07.10.1953
Neðri deild: 4. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

6. mál, gengisskráning

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur verið svo undanfarið viðvíkjandi þessum lögum, sem fjalla um verðlagsuppbótina og hvernig hún skuli greidd, að fólkið í landinu hefur sjálft orðið að ákveða lögin með harðvitugum verkföllum og Alþ. síðan á eftir sett sína löggjöf um slíkt. Ég held, að það væri praktískari framgangsmáti af hálfu hæstv. ríkisstj. að taka dálítið tillit til orða þeirra, sem verkalýðssamtökin og verkalýðsstéttin lætur falla í þessum efnum, meðan allt er enn þá friðsamlegt, heldur en að halda sér við þá reglu, sem gilt hefur undanfarið um löggjöf hér frá Alþ. varðandi mestu hagsmunamál almennings, að setja lögin venjulega ekki fyrr en eftir á, er harðvítugar deilur eru búnar að standa. Verkamenn hafa viljað fá mánaðarlega vísitölu, og það er enn þá mál, sem þeir berjast fyrir. Ef til vill man hæstv. ríkisstj. enn þá eftir, að það hafi verið verkfall og það mjög viðtækt fyrir tæpu ári, og það verkfall stóð í þrjár vikur, 20 þús. manns mestallan tímann, til þess að knýja fram till., sem fulltrúar verkamanna höfðu flutt hér á Alþ. og ríkisstj. hafði hunzað. Ég held, að það væri rétt fyrir hæstv. ríkisstj. að athuga sinn gang ofur lítið, þegar hún fer að afgreiða lögin núna, og taka nokkurt tillit til þess, sem fram kemur og fram mun koma af brtt. við þessi mál. Ef til vill man hæstv. ríkisstj. eftir, að það kom fram brtt. einmitt við þetta lagafrv. við 2. umr. í þinginu, flutt af fulltrúa Sósfl. og Alþfl. í fjhn. sameiginlega um mánaðarlega greiðslu. Ef til vill man hæstv. ríkisstj. líka eftir, að fram kom till. frá mér sem minni hl. fjhn. um að gefa eftir tekjuskatt upp að ákveðnu lágmarki, sem hefði veitt öllum verkamönnum Reykjavíkur mjög miklar kjarabætur hvað þetta snertir. Ríkisstj. skeytti engu um neinar till., sem fram komu, ekki neina af þeim. Ég býst við, að það komi fram tillögur aftur nú um breytingar á þessum málum. Og ég vildi eindregið mælast til þess við hæstv. ríkisstj., fyrst hún hefur ekki haft sinnu á því, þegar hún ber þessi frv. fram, að ganga eitthvað til móts við þær kröfur, sem hún veit að eru uppi hjá almenningi, að læra eitthvað ofur lítið af reynslunni. Það er ekki nóg að vera ríkisstjórn fyrir ríka og volduga yfirstétt hér í Reykjavík. Það verður hver yfirstétt að læra dálítið af því, sem almenningur hefur verið að kenna henni. Og það er dýrt að þurfa að kenna yfirstéttunum og ríkisstjórnum þeirra með eins harðvítugum verkföllum og í fyrra. Það væri æskilegt, að rök mættu hafa eitthvað að segja í þessu sambandi.

Hæstv. fjmrh. mundi nú máske segja, að það væri nú erfitt að standa undir tíðari hækkunum á launum en nú er gert, það mundi þurfa meiri tekjur í ríkissjóðinn, og hann var í umræðunum, sem hérna fóru fram áðan, að kvarta yfir því meðal annars, hvernig það gengi með innheimtuna á tekjuskattinum hjá sér sem fjármálaráðherra. Man hæstv. fjmrh. eftir því, að hann var hér sjálfur fjmrh., eftir að Keflavíkursamningurinn var gerður, og sat í sínum stól seinni hlutann af þeim tíma, sem Keflavíkursamningurinn gildir, og innheimti aldrei þann skatt, sem íslenzka ríkið hafði rétt á að innheimta samkv. þeim samningi af Ameríkönunum? Og nú sem stendur er ástandið að því leyti lakara en þá var, að þessi hæstv. ríkisstj. sjálf lætur langsamlega stærstu gróðafyrirtækin í landinu vera algerlega skattfrjáls, ameríska auðvaldið, sem hér veður uppi núna, það mikla auðvald, sem stelur hundruðum milljóna króna á ári af Íslendingum með aðstoð hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Það verða þess vegna ekki bornar fram neinar afsakanir frá hálfu hæstv. ríkisstj. um það, að hún hafi ekki næga peninga að taka, ef hún þorir að taka þá þar, sem nógu mikið er til af þeim. En meðan hún skoðar sig sjálfa sem fulltrúa fyrir það útlenda auðvald, sem er að læsa greipum um okkar land, þá er náttúrlega kannske varla von, að hún taki peningana af því.

Þetta frv., sem hér kemur fram, er hvað sögu þess snertir táknandi fyrir það, hvernig ríkisstj. er smátt og smátt pískuð til þess af almenningi að taka tillit til hans. Eins og þessi lög, þ.e.a.s. lögin um gengisskráninguna, voru upphaflega, þá var svo fyrir mælt í þeim, að fella skyldi niður alla lögbundna verðlagsuppbót eftir ákveðinn tíma. Þannig var upprunalega hugsað að framkvæma þetta. Þá átti allt að vera komið í þetta fina jafnvægi. Þá varð með verkfalli að knýja ríkisstj. til þess að breyta þeim ákvæðum, og þá hafðist þetta þriggja mánaða kerfi, sem nú er, í gegn. Nú hafa verkalýðsfélögin hvað eftir annað farið fram á að fá greitt mánaðarlega, og það munu áreiðanlega koma fram brtt. nú eins og í fyrra um það. Ég held, að það hefði nú verið heppilegra, að hæstv. ríkisstj. hefði sjálf breytt þessu og gengið þannig á móti og sýnt það, að hún vildi eitthvað taka tillit til verkalýðsfélaganna í þessum efnum. Og það hefði undireins þýtt gagnvart þeim að bæta nokkuð þeirra kjör, því að það hefði af sjálfu sér verið látið gilda fyrir þeirra samninga, þó að hér sé aðeins verið að taka ákvarðanirnar viðvíkjandi starfsmönnum hins opinbera.

Ég geng sem sé út frá, að við 2. umr. þessa máls muni koma fram brtt. við þetta, og mun ræða þetta mál betur þá, en vildi aðeins skjóta þessu hér inn í við 1. umr. að gefnu tilefni.