05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Þetta mál er engan veginn nýtt hér á Alþingi, því að það kom fyrst fram 1951 í því formi, sem það var samið. Það var þó ekki tekið til efnislegrar afgreiðslu á Alþingi þá, heldur taldi menntmn. Nd., sem tók það til meðferðar, að réttast væri, áður en lengra væri farið, að leita umsagna sýslunefnda og bæjarstjórna, og tók nokkurn tíma að fá afgreiðslu frá þessum sýslunefndum og bæjarstjórnum, einkanlega bæjarstjórn Vestmannaeyja, því að það snertir Vestmannaeyjar allmikið. Síðan tók sama nefndin við þessu frv. aftur sem hafði samið það og vann úr þeim gögnum, sem hún hafði fengið frá sýslunefndum og öðrum, og eftir þá endurskoðun var frv. aftur tilbúið 1952, en hefur þó ekki komið fram á Alþingi fyrr en nú. Frv. hefur gengið í gegnum Nd. með nokkrum breytingum, en menntmn. Ed. hefur haft það til umr. og gert á því nokkrar breytingar, sumar og reyndar flestar fara í þá átt að færa það í sama stíl og það var í upprunalega frv.

Það er 6. gr. frv., sem fyrst er gerð brtt. við, og hún er um að umorða greinina og koma henni í sama horf og hún var í upphaflega frv. Það er um, að starfsmönnum frá dýrafræðideild Náttúrugripasafns Íslands skuli heimilt að veiða fugla og safna eggjum handa safninu hvar sem er, en þess að endurgjald komi fyrir, enda geri þeir landeiganda aðvart fyrir fram og sýni skilríki sín, verði því við komið. En í frv., sem kom frá Nd., var ákvæðið þannig, að þeir megi merkja fugla, skjóta fugla og taka egg í samráði við landeiganda, en í óbyggðum því aðeins, að þeir hafi leyfi ráðherra fyrir því. Þetta hefur verið fellt niður, og er þetta eins og frv. var í upphafi.

Um 9. gr. er það að segja, að þar var gerð breyting á og fært á sama hátt og hafði verið upphaflega í frv. Breytingin liggur aðallega í því, að í frv. frá Nd. stendur, að skot skuli bönnuð „nær friðlýstum varpstöðum nytjafugla en 3 km“, en samkv. breytingunni: nær friðlýstu æðarvarpi en 2 km. Svo eru smávegis orðalagsbreytingar í 9. gr., þar sem í stað „bæjarfógetar og sýslumenn“ skuli koma: lögreglustjórar.

Við 10. gr. er sú breyting, að 3. málsgr. falli niður. Það kemur til af því, að það hljóðar eingöngu um Vestmannaeyjar. Í Vestmannaeyjum skulu svartfugl, langvía, stuttnefja, álka og lundi vera algerlega friðuð fyrir öðrum veiðitækjum en háf, enda skulu öll skot bönnuð frá 15. apríl til 1. september. Þetta er talið rétt að falli niður, vegna þess að fuglaveiðasamþykktir geta alveg ráðið um þetta, og er því engin þörf á að hafa það í sjálfum lögunum.

19. gr. er breytt aftur. Hún fjallar um það, að eigi megi nota flugvélar, bifreiðar eða vélbáta eða önnur vélknúin farartæki á landi eða vötnum til fuglaveiða til að elta uppi fugla eða reka. Það hafði verið felld þarna úr upphaflega frv. setning, sem sett var inn af nefndinni: „Farartæki þessi má þó nota til að flytja veiðimenn, veiðihunda og veiðitæki að og frá veiðistað.“ Það er til að gera það skýrara, að það er ekki óleyfilegt að nota t.d. bifreiðar til að komast að veiðisvæði. En með frv. er átt við það nm leið, að ekki má skjóta fugla úr bifreiðum eða úr flugvélum eða einhverjum öðrum ferðatækjum.

Á 20. gr. er gerð sú breyting, að eigi megi nota net til fuglaveiða á sjó eða vötnum. Það er eins og var upphaflega í greininni. Aftan við greinina bætist auk þess ný málsgr., sem sé þannig: „Eigi má nota net til fuglaveiða á landi. Þó skal heimilt að veiða lunda í net, þar sem lundagröftur stendur æðarvarpi fyrir þrifum. Þessa veiðiaðferð má þó ekki stunda, nema verið sé yfir netjunum og fuglinn hirtur úr þeim jafnóðum eða þeirra sé vitjað minnst tvisvar á dag. Heimilt skal að nota háfa til bjargfuglaveiða.“

Við 21. gr., sem er síðasta greinin, sem breyting er gerð á, er lagt til, að orðið „svartfuglasnörur“ falli niður. Það er þannig, að það sé leyft að veiða í svartfuglasnörur, sem er nú víst mjög litið tíðkað, af því að það sé um leið fljótasta og öruggasta aflífunaraðferðin. Í þessari grein er felldur niður síðari málsl., en hann hljóðar svo, eins og það kom frá Nd.: „Þó má með ákvæðum í fuglaveiðasamþykkt heimila að nota fleka (snörufleka) til fuglaveiða á takmörkuðum svæðum.“ Nefndin er andvíg þessu ákvæði og leggur til, að það sé fellt niður.

Fleiri breytingar voru ekki gerðar á frv., og vonast nefndin til, að það geti orðið samþykkt í þessu formi, sem það er.