ríkisstj., ekki sízt í sambandi við það, sem hún talar um fjáröflunina til þessara framkvæmda úti um land. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., þegar hún nú talar um, að hún þurfi að útvega 250 millj. kr., hvort hún ætli sér sjálf að taka af þessum 250 millj. kr. í ríkissjóð 25 millj. kr. í söluskatt. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún ætli að íþyngja öllum þeim virkjunum, sem eigi að gera úti um land, öllum þeim sveitabýlum, sem eigi að fá rafmagn, með því að taka af öllu því, sem kemur til raforkuveranna, söluskatt á sama hátt og hún hefur tekið nú af Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni. Það var vitanlegt, að þær tvær virkjanir borguðu aðeins af þessum nýju virkjunum, sem teknar voru í notkun á síðasta ári, um 25 millj. kr. í söluskatt og aðra tolla til ríkisstj. Ég álít, að það væri eðlilegt, á sama tíma sem ríkisstj. er að gera ráðstafanir til þess að afla fjár, jafnvel að taka fé með allmiklum vöxtum, að sleppa þessum raforkuverum og vélunum til þeirra við söluskatt og aðra tolla í ríkissjóð. Ég get ekki séð búskaparvísindin í því, að hæstv. fjmrh. taki að láni 25 millj. kr., borgi af því 5% eða 6% í vexti til þess að borga þessar 25 millj. kr. í ríkissjóðinn. Ég fæ ekki séð búvísindin í því. Ég held, að það sé nær að sleppa öllum þessum raforkuverum og vélunum til þeirra við söluskatt og aðra tolla í ríkissjóð. Og ég fæ ekki betur séð en að með slíku móti mætti annaðhvort útvega 10% lægri upphæð en hér er talað um eða hins vegar auka um 10% það, sem yrði unnið á þessu 10 ára tímabili. Og ég álit, að Alþ. eigi að láta hæstv. ríkisstj. vita það, að Alþ. líti á slíkt sem molbúahátt í aðferðum við að afla fjár.

Enn fremur vil ég benda á, að það er alveg óþarfi að láta bankana taka, á meðan þessar virkjanir eru að komast upp, aðra eins hrottavexti af lánunum til þeirra eins og gert var viðvíkjandi Sogsvirkjuninni og Laxárvirkjuninni. Sogsvirkjunin ein borgaði 9 millj. kr. í vexti þessi tvö ár, sem verið var að reisa hana. Og það nær ekki nokkurri átt, þegar ríkið er í öðrum eins vandræðum með fé eins og það er, að það séu reiknaðir af sjálfum ríkisstofnununum þessir hrottavextir af þeim lánum, sem veitt eru til þessara þörfu og nauðsynlegu framkvæmda.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., og það er það síðasta í þessu: Hvernig hefur hún hugsað sér rafvirkjanirnar framkvæmdar, þ.e.a.s., í hvaða röð? Á hvaða svæðum á að byrja? Þegar áætlun er gerð, þá er gerð áætlun um það, hvar byrja skuli og hvaða virkjanir skuli fyrst fullgera og annað slíkt. Ég kem með þessa fsp., þó að ég sem þm. Reykv. hafi engra sérstakra hagsmuna að gæta, vegna þess að ég veit ósköp vel, að reipdráttur í sambandi við slíkt gæti leitt til ófarnaðar. Ég velt ósköp vel, að það eru ákaflega mörg byggðarlög á landinu, sem vilja gjarnan vera sem allra fyrst í því að fá raforkuna, eins og eðlilegt er. En þegar lagt er í fyrirtæki eins og raforkuver, þá verður að haga þessum fyrirtækjum með það fyrir augum, að það sé um leið sem praktískast tæknilega. Það dugir ekki að ætla svo að segja að hálfvirkja á einhverjum stað og láta það máske kosta 3/4 af því, sem full virkjun mundi kosta, bara til þess að klípa af fjárveitingu viðkomandi árs eitthvert fé í smávirkjun á einhverjum öðrum stöðum. Það væri ákaflega illa farið, ef það ætti að fara að hafa eins konar skömmtunaraðferð viðvíkjandi því, hvernig unnið væri að raforkuverum úti um land. Ég vil bara minna í því sambandi á vitlausustu, asnalegustu framkvæmdina, sem til er við notkun á ríkissjóðsfé, þar sem eru um 120 vegarspottar á hverju ári, þannig að öll sú tækni, sem höfð er við að leggja vegi, nýtist þannig verst með því að vinna að hverjum einasta spotta á hverju ári. Ég vil aðeins minna á, að ef það ætti að fara að hafa eitthvað svipað vit eða óvit í sambandi við raforkuframkvæmdirnar. þá yrði þetta allt saman gert margfalt dýrara en ella væri. En ég veit, hvernig kröfurnar eru í sambandi við raforkumálin í þessum efnum. Og ég álít það vera nauðsynlegt, að varað sé við að láta of mikið undan því að dreifa allt of mikið til að byrja með a.m.k. þessum stærri orkuverum. Menn þurfa að þora að horfast í augu við það að fullgera eitt almennilegt orkuver t.d. á Austurlandi, eitt almennilegt orkuver á Vesturlandi. Menn mega til með að ganga þannig frá þessum hlutum, að þeir séu tæknilega nokkurn veginn fullkomnir. Og það dugir ekki að taka tillit til þess, þó að á sama tíma menn á öðrum stöðum kvarti yfir því, að ekki skuli vera byrjað hjá þeim.

Þess vegna held ég, að það væri ákaflega æskilegt, að hæstv. ríkisstj. gæfi upplýsingar um það, í hvaða röð hún hugsaði sér að taka einmitt þessi mál. Ég segi þetta m.a. vegna þess, að ég veit ósköp vel, hvers konar reipdráttur kemur til með að verða einmitt á sviðum, þar sem núverandi stjórnarflokkar hafa sína fulltrúa, og oft er deilt hart um, í hvaða röð féð skuli lagt í þessa hluti. En þegar lagt er í svona stórvirki, þá er nauðsynlegt, að hagur heildarinnar og það, sem er tæknilega praktískast, sé látið ráða. Þess vegna álít ég, að það væri mjög gott, að slíkar upplýsingar kæmu fram, annaðhvort nú þegar við þessa umr. eða þegar þetta mál kemur aftur frá n., og ég vil mega vona, ef við fáum ekki fullnægjandi upplýsingar um þessi mál, áður en frv. fer til nefndar, að hv. fjhn., sem lagt er til að það fari til, afli sér þá upplýsinga um þessi mál.

Það eru engar sérstakar athugasemdir, sem ég hafði annars að gera við þá skýrslu, sem hæstv. landbrh. gaf. Það er viðvíkjandi fjárhagsmálunum í þessu sambandi, samhenginu við atvinnulífið og því, sem mætti verða til þess að létta fjáröflunina, sem ég fyrst og fremst hef hér flutt fyrirspurnir um, sem gott væri að fá annaðhvort nú eða þegar málið kemur til 2. umr. betri upplýsingar um.