22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Menntmn. hefur tekið þetta mál til umræðu að nýju, eftir að 2. umr. málsins fór fram hér í d. N. hafði borizt eindregin ósk um það frá þingmönnum Skagf., að nokkuð yrði slakað til á ákvæðum frv. í 21. gr. um að banna veiði með flekum. Sú veiðiaðferð mun hvergi stunduð hér á landi nema við Drangey og ef til vill eitthvað við Grímsey. Þingmenn Skagf. telja, að með því að banna algerlega þessu veiðiaðferð, þá jafngildi það nánast því að banna fuglaveiði við Drangey. Hæstv. landbúnaðarráðherra kom á fund menntmn. til viðræðu um þetta atriði, og dr. Finnur Guðmundsson, sem var form. þeirrar n., er samdi frv., mætti einnig þar til viðræðu á fundi n. Niðurstaðan af þessu varð sú, að menntmn. flytur brtt. á þskj. 500, sem felur í sér undantekningarákvæði að þessu leyti á þann hátt, að ef ákveðið er í fuglaveiðasamþykkt, sem sýslunefnd setur, að nota megi snörufleka til veiða á takmörkuðum svæðum, þá teljist það heimilt.

Það er stefnt að því með frv., sérstaklega með 10. gr. þess, að koma í veg fyrir, að þau hlunnindi, sem landeigendur hafa haft af nytjum fugla, þurfi að leggjast niður, þó að frv. þetta verði lögfest, og í samræmi við það þótti menntmn. rétt að verða við þeim tilmælum, sem henni bárust um þessa breytingu, og hefur því lagt þessa till. fram og vill að sjálfsögðu mæla með því, að hv. þd. fallist á hana.

Síðan 2. umr. um þetta mál fór fram hér í d., hafa komið fram þær brtt., sem hv. þm. A-Húnv. og hv. þm. N-Þ. hafa nú gert grein fyrir. Í brtt. hv. þm. A-Húnv. er lagt til að leyfa veiði á álftum nokkurn hluta úr ári. Þess ber að gæta, að álftir eru nú alfriðaðar samkv. gildandi lögum og hafa verið a.m.k. síðan 1913, að þau lög voru sett. Og þar sem það er nú meginstefna þessa frv., sem hér liggur fyrir, að auka friðun fugla frá því, sem verið hefur, þá telur menntmn. ekki rétt að gera þá undantekningu með að leyfa veiði á álftum, sem þessi till. fjallar um.

Ég benti á það hér við 2. umr. málsins, að ákvæði þessa frv. um fuglaveiðasamþykktir eða hvernig til þeirra skyldi stofnað væru í fullu samræmi við þau lagaákvæði, sem nú eru í gildi um þessi efni og reynsla er fengin fyrir. Þessar fuglaveiðasamþykktir, sem frv. fjallar um, eru bundnar við nytjun þeirra hlunninda, sem um ræðir í 10. gr., og er það því á allan hátt eðlilegt, að þeir aðilar, sem hagsmuna hafa að gæta í sambandi við þau hlunnindi, fjalli um þessar fuglaveiðasamþykktir, um leið og þær eru settar á stofn.

Í brtt. hv. þm. N-Þ., 1. lið þeirra, er lagt til, að bætt verði við fyrri málsgr. 3. gr. frv. því ákvæði, að fuglaveiðiréttur landeigenda í óskiptri sameign sé í réttu hlutfalli við afnotarétt lands, nema samkomulag verði um aðra skipan. Í sjálfu sér virðist þetta ákvæði ekki óeðlilegt, en þess ber að gæta, að það mundi verða torvelt í framkvæmd; m.a. þegar landeigandi veitir veiðileyfi, en stundar ekki veiðina sjálfur, þá yrði næsta erfitt að fylgjast með því, að veiðin yrði í hvert sinn í réttu hlutfalli við afnotarétt landsins.

En veigamesta brtt., sem hv. þm. N-Þ. ber fram, er 2. brtt. hans, sem fjallar um það, að fuglaveiði verði algerlega bönnuð á almenningum, sem liggja utan lögbýla og enginn getur sannað eignarrétt sinn til. Þetta ákvæði er mjög gamalt. Hér er ekki neitt nýmæli á ferð, sem sett er inn í frv., eins og frvgr. er orðuð, því að í fuglaveiðasamþykkt frá 1849, sem enn er í gildi, en á að afnema með þessu frv., segir svo í 2. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Á afréttum, sem fleiri eiga saman, ber veiði þeim mönnum, sem afrétt heyrir til, en á almenningum er öllum veiði jafnheimil.“

Þannig er inn í frv., eins og það liggur fyrir, fellt þetta meira en hundrað ára gamla ákvæði, sem ekki er kunnugt um að sérstaklega hafi verið kvartað yfir, þótt í gildi væri. Þess ber líka að gæta, að hin almennu ákvæði frv. um friðun fuglategundanna ná jafnt til þeirra fugla, sem verpa eða hafa aðsetur á almenningum, eins og þó að þeir fuglar séu í byggð. Veiðin er aðeins leyfð innan þeirra takmarka, sem hin almennu friðunarákvæði frv. leyfa. Þessi till. er í raun og veru um það að takmarka rétt til fuglaveiða algerlega við landareign, þannig að öllum Íslendingum, sem búa í kaupstað, sé fuglaveiði óheimil nema fá til þess leyfi einhvers landeiganda. Orðalag till. er líka á þann hátt, að nokkrum erfiðleikum kynni að valda í framkvæmd. Í till. segir: „Þó getur ráðherra veitt valinkunnum mönnum veiðileyfi.“ Ráðherra yrði í hverju dæmi að meta það, hverjir væru valinkunnir menn og hverjir ekki. Ég álít, að þetta yrði ekki alls kostar vandalaust í framkvæmd.

3. brtt. er um nokkru meiri takmörkun á starfssviði þeirra manna, sem starfa við dýrafræðideild náttúrugripasafnsins, heldur en frv. gerir ráð fyrir. Till. hv. þm. N-Þ. er samhljóða till., sem sýslunefnd Þingeyjarsýslu gerði um þetta mál, en eins og frvgr. er núna í frv., þá er hún nákvæmlega samhljóða till., sem sýslunefndir beggja Húnavatnssýslna gerðu um þetta atriði málsins. Þetta er nú dæmi um, í hvaða vanda hv. þdm. mundu lenda, ef hver um sig ætlaði að fara að halda fram nákvæmlega því orðalagi, sem sýslunefnd úr kjördæmi því, sem hver einstakur þingmaður er, hefði lagt til. N., sem hefur samið frv., hefur lagt sig mjög fram um að þræða það orðalag, sem bezt hentaði, en gæta þess þó jafnframt að taka svo mikið tillit til þeirra sjónarmiða, sem fram hafa komið frá einstökum sýslunefndum, sem fært þykir. Það er því álit menntmn., að eðlilegast sé, að þessi frvgr. standi óbreytt.

4. brtt. hv. þm. N-Þ. fjallar um að breyta nokkuð ákvæðum frv. um friðun einstakra fuglategunda. í a-lið till. er lagt til, að í stað þess, að frv. gerir ráð fyrir, að heimilt verði að veiða gæsir og ýmsar andategundir frá 20. ágúst, þá leggur hv. þm. N-Þ. til, að veiðitíminn megi ekki byrja fyrr en 20. sept., eða einum mánuði síðar. Tímamarkið 20. ágúst er miðað við það, að þá sé varptíma tegundanna lokið og ungar þeirra orðnir fleygir og sjálfbjarga. En það er kunnugt, að sumar þær tegundir, sem þarna er rætt um, t.d. gæsir, gera nokkur spjöll á garðiöndum manna og sáðreitum einmitt á þessum tíma, síðari hluta ágústmánaðar og september, þegar þær koma frá varpstöðunum og áður en þær fara til sjávar eða til annarra landa. Ég hygg því, að ýmsir bændur og þeir, sem rækta garðagróður hér á landi, yrðu ekki þakklátir fyrir það, ef gæsir yrðu friðaðar einmitt þennan mánuð, sem þær gera mest spjöll. — Þá er gert ráð fyrir í brtt. hv. þm. N-Þ. að leyfa veiði á lóm og litlu toppönd um tiltekinn tíma árs, en alfriða stóru toppönd og helsingja. Forstöðumaður náttúrugripasafnsins, sem mun nú hafa manna mesta þekkingu á fuglalífi landsins, telur, að hvorki helsingi né stóra toppönd séu svo sjaldgæfir fuglar, að nokkur hætta sé á, að þeir fuglastofnar gangi til þurrðar eða þeim verði gereytt, þótt veiði þeirra verði leyfð þennan tiltekna tíma eins og frv. gerir ráð fyrir. — Þá vill hv. þm. N-Þ. stytta veiðitíma rjúpunnar frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., þannig að rjúpnaveiði megi ekki hefja fyrr en 1. nóv., í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að þá veiði megi hefja 15. okt. Þessi brtt. er ástæðulaus, en mun raunar hafa lítið gildi, því að rjúpnaveiðar hefjast ekki að jafnaði fyrr en komið er nokkuð fram á haustið. Þá vill hv. þm. enn fremur stytta veiðitímann þannig, að í stað þess að frv. gerir ráð fyrir að heimila veiði til áramóta ár hvert, þá sé veiðitímanum lokið 22. des., væntanlega til þess að rjúpan fái jólafrí. En ég hygg, að rjúpnaveiði sé nú ekki stunduð yfir jólahelgina sjálfa, og enda mun það nú vera bannað samkv. öðrum lögum, svo að þessi brtt. hefur þar af leiðandi mjög lítið gildi, og virðist eðlilegast að halda sig við þau ákvæði, sem frv. hefur að geyma um þetta efni.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja þetta nánar í einstökum liðum, en ég vil að lokum benda á það, að við atkvgr. eftir 2. umr. í þessari hv. d. var samþ. að breyta orðalagi, sem við nánari athugun fær ekki staðizt og ég benti raunar á þegar við umr. Í frv., eins og það lá þá fyrir þessari hv. d., var talað um friðlýst æðarvörp, en þessu breytti d. í friðlýstar varpstöðvar nytjafugla. Slíka friðlýsingu nytjafugla, annarra en æðarfugls, er ekki um að ræða hér á landi, og þetta orðalag er þess vegna sízt til bóta eða nákvæmara heldur en það var upphaflega í frv. Og eins og kunnugt er, þá eru fuglar flokkaðir eftir líkamsbyggingu þeirra, og slíkri flokkun verður ekki breytt með ákvæðum í löggjöf. Nú er það svo, að ránfuglar hér á landi eru fáir og svo sjaldgæfir, að nauðsyn þykir bera til, að þeir verði alfriðaðir, enda hefur svo verið með sérstökum lögum nú um nokkurt árabil, að örn og fálki eru alfriðaðir, og smyrill á að verða það samkv. þessu frv., ef að lögum verður. En það eru aðeins þrjár fuglategundir, sem eiga að verða ófriðaðar, þ.e. kjói, hrafn og svartbakur, en í þessari hv. d. var samþ. eftir 2. umr., að það mætti ekki skjóta, nema brýna nauðsyn bæri til, svo sem vegna útrýmingar ófriðaðra ránfugla. Veiðibjallan verður ekki ránfugl, hvað sem um þetta segir í lögum, og þess ber að gæta, að þetta frv., ef að lögum verður, á að þýða á erlend mál og senda til albjóðafuglaverndunarsambandsins svo fljótt sem auðið verður, og er því ástæða til að gæta varúðar við að fella inn í það brtt. nema að nokkuð vel athuguðu máli. Þetta vildi ég láta koma fram hv. þdm. til athugunar og mæli með því f. h. menntmn., að brtt. sú, sem n. flytur á þskj. 500, verði samþ., en frv. að öðru leyti afgr. eins og það liggur nú fyrir eftir 2. umr.