22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lýsti ég nokkrum athugasemdum, sem ég hefði við frv. að gera, og gat þess þá, að ef þær yrðu ekki að neinu leyti teknar til greina af hv. menntmn., þá mundi ég freista þess að flytja brtt. varðandi þau atriði, sem ég minntist á. Ég hef nú flutt þær, og er þær að finna á þskj. 488.

Það er þá í fyrsta lagi að breyta c-lið 8. gr. þannig, að við bætist orðið „álft“. Í þessum lið, e-lið, segir, að það megi veiða þá fugla, sem þar eru taldir upp, frá 20. ágúst til 31. okt., og þar er talið upp grágæs, blesgæs, heiðagæs, margæs, helsingi, urtönd, grafönd, skúfönd, duggönd og hrafnsönd. Sem sagt er í þessu frv., eins og það liggur fyrir, gert ráð fyrir því, að það megi veiða allar andategundir og allar gæsategundir, en ekki álft. Nú vita þeir, sem eru kunnugir okkar fuglalífi, að það er miklu auðveldara að veiða í stórum stíl jafngæfa fugla eins og andir eru, og það er líka á vissum tíma árs áreiðanlega auðveldara að veiða t.d. heiðagæsina, sem er mjög bundin við ákveðna staði, heldur en jafnstyggan fugl eins og álftin er. Og orsökin til þess, að ég tel, að það sé rétt, að hún sé ekki alfriðuð allt árið, er það, að þetta er á vissum stöðum skemmdarvargur, enda þótt það sé fallegur fugl, eins og margir aðrir okkar fuglar eru.

Þá er hin brtt. mín, eða í raun og veru bæði 2. og 3. brtt. með undirliðum, bundin við það eitt, að það er gert ráð fyrir samkv. brtt., að það séu fleiri sýslufélög eða bæjarfélög en eitt, sem geta gert fuglaveiðasamþykktir, en samkv. frv., eins og það er, er ekki gert ráð fyrir, að það sé nema einn aðili, ein sýslunefnd, sem stendur að hverri samþykkt. Nú er það t.d. vitaður hlutur, að það er þýðingarlítið fyrir Borgfirðinga eða heldur óeðlilegt fyrir Borgfirðinga t.d. að gera fuglaveiðasamþykkt fyrir sitt hérað, ef ekki eru Mýramenn líka með eða ef ekki er bæjarfélagið Akranes líka með. Allir þessir aðilar yrðu að vera með í því, ef það ætti fyrir þetta stóra hérað að gera fuglaveiðasamþykkt. Eins er þetta t.d. með Skagafjörð. Það er heldur einkennilegt að fara að gera fuglaveiðasamþykkt fyrir Skagafjarðarsýslu, ef ekki væri tekið með bæði Sauðárkrókur og jafnvel Siglufjörður. Mínar brtt. eru miðaðar við það að gera framkvæmanlegt, þegar mönnum sýnist svo, að það séu fleiri sýslufélög eða bæjarfélög saman um hverja fuglaveiðasamþykkt. Þar að auki eru, eins og nú er gengið frá frv., engin ákvæði um það, hvenær fundur sé lögmætur, sem boðað er til sem samþykktarfundar. Það geta sem sagt, ef á að boða þangað allan almenning, örfáir menn, sem af tilviljun koma á slíkan fund, ákveðið samþykkt eða staðfest samþykkt, sem sýslunefnd hefur gert. Allar þessar till. eru bundnar við það eitt, að það geti verið fleiri sýslun. eða bæjarstjórnir en ein, sem séu aðili að fuglaveiðasamþykkt, og því er ekki að leyna, að í þessu sambandi hef ég fyrst og fremst haft þann fugl í huga, sem ég hef flutt frv. um áður, sem er rjúpan. Og það er gefinn hlutur, að það er þýðingarlaust að fara að gera samþykkt um sérstaka friðun á rjúpu og önnur þau atriði, sem þar koma til greina, nema því aðeins að það sé töluvert stórt svæði, sem tekið er með. — Að öðru leyti sé ég ekki, nema tilefni gefist síðar til, ástæðu til að segja um þessar brtt. fleiri orð.