06.04.1954
Neðri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

194. mál, raforkulög

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það má telja, að með þessari öld hafi vaknað hugsjónin um að virkja aflið í fallvötnum landsins. Skáld og hugsjónamenn sáu þá í anda „aflið, sem vannst úr fossa þinna skrúða.“ Þeir gerðu sér grein fyrir því, „hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör“ með því að nota „máttinn rétt í hrapsins hæðum“. Og hugsjónamennina á árdegi aldarinnar langaði á þann hátt að „strá blómaskrauti yfir rústir grjótsins“, „að lyfta byrði, er þúsund gætu ei reist“ og láta „vatnaaga lýja skíran málm“. Eftir því sem á öldina líður, færist æ nær því marki, að þessar hugsjónir verði að veruleika. Ekki var langt liðið á öldina, þegar rafstöð var reist við Elliðaár og nokkrar smærri stöðvar hér á landi, og eftir því sem árin hafa liðið, þá hafa skrefin verið stigin í þessu efni eitt af öðru. Sogsvirkjunin var reist 1935–37 með 8800 kw., og sú virkjun var á árunum 1943–44 stækkuð um 5800 kw., og á árunum 1951–53 er enn gerð ný virkjun við Sogið, 31 þús. kw. Enn fremur hefur Laxá verið virkjuð og sú stöð stækkuð nú fyrir skömmu. Nefna má Andakílsárvirkjunina og fleiri stórvirki í þessum málum. S.l. 30 ár hafa enn fremur hér á landi verið reistar allmargar vatnsaflsstöðvar, einkastöðvar fyrir heimili. Þær framkvæmdir hófust um 1920 fyrir framtak sjálfmenntaðra hagleiksmanna í Skaftafellssýslu. En öll meiri háttar mannvirki af þessari gerð hafa verið reist samkvæmt l. frá Alþ. Alþ. hefur haft forustuna í þessu máli og lagt á ráð um öflun fjármagns til framkvæmdanna á hverjum tíma. Á þingi 1942 markaði Alþ. þá stefnu, að kostað yrði kapps um að leggja rafveitur um landið í því skyni að koma nægilegri raforku til ljósa, suðu, hitunar og iðnrekstrar — eins og það er orðað í till. — í allar byggðir landsins.

Þrátt fyrir það, sem unnizt hefur og ég hef nú drepið á, eru ástæður í raforkumálum landsins þannig, samkvæmt þeirri grg., sem hæstv. ráðh. gaf hér í d. við 1. umr. þessa máls, að rúmlega 4000 sveitabýll hafa ekki raforku eða þá mjög ófullnægjandi orku, að 39 þorp og kauptún hafa dieselstöðvar, sem eru ekki til frambúðar, og að 7 kauptún og þorp hafa ófullnægjandi orku frá gömlum vatnsaflsstöðvum, en í þessum kauptúnum og þorpum búa samtals 22 þús. manns.

Fjhn. hefur athugað þetta frv., sem hér liggur fyrir, og mælir eindregið með því, að það verði samþ. Frv. miðar að því að lögfesta eitt veigamesta atriðið úr samningi, sem gerður var milli stjórnarflokkanna, áður en núverandi stjórn var mynduð, það atriði, að hraðað verði byggingu orkuvera, dreifingu raforku og fjölgun smástöðva vegna byggðarlaga í sveit og við sjó, sem ekki hafa rafmagn eða búa við ófullnægjandi orku, og unnið verði jafnframt að lækkun raforkuverðs, þar sem það er hæst. Tryggt verði til þessara framkvæmda fjármagn, sem samsvarar 25 millj. kr. á ári að meðaltali næstu ár. Í þessu frv. er 10 ára áætlun um miklar framkvæmdir á þessu sviði. Frv. miðar að því, að gert verði stórt átak til að framkvæma stefnuna frá 1942 um að koma nægilegri raforku til ljósa, suðu, hitunar og iðnrekstrar í allar byggðir landsins. Frv. er spor í þá átt að gera að veruleika þá hugsjón að bæta lands og lýðs vors kjör og ljósið tendra með afli frá landsins hjartarót.

Í 1. gr. þessa frv. er nánar ákveðið, hvaða verkefni skuli framkvæma fyrir það fjármagn, sem ráðgert er að aflað verði í þessu skyni. Það er að koma upp raforkuverum rafmagnsveitna ríkisins utan orkuveitusvæðis Sogs- og Laxárvirkjananna, að gera aðalorkuveitur og dreifiveitur fyrir kaupstaði. kauptún og sveitir víðs vegar um landið, að veita bændum lán til að koma upp smárafstöðvum, bæði vatnsafls- og mótorstöðvum, þar sem raforkuþörf sveitanna verður ekki leyst á annan hátt, og að undirbúa virkjunarrannsóknir, eftir því sem þörf er á á hverjum stað. Enn fremur er gert ráð fyrir, að heimilt sé að verja nokkurri fjárhæð til þess að greiða niður raforkuverð, þar sem það er hæst.

Í skýringum, sem fylgja frv., er tekið fram, hve miklu fjármagni hefur verið varið síðan 1946 til framkvæmda, sem nefndar eru í 1.–4. tölul. 1. gr. Samkvæmt þeim skýringum hefur verið lagt fram til þeirra framkvæmda 61 millj. 772 þús. á átta árum, en það samsvarar 7.7 millj. kr. framlagi á ári hverju. Samkvæmt þessu frv. á að hækka þessi fjárframlög svo, að þau nemi að meðaltali 25 millj. á ári, en þó er gert ráð fyrir, að nokkru hærri fjárhæð verði lögð fram í þessu skyni fyrstu árin, eftir að frv. þetta verður að lögum, með það fyrir augum að hraða framkvæmdum meira en ella mundi hægt.

3. gr. frv. fjallar um fjáröflun til þeirra framkvæmda, sem gerðar verða samkvæmt þessu frv., ef að l. verður. Í a- og b-liðum þeirrar gr. eru ákvæði um það, að lögbundið skuli framlag úr ríkissjóði í þessu skyni árlega næstu 10 ár, en að öðru leyti kveður frv. sjálft ekki á um það, hvernig þessa fjár skuli afla, sem til framkvæmdanna þarf. En hæstv. ráðh., sem gerði grein fyrir þessu máli við 1. umr. þess, lýsti því þá yfir hér í d., að tekizt hefði að ná samningum við bankana um það, að þeir legðu fram sem lánsfé 140 millj. kr. á þessu tímabili. Fjhn. lítur þannig á, að þetta sé fullnægjandi trygging fyrir því, að framkvæmdir geti orðið í samræmi við þá stefnu, sem mörkuð er í frv.

Samkvæmt raforkulögunum er heimilt að veita úr raforkusjóði lán til einkarafstöðva, bæði vatnsaflsstöðva og mótorstöðva, sem reistar eru fyrir einstök heimili eða nokkra bæi saman. Í 35. gr. raforkulaganna er ákvæði um þetta á þessa leið :

„Úr raforkusjóði má veita einstökum bændum, sem einir eða fleiri saman reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan þess svæðis, sem héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til í náinni framtið, lán úr raforkusjóði, að upphæð allt að 2/3 stofnkostnaðar, og úr raforkusjóði má enn fremur veita bændum, sem ekki hafa aðstöðu til vatnsvirkjana, lán til að koma upp mótorrafstöðvum á heimilum sínum, allt að 3/5 stofnkostnaðar.“

Í framkvæmd hefur þetta verið svo, að það hefur ekki verið talið fært að veita bændum lán, sem nemur eins miklum hluta af heildarstofnkostnaði og raforkulögin heimila. Ég hygg, að lán til bænda samkvæmt þessari gr. raforkulaganna hafi að undanförnu ekki numið meiru en 1/3 hluta stofnkostnaðar. Það stafar að sjálfsögðu af því takmarkaða fjármagni, sem raforkusjóður hefur haft, og þeim mörgu og miklu verkefnum, sem þurft hefur að sinna með því takmarkaða fé. En fjhn. væntir þess, að um leið og fjárráð raforkusjóðs verða aukin og fjár aflað til framkvæmda á þessu sviði í samræmi við það frv., sem hér er til umr., þá verði framkvæmdinni um þetta atriði breytt á þann hátt, að bændum verði gefinn kostur á að fá hærri lán en hingað til vegna einkarafstöðva, helzt svo sem heimilt er að veita samkvæmt 35. gr. raforkulaganna, en það eru 2/3 hlutar stofnkostnaðar til vatnsaflsstöðva og 3/5 hlutar stofnkostnaðar til mótorrafstöðva.

Ég endurtek það svo að lokum, að fjhn. mælir eindregið með því, að þetta frv. verði samþ., og væntir þess, að hv. þm. ljái því fylgi.