11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Lagaákvæði þau, sem nú eru í gildi um fuglafriðun, eru orðin gömul. Lög um friðun fugla og eggja eru frá 1913, en önnur lagaákvæði, sem að þessu lúta, felast í tilskipun um veiði frá 1849 og eru því meira en 100 ára gömul. Það er nokkuð síðan vakin var athygli á því hér á hv. Alþingi, að ástæða væri til þess að endurskoða þessi lög. Á þingi 1947 var flutt till., þar sem skorað var á ríkisstj. að hefjast handa um að láta endurskoða lög um fuglaveiðar og fuglafriðun. En um sama leyti og þessu máli var hreyft hér á hv. Alþ., þá kom annað til, sem gerði það nauðsynlegt, að þessi lagaákvæði yrðu tekin til endurskoðunar.

Langt er síðan menn komu auga á það, að ekki væri nægilegt að setja ákvæði nm friðun fugla í einu landi, ef heimilt væri að ganga á fuglastofninn í öðru landi, vegna þess að mjög margar fuglategundir eru farfuglar, sem fljúga milli landa og dvelja á sitt hverjum stað eftir árstíma.

Það er því orðið langt síðan samvinna hófst á þessu sviði, alþjóðasamvinna um fuglaverndun. Fyrsta samþykkt í því efni var gerð 1902, en alþjóðafuglaverndunarsamband var stofnað 1922, og eru nú þátttakendur í því sambandi 38 ríki. Þegar á stríðsárunum síðustu komu upp raddir um það, að þörf væri á því að endurskoða samþykktína fyrir alþjóðafuglaverndunarsambandið og taka þetta mál allt til nýrrar endurskoðunar, og af því leiddi það, að ný samþykkt var gerð, sem gekk í gildi í okt. 1950.

Snemma á þessari öld gerðist Danmörk aðili að þessum alþjóðasamtökum um fuglaverndun, og meðan Ísland var í sambandi við Danmörku, komu danskir aðilar fram fyrir Íslands hönd í þessum alþjóðasamtökum. En eftir að stofnað var lýðveldi á Íslandi og fullur skilnaður átti sér stað milli landanna, þá fannst dönsku ríkisstjórninni, að aðilar frá Danmörku gætu ekki lengur komið fram fyrir hönd Íslands á þessum alþjóðavettvangi. Af því leiddi það, að 1946 barst íslenzku ríkisstj. málaleitun frá Danmörku þess efnis, að Íslendingar gengju í alþjóðafuglaverndunarsambandið. Eftir að íslenzka ríkisstj. hafði kynnt sér þetta mál, ákvað hún á árinn 1948 að skipa nefnd fimm Íslendinga, sem kæmi fram fyrir hönd Íslands í þessum alþjóðasamtökum. Bæði af þessu tilefni og af því tilefni, sem þá gat um áðan, að málinu var hreyft hér á þingi 1947, fól ríkisstj. sömu nefndinni sem á að koma fram fyrir Íslands hönd í alþjóðasamtökunum að taka til rækilegrar endurskoðunar lögin um friðun fugla og eggja og önnur lagaákvæði, sem að því lúta. Árangurinn af því starfi var frv., sem lagt var fram á Alþ. 1951. Menntmn. þessarar hv. d. fékk það frv. til athugunar og kynnti sér það allýtarlega. Það var álit nefndarinnar, að eðlilegt væri, að leitað yrði umsagna sýslunefnda, áður en mál þetta yrði lögfest. Menntmn. lagði því til á þingi 1951, að málið yrði þá afgreitt með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að ríkisstj. sendi frv. þetta til umsagnar sýslunefnda og bæjarstjórna og leggi það að nýju fyrir Alþingi að fengnum umsögn~um þessara aðila, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þessi till. til rökstuddrar dagskrár kom ekki til atkv. á því þingi, en hæstv. ríkisstj. tók þessa ábendingu n. til greina, og menntmrn. hlutaðist til um það, að málið var sent til umsagnar tel allra sýslunefnda í landinu. Á þeim tíma, sem síðan hefur liðið, hafa rn. borizt svör frá öllum sýslunefndum að undanskildum tveimur. Það eru sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu og sýslunefnd Strandasýslu, sem munu ekki hafa sent svör frá sér um þetta mál. Eftir að svör sýslunefndanna hafa borizt, hafa þau verið tekin til athugunar og frv. frá 1951 endurskoðað með tilliti til þeirra ábendinga, sem þar hafa komið fram. Árangurinn af þeirri endurskoðun er það frv., sem hér liggur fyrir og er í meginatriðum eins og frv., sem fjallað var um 1951, en þó hafa verið gerðar á því smávægilegar breytingar.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er ákveðið að lögfesta aðild Íslands að alþjóðafuglaverndunarsambandinu, en það er aðeins í samræmi við þá framkvæmd, sem orðin er eftir ákvörðun ríkisstj., þar sem íslenzkir aðilar hafa komið fram í þessum alþjóðasamtökum fyrir hönd íslenzka ríkisins allt frá árinu 1948. Enn fremur er stefnt að því með því frv., sem hér er fjallað um, að samræma íslenzk lagaákvæði um þetta efni hinni alþjóðlegu samþykkt um fuglaverndun. Í þriðja lagi er svo stefnt að því að auka friðun fugla að nokkrum mun frá því, sem ákveðið er samkv. þeim lagaákvæðum, sem nú eru í gildi. En sú stefna að auka friðun fugla er Læði í samræmi við ákvæði alþjóðasamþykktarinnar, í samræmi við sjónarmið þeirra manna, sem undirbúið hafa þetta frv. og kynnt sér málið í heild mjög vel, og enn fremur í samræmi við sjónarmið sýslunefndanna, eftir því sem fram kemur í umsögnum þeirra, sem borizt hafa. Þess ber þó að geta, að með þessu frv., ef að lögum verðum, er ætlazt til þess, að heimilt verði eftir sem áður að nytja fuglabjörg, þar sem skoða má slíka nytjun fugla sem hlunnindi jarða. Undantekningarákvæði, sem að þessu lúta, eru í 10. gr. frv., og munu þau ekki brjóta í bága við ákvæði alþjóðasamþykktarinnar að þessu leyti.

Til sönnunar því, sem ég hef nú sagt um stefnu frv., skal ég á það benda, að samkv. frv. verða það aðeins þrjár fuglategundir, sem engrar friðunar njóta hér á landi, en samkv. gildandi lagaákvæðum eru það yfir tuttugu fuglategundir, sem svo er ástatt um. Með frv. er einnig lagt til, að 10 fuglategundir, sem njóta friðunar hluta úr ári, verði nú friðaðar lengri tíma á árinu en heimilt er samkv. gildandi lögum. Til enn fyllri skýringar á þessu vil ég benda hv. þm. á, að á bls. 15 í grg. frv. er skrá yfir 54 fuglategundir, sem eiga að verða alfriðaðar samkv. ákvæðum þessa frv. Ef þetta er borið saman við þau lagaákvæði, sem nú gilda, þá kemur í ljós, að af þessum 54 tegundum er nú alfriðuð 31. Hluta úr ári eru friðaðar 20 fuglategundir. Ein af þeim tegundum, sem nefndar eru hér, er ófriðuð nú, en á samkv. frv. að verða alfriðuð, og um 4 þeirra er þannig ástatt, að þær eru friðaðar samkv. sérstökum lögum um visst árabil. Þegar á þetta er litið, þá verður glöggt, að með frv. er stefnt að því í heild að auka að mun friðun fugla frá því, sem nú er ákveðið.

Mér þykir rétt að víkja sérstaklega að ákvæðum frv. um friðun rjúpu. Það hefur hér á undanförnum þingum verið til athugunar, hvort alfriða ætti rjúpuna um vissan tíma eða um langt árabil og á hinn bóginn að leyfa veiði rjúpunnar nokkrar vikur á hverju hausti.

Það er álit dr. Finns Guðmundssonar fuglafræðings, sem hann hefur kynnt þingmönnum mjög rækilega, að fækkun á rjúpnastofninum eða þær sveiflur, sem eiga sér stað á rjúpnastofninum, standi ekki í sambandi við aukna veiði, heldur sé þar um að ræða aðrar orsakir. Og fuglafræðingurinn hefur lagt til, að nú um skeið yrði heimilað að veiða rjúpu nokkrar víkur á hverju hausti, og lagt á það áherzlu, að því yrði ekki breytt að svo stöddu, meðan verið væri að ganga úr skugga um, hvort skoðun vísindamanna í þessu efni hefði við rök að styðjast eða ekki. Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að þeim ákvæðum um friðun rjúpu verði ekki breytt, heldur lögfest, að heimilt verði að veiða rjúpu frá 15. okt. til 31. des. ár hvert.

Menntmn. hefur athugað frv. eins og það liggur nú fyrir, og n. mælir með því, að frv. verði samþ., og hefur ekki lagt fram brtt. víð það, en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Þess skal getið, að einn nm. var fjarstaddur, þegar málið var að lokum afgreitt úr nefndinni, og hefur af þeim ástæðum ekki skrifað undir nefndarálit.