02.04.1954
Neðri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

194. mál, raforkulög

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það er nú aldrei, að það hljóp í taugarnar á hv. 2. þm. Reykv. (EOl), að ég sagði það, að Alþ. tryði lítið á hans búvísindi. Þessi hv. þm., sem í hverri ræðu notar svívirðingar eins og „lygi“ og „svik“ um sína andstæðinga hér í Alþ., þolir það ekki, að ég segi, að Alþ. trúi lítið á hans búvísindi. Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. sé búinn að sjá það, og hann finnur það, — ég sé líka, hvernig andlitið kippist til á honum núna og hann verður blóðrauður í framan, — að Alþ. er orðið svo dauðþreytt á þessu fleipri hans, að það loka allir eyrunum í hvert einasta skipti, sem hann fer að halda ræðu, af því að það er sama ræðan, sem hann er búinn að halda hér í mörg ár, ræða, sem hann sjálfur trúir ekki á, því að það eru álög á þessum hv. þm., að hann talar alltaf gegn betri vitund, þegar hann stendur upp hér í þinginu. Þessu vil ég þá bæta við það, sem ég sagði áðan. — Hann hótaði því, að það skyldi koma niður á þessu frv., ef honum væri svarað nokkuð gegn þeim brigzlyrðum, sem hann eys á okkur hér í sínum ræðum alltaf. En ég vil bara segja þessum hv. þm. það, að mér er svo nákvæmlega sama, hvorum megin hryggjar hann liggur. Hann getur engu komið fram hér, því betur.