16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Jón Pálmason:

Herra forseti. Snemma á þessu yfirstandandi þingi flutti ég frv. til heimildarlaga um fugladráp, aðallega rjúpu. Nú hefur hv. n., sem hafði með þetta frv. að gera, ekki skilað neinu áliti, og má það vera vorkunn, úr því að þetta stóra frv. hér um allsherjar fuglafriðunarlög hefur verið lagt fyrir hv. nefnd. En ég vildi taka það fram varðandi þann kafla í þessu frv., sem fjallar um fuglaveiðasamþykktir og nær að nokkru leyti þeim sama tilgangi sem ég fór fram á. í mínu litla frv., að í 14. gr. frv. er gert ráð fyrir aðferð til þess að koma á samþykkt, sem ég held að verði ákaflega örðugt að framkvæma og ég vildi biðja hv. menntmn. að taka til nánari athugunar.

Í mínu frv. lagði ég til, að þegar sýslunefnd hefði gert samþykkt og þyrfti að fá hana staðfesta af héraðsbúum, þá yrðu kallaðir á þann fund eingöngu hreppsnefndarmenn á svæðinu, hreppsnefndar- og bæjarstjórnarmenn, ef um kaupstað er að ræða á viðkomandi svæði, og ég held, að það sé alveg nægilegt. En að fara að kalla allan almenning á slíkan fund, það held ég að verði mjög örðugt í skiptum, og gæti farið svo, að það yrði nokkuð hendingakennt, hverjir þar mættu og hverjir ekki. Ég geri ráð fyrir því, ef farið er út í það á annað borð að setja fuglaveiðasamþykkt, hvort sem það yrði varðandi dráp á rjúpu eða um aðra fugla um leið, þá yrði slíkt mál rætt í hverju sveitarfélagi á svæðinu, og þá ætti það að vera miklu léttara og eðlilegra í vöfunum að kalla á samþykktarfundinn eingöngu þá, sem eru í hreppsnefndum og bæjarstjórnum á viðkomandi svæði. Ég hef nú ekki flutt um þetta brtt., en vildi biðja hv. n. að taka þetta til athugunar.

Annað atriði er það, sem ég vil víkja að hér í sambandi við aðalfriðunarákvæðin, að samkv. þessum lögum er hér gert ráð fyrir því, að það megi drepa allar andir á vissum tíma árs og allar tegundir af gæsum, og er hvort tveggja kannske nokkuð vafasamt. En það er sleppt þarna einum fugli, sem fullkomin ástæða er til þess að heimila að megi einnig veiða, og það er álftin. Og það er vegna þess, að í mörgum héruðum er álftin hálfgerður skaðræðisgripur, vegna þess að það eru fleiri hundruð fuglar, sem oft safnast í engjalönd á beztu engjasvæði landsins á vorinu. Er það eins og að fá stóðhópa í engjarnar, og eru mjög margir menn, sem þessu hafa kynnzt og kunnugir eru þeim málum, sem vita, að það verður að setja upp hræður eða hafa einhverjar varnir til þess að varna því, að engjarnar séu eyðilagðar af þessum stóru hópum af álftum. Nú er álftin að vísu, eins og margir okkar fuglar, ágætur og fagur fugl, en ekkert þó frekar en sumir aðrir, og það mikið af henni, að það mundi ekki vera nein hætta á því að leyfa veiði á þessum fugli eins og mörgum öðrum tiltekinn tíma af árinu. Ég vildi nú einnig biðja hv. n. að taka þetta til athugunar, og ef hún fellst ekki á að gera það, þá kynni að vera, að ég flytti um þetta brtt. fyrir 3. umr. málsins.

Að öðru leyti en þessu tvennu skal ég ekki fara út í málið, enda þótt hér sé um mjög viðtækt mál að ræða og kannske nokkuð vafasamt að knýja það í gegn á fyrsta þingi, sem það er sýnt, vegna þess að enda þótt hér hafi verið leitað umsagnar ýmissa manna um þetta mál, þá eru skoðanir á því allmikið skiptar víðs vegar um land.