31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv., eins og fyrir hana var lagt, og meiri hl. n. hefur skilað áliti á þskj. 576. Eins og þar kemur fram, gerði minni hl., hv. 1. landsk. þm. (GÞG), ráð fyrir því að skila séráliti, og hefur hann því ekki undirritað álit með öðrum nm.

Í nál. meiri hl. er að því vikið, að við athugun málsins hafi komið í ljós, að hentugt væri að gera nokkrar formsbreytingar á frv. vegna þeirra breytinga á l. um tekju- og eignarskatt, sem gerðar hafa verið síðan lagasafnið var gefið út árið 1945, en við undirbúning málsins hafði verið miðað við l. eins og þau eru prentuð þar. Verður þá um leið hægt að fella niður nokkuð af þessum l., sem síðan hafa verið sett um breytingar á skattalögunum.

Í samræmi við þetta, sem fram er tekið í nál., flytur n. í heild nokkrar brtt. á þskj. 577, og vil ég gera grein fyrir þeim.

1. brtt. á því þskj., við 5. gr., er í 3 liðum, og er þar aðeins um orðalagsbreytingar að ræða á frvgr.

2. brtt. er við 6. gr. frv. Í 6. gr. frv. er lagt til að bæta aftan við 9. gr. skattalaganna tveim nýjum stafliðum. N. leggur til, að inn í þessa gr. verði tekin ákvæði l. frá 1949 um aukavinnu, sem einstaklingar leggja fram utan reglulegs vinnutíma við byggingu íbúða til eigin afnota, og er þá einnig lagt til í síðustu brtt., að l. um þetta efni, nr. 16 frá 1949, verði feiid úr gildi. Hér er því ekki um neina efnisbreytingu að ræða á gildandi lögum, heldur aðeins þessa formsbreytingu.

3. brtt. n. er við 7. gr. frv. Í 7. gr., 2. tölul., er lagt til, að niður falli síðari málsl. e-liðar í 10. gr. skattalaganna, en við athugun þótti gleggra að setja inn í þetta frv. e-liðinn eins og n. ætlast til að hann verði, eftir að þessi breyting hefur verið gerð, að fella niður síðari hluta hans, og eru því hér tekin upp þau ákvæði: „Iðgjöld til stéttarfélaga, sjúkrasjóða, styrktarsjóða og atvinnuleysissjóða, þó ekki hærri en sem svarar 5% af hreinum tekjum aðila.“ En þannig er þessi e-liður 10. gr. nú eða fyrri hluti hans. Hér er því ekki um neina efnisbreytingu að ræða fremur en í fyrra tilfellinu, heldur aðeins breyting á formi.

4. brtt. er við 9. gr., og er raunar það sama um hana að segja. Í frv. var gert ráð fyrir því að umorða 1. málsgr. 12. gr. l., þar sem eru ákvæði um persónufrádrátt, vegna þess að hann er mjög hækkaður samkvæmt þeim till., sem felast í frv. Í öðru lagi er lagt til í frv., að niður falli síðasti málsl. 2. málsgr. þessarar 12. gr. l. En í stað þess er nú lagt til í brtt., að 9. gr. frv. umorðist eins og þar hermir, og verður niðurstaðan efnislega nákvæmlega sú sama, hvor aðferðin sem höfð er, en þetta er í samræmi við aðrar brtt. nefndarinnar.

Í 5. till., við 12. gr., er um leiðréttingu að ræða. Þar hafði verið sett í frv. 2. málsgr. 32. gr. í staðinn fyrir 3. málsgr., og stafar þessi villa af ónákvæmni í prentun t lagasafninu.

Þá er 6. brtt. n., og hún er um það að bæta nýrri gr. inn í frv. á eftir 15. gr. þess og þessi nýja gr. verði umorðun á 45. gr. l. eins og hún er í l. frá 1935. Hér er ekki heldur um efnisbreytingu að ræða, því að þessa breytingu var búið að gera með sérstökum l. árið 1949. Samkvæmt l. nr. 60/1949 var 45. gr. l. breytt á þann hátt, sem hún er prentuð hér í brtt. n. Hér er því aðeins um það að ræða að færa þessi l. saman og fella niður l. nr. 60/1949.

Þá er 7. brtt., sem er aðeins breyting á formi. Það er um, að upphaf gr. orðist þannig: Á eftir 55. gr. l. komi 5 nýjar gr., svo hljóðandi, og síðan framhaldið eins og það er í frv., fyrst 63. gr. og svo áfram, samtals 5 gr., síðast 67. Þetta kann að líta einkennilega út, að þarna í brtt. er lagt til, að á eftir 55. gr. laganna komi 63. gr., en það stafar af því, að með breytingum á skattalögunum 1942 var bætt inn í þennan bráðabirgðakafla l. nokkrum nýjum gr., og eru þær þarna á milli, frá 55 til 62.

Loks er svo 8. brtt., sem er um viðbót við síðustu gr. frv., sem er um gildistöku l., og er þarna lagt til samkvæmt því, sem ég hef áður skýrt frá, að nokkur eldri lagaákvæði um breytingar á skattalögunum verði felld úr gildi, um leið og frv. verður að l., vegna þess að ákvæði þeirra l. hafa verið tekin hér inn í frv. eða verða tekin inn í það, ef brtt. fjhn. verða samþykktar.

Hér er, eins og ég hef þegar tekið fram, ekki um neinar efnisbreytingar að ræða á frv. eða skattalögunum, en meiri hl. mun taka til athugunar fyrir 3. umr. málsins, hvort hann telur ástæðu til að flytja þá einhverjar fleiri brtt.

Um einstakar gr. frv. sé ég ekki ástæðu til að ræða. Það mundi verða aðeins endurtekning á því, sem fylgir í athugasemdum um frv. í heild og einstakar gr. Vænti ég þess, að þær skýringar, sem þar fylgja frv., séu þannig, að með því að lesa þær geti hv. þdm. gert sér ljósa grein fyrir því, hvað um er að ræða í hverri einstakri frvgr. til breytinga á gildandi lögum.

Hér er búið að útbýta allmörgum brtt. við frv. á nokkrum þskj., en þar sem flm. hafa ekki enn gert grein fyrir þessum till., þá mun ég ekki gera þær að umtalsefni að svo stöddu, en áskilja mér rétt til að ræða um þær síðar, eftir að þeir hafa talað fyrir þeim, og ef til vill gera þá einhverjar athugasemdir einnig um einstök atriði, sem fram komu í ræðum manna hér við 1. umr. málsins.