24.03.1954
Efri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (854)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mál þetta hefur verið í deiglunni nokkuð lengi. Var það fyrst undirbúið af nokkrum sérfræðingum og áhugamönnum og lagt fyrir þingið. Þá var óskað eftir frekari athugun. Sú athugun átti sér síðan stað, með því að leitað var til sýslunefnda í landinu og fengið þeirra álit um frv. Sérfræðingarnir athuguðu þær álitsgerðir og menntmrn. athugaði síðan rækilega allar þær till., sem fram voru komnar, og lagði frv. með nokkrum breytingum fyrir hv. Nd. í vetur. Má því segja, að málið sé nú búið að fá mjög rækilega meðferð. Á því hafa verið gerðar nokkrar smávægilegar breytingar í Nd. Fljótt á litið sýnast mér þær ekki skipta miklu máli, en ég vildi beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún beri sig saman við þá sérfræðinga, sem hafa átt mestan þátt í samningu frv., um það, hvort þeir telji frá sínu sjónarmiði nokkuð við brtt. að athuga. Að svo mæltu vil ég mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn., sem það hefur, að því er ég hygg, verið í í Nd.