08.04.1954
Neðri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

124. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 6. gr. frv., og sú brtt. er á þskj. 721. Hún er þess efnis, að til eggjatöku og fuglaveiða þeirra, sem heimilaðar eru í 6. gr., þurfi samþykki þess manns, sem fyrir landi ræður. Þegar málið var til 3. umr. í þessari hv. d., þá var samþ. brtt. frá mér um þetta efni, sem gekk nokkru lengra í takmörkunum á svona fuglaveiðum og eggjatöku heldur en þessi gerir. En þar var sá galli á, að eftir að sú brtt. hafði verið samþ. og frv. að öðru leyti fengið þá meðferð, sem það fékk í d., kom í ljós, að sum ákvæði í gr. komu ekki heim við önnur ákvæði frv. Hv. Ed. sá, að á þessu þurfti bót að ráða, og gerði það á þann hátt að fella ákvæðið alveg niður. Ég sé ekki ástæðu til þess að una því og geri varla ráð fyrir, að hv. d. geri það heldur, og þess vegna hef ég nú borið brtt. þessa fram á þskj. 721 í því formi, að hún er alveg í samræmi við frv. að öðru leyti, þannig að hún hefur ekki í för með sér neinn formgalla á l. Ég vil svo vænta þess, að afstaða d. sé hin sama og hún var við 3. umr. Það virðist engin ástæða til þess, að farið sé að skjóta fugla, þótt í vísindalegum tilgangi sé, ef landeigandi beinlínis af einhverjum ástæðum vill ekki leyfa það. Það eru nógir staðir og nógar jarðir á landinu, þar sem slíkt má gera, þótt það sé ekki endilega gert þar, sem umráðamaður lands af einhverjum ástæðum setur sig á móti því.