25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir frv. þessu í gær í löngu og ýtarlegu máli, svo að ég ætla ekki að endurtaka neitt af því aftur, en langar til að minnast á eina hlið skattamálanna, sem tiltölulega hefur verið lítið rædd. Ég álít, að þær till., sem fyrir liggja um breytingar á skattalögunum, séu að mörgu leyti til mikilla bóta frá því, sem nú er. Hér eru sett inn í l. ýmis ákvæði, sem lengi hefur verið nauðsyn að fá. Má þar nefna hækkun á persónufrádrætti, hækkun á frádrætti vegna iðgjalda lífeyristrygginga og líftrygginga, sérstakan frádrátt fyrir hlífðarfatakostnaði fiskimanna, skattfrelsi sparifjár o.fl., auk þess sem skattstiginn hefur verið lækkaður um og yfir 20%, að ég hygg, og er talið, að öll lækkunin muni nema um 29%.

En þó að hér hafi talsverðar umbætur verið gerðar, þá þurfa hv. þm. að gera sér það ljóst, að frambúðarlagfæring hefur aðeins verið gerð bjá hinum persónulegu skattgreiðendum, og hefur því annar meginhluti skattalaganna, um álagningu félaga, enga leiðréttingu fengið nema rétt til bráðabirgða, og þó er þetta sá hluti skattþegnanna, sem alls enga leiðréttingu hefur fengið í skattalögunum síðan 1942 þrátt fyrir gífurlega verðrýrnun peninga á þeim tíma. Það, að ekki hefur tekizt nú að gera lagfæringu á þessum hluta l., stafar af því, að ekki hefur unnizt tími til að ganga frá þessu vandasama máli. Hinir persónulegu gjaldendur hafa allan tímann, sem verðbólgan hefur farið vaxandi, fengið leiðréttingu að ákveðnu marki, með því að tekjur þeirra til skatts hafa verið lækkaðar í hlutfalli við verðrýrnun peninganna og hækkun dýrtíðarinnar. En enga slíka leiðréttingu hafa hinir ópersónulegu gjaldendur fengið, eða félögin. Þessir gjaldendur greiða enn skatt eftir þeim skattstiga, sem í gildi var 1942, ásamt viðbótartekjuskatti og stríðsgróðaskatti. Þeir fá að halda eftir sömu krónutölu nú og þá var, þó að krónan sé nú ekki meira en 10 aura virði á við það, sem hún var þá. Þetta er óviturlegasta stefna í skattamálum, sem hægt er að reka, ekki sízt þegar þar við bætist, að bæjar- og sveitarfélög hafa tekið upp þá stefnu í útsvarsálagningu að leggja á öll fyrirtæki, sem einhvern rekstur hafa, þung veltuútsvör án nokkurs tillits til nettótekna gjaldendanna eða afkomu skattþegnsins, enda er nú svo komið, að mestallur rekstur í landinu er í slíkri hættu vegna skattheimtu ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, að allt útlit er fyrir, að það hafi stórkostlega alvarlegar afleiðingar, et ekki er farið inn á aðra braut, áður en langt um líður. Þjóðin lifir á atvinnuvegum sínum, en atvinnuvegirnir geta því aðeins lifað og haldið áfram að veita mönnum atvinnu, að þeir séu ekki tærðir upp af of þungri skattheimtu.

Þessi leiðrétting, sem nú er gerð á skattalögunum, er því gersamlega óviðunandi og ófullnægjandi, ef atvinnureksturinn í landinu fær ekki sanngjarna leiðréttingu til frambúðar og ef skorður eru ekki settar við því, að hægt sé að skattleggja hann úr hófi fram og án nokkurra takmarkana. Eins og kunnugt er, eru engir skattar frádráttarhæfir nema eignarskattur, síðan hin almenna frádráttarheimild var numin úr l. Skattþegnarnir hafa því enga vörn gegn ágangi þess opinbera valds, sem leggur á útsvör og skatta, nema löggjafinn veiti þeim vernd með því móti að setja einhver takmörk fyrir því, hvað þunga skatta má á þá leggja. Veltuútsvarið kemur þyngst niður á félögunum, vegna þess að það er lagt á án nokkurs tillits til teknu skattgreiðendanna. Þetta verður að telja óeðlilega og óviðeigandi skattheimtu, þó að bæjar- og sveitarfélög hafi farið inn á þessa braut af illri nauðsyn, en það verður ekki hjá því komizt, að einhverjar skorður verði settar við þessu, því að menn þola ekki slíkt til lengdar.

Til þess að finna orðum mínum stað um óhæfilega skattlagningu félaga í ýmsum greinum, skal ég lofa hv. þm. að heyra hér nokkur dæmi um það, sem ég kalla óverjandi áiögur. Þess ber að gæta, að ríkisskattarnir eru reiknaðir út eftir föstum reglum, en útsvörin eru það ekki, og þess vegna koma þau harðast niður á mönnum. Ég skal taka það fram, að þessi dæmi, sem ég tek hérna, eru reiknuð áður en hlutaðeigandi fyrirtæki hafa lagt í varasjóð lögmætt tillag og áður en reiknað er 5% af hlutafé, sem einnig er heimilað.

Þá skal ég taka þann, sem ég kalla skattgreiðanda nr. 1. Það er fyrirtæki, sem er sameign fjögurra manna. Fyrirtækið er skattað sérstaklega. Það hafði nettótekjur 108 þús., hafði í skatta 38 þús., í útsvar 60 þús., samtals 98 þús., en eftir eru 10 þús. kr.

Skattgreiðandi nr. 2 er sameignarrekstur. Þar eru tveir eigendur, og þetta er framtal annars eigandans. Nettótekjur hans voru 246 þús. Skattar voru 124 þús., útsvar 130, samtals 254 þús. Lagt á umfram tekjur 8 þús. Maðurinn hefur því engar tekjur til að lifa á, því að hans persónulegu tekjur eru þarna innifaldar líka, og verður að bæta við 8 þús. kr. með sér yfir árið til þess að greiða ríki og bæ alla skatta.

Nr. 3 er hlutafélag með 295 þús. kr. nettótekjum, hefur í skatta 124 þús., í útsvar 210 þús., samtals 334 þúsund eða 39 þús. kr. umfram tekjurnar.

Hér er eitt merkilegt dæmi, sem ég nefni nr. 4. Þar er tap 76 þús. kr. Tekjuskattur er enginn. Útsvar í Reykjavík 376 þús., útsvör utan Reykjavíkur 267 þús. Lagt á umfram tekjur 720 þús. Menn geta nú hugsað sér, hvað lengi slíkt félag sé að þurrka út höfuðstól sinn og sjóði, því þó að menn vildu nú rengja framtal slíkra manna, þá er ekki gott að sjá, hvernig þeir ættu með óheiðarlegum aðferðum að greiða slíkan skatt í ríkissjóð, án þess að það kæmi nokkurs staðar fram.

Þá er það skattgreiðandi nr. 5. Hann hefur tekjur 392 þús., en skatta 186, útsvar 644, samtals 830 þús. Umframtekjur 438 þús.

Skattgreiðandi nr. 6 hefur 597 þús. Skattar 338, útsvar 250. Umframtekjur 9 þús.

Skattgreiðandi nr. 7, sem annast útflutning. Tekjur 95 þús. Skattar 21, útsvar 184 þús., samtals 205. Greitt umfram tekjur 110 þús.

Iðnfyrirtæki, nr. 8. Tekjur eru 159 þús. Skattar 31 þús., útsvar 120, samtals 151. Eftir eru 8 þús.

Iðnfyrirtæki, nr. 9. Tekjur 21 þús. Skattar 1:300 kr., útsvar 55 þús., samtals 56 þús. Greitt umfram tekjur 35 þús.

Iðnfyrirtæki, nr. 10. Tekjur 43 þús. Skattar 6469, útsvar 36700, samtals 43169. Greitt umfram tekjur 169 kr.

Mönnum þykir nú að öllum líkindum þetta heldur ótrúlegt, en ég talaði við einn elzta endurskoðanda hér í bæ fyrir nokkrum dögum, og hann sagði, að það væri að verða almennt, að fyrirtæki væru sköttuð á þennan veg, og það hefði farið um þverbak nú 2–3 síðustu árin.

Að sjálfsögðu verða ekki öll félög jafnilla úti eins og þau, sem ég hef nú nefnt, en fjöldinn af félögunum verður að þola slíkar búsifjar af skattayfirvöldunum, sem þau standa gersamlega berskjölduð gegn. Þessi dæmi, sem ég hef tekið hérna, eru raunverulega álagðir skattar, en ekki útreikningur.

Slík skattheimta getur ekki blessazt til lengdar af þeirri einföldu ástæðu, að lindin, sem skattana gefur, hlýtur að renna til þurrðar, áður en langt um liður, og ef áframhald verður á slíku, er hér verið að slátra hænum i, sem verpir gulleggjunum. Það hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa þessara skattþegna, að veltuútsvarinu verði af þeim létt á þann hátt, að það verði gert frádráttarhæft, þannig að það sé dregið frá tekjum, áður en skattur og útsvar er á lagt. Í öðru lagi hlýtur sú krafa að verða gerð, að útsvarsstigi hinna ópersónulegu gjaldenda sé lækkaður að verulega leyti í samræmi við verðrýrnun krónunnar og með tilliti til þess, að þessir gjaldendur hafa enga leiðréttingu fengið í heilan áratug. En slíka leiðréttingu sem hér er farið fram á hafa hinir persónulegu gjaldendur fengið allan tímann.

Eins og hæstv. fjmrh. lýsti yfir í framsögu sinni, verður mþn. látin athuga málið og finna sanngjarna lausn á því fyrir næsta þing. Ég viðurkenni fúslega, að mál þetta er mjög vandasamt og ýmsir erfiðleikar eru á lausn þess, og þess vegna hefur orðið að fresta því að sinni, en málið verður að leysast eins og öll vandamál, sem miklu skipta fyrir þjóðfélagsþegnana. Ég vænti þess vegna, að hæstv. fjmrh. sé reiðubúinn að lýsa því yfir f.h. ríkisstj., að till. verði lagðar fyrir næsta haustþing til leiðréttingar þeim kafla skattalaganna, sem ég hef nú gert að umræðuefni.