31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. það hefur mjög farið í vöxt ár frá ári undanfarinn áratug, að fólk heimilisfast á þeim stöðum, þar sem atvinnuleysi hefur mikið gert vart við sig, hefur tekið sig upp frá heimilum sínum og leitað sér atvinnu fjarri heimilum sínum, þar sem eftirspurn eftir vinnuafli hefur verið meiri. Þannig hafa hundruð manna, ef ekki þúsundir, aðallega daglaunamenn, frá hinum ýmsu byggðarlögum á landinu og í öllum landsfjórðungum farið á vetri hverjum í atvinnuleit til Keflavíkurflugvallar, Vestmannaeyja og ýmissa verstöðva við Faxaflóa. Fólk þetta hefur svo dvalið langdvölum á þeim stöðum, sem það hefur fengið atvinnu á, en hefur oftast orðið að sæta hörðum kjörum í sambandi við öflun fæðis og húsnæðis og annarra nauðsynja fyrir sig, meðan það dvaldi á þeim stöðum. Hef ég að vísu ekki getað aflað mér nákvæmra upplýsinga um dvalarkostnað slíks fólks í krónutölu, enda mun hann vera allmisjafnlega hár eftir því, hvar það dvelur á landinu, en ég hef þó öruggar heimildir fyrir því, að það hefur þráfaldlega komið fyrir, að þetta fólk hefur þurft að greiða helming launa sinna eða jafnvel meira fyrir fæði og húsnæði á þeim stöðum, sem það hefur komizt í atvinnu á. Þótt hlutur þessa fólks hafi jafnan verið slæmur, hefur það ekki fram að þessu getað fengið leiðréttingu á hinum erfiðu kjörum sínum, vegna þess að lagaheimild hefur skort fyrir því, að dvalarkostnaður þess væri frádráttarhæfur við álagningu skatts, og það er einmitt í þeim tilgangi að reyna að fá hlut þessa fólks að einhverju leyti bættan, sem við hv. 2. þm. Rang. (BFB), hv. 2. þm. Eyf. (MJ), hv. 4. landsk. (GJóh) og hv. 7. landsk. þm. (EggÞ) berum fram brtt., sem prentuð er á þskj. 585. Eins og brtt. þessi er orðuð, er hún felld inn í h-lið 4. tölul. 7. gr. frv. Er það á valdi skattayfirvalda að dæma um, að hve miklu leyti dvalarkostnaður fólks, sem þannig stendur á fyrir, kemur til frádráttar við álagningu skatts. Okkur flm. er mjög vel ljóst, að aðstæður þeirra manna, sem kunna að njóta góðs af þessu heimildarákvæði — eða frádráttarákvæði, sem í brtt. felst, — geta verið mjög ólíkar. Aðstaða þeirra manna, sem þurfa að leita sér atvinnu fjarri heimilum sínum og hafa fyrir heimili að sjá og fjölskyldu heima fyrir, er vitanlega ekki sambærileg við aðstöðu þeirra manna, sem eru einhleypir og fyrir engum hafa að sjá. En slíkur aðstöðumunur yrði að sjálfsögðu veginn og meginn af skattayfirvöldum, þ.e.a.s. skattanefndum, yfirskattanefndum og ríkisskattanefnd, ef því væri að skipta, í hverju einstöku tilfelli.

Við flm. þessarar brtt. teljum ósanngjarnt, að fólk, sem neyðzt hefur til þess að leita sér atvinnu langt frá heimilum sínum, sé látið gjalda þess og hlutur þess gerður miklum mun lakari en hlutur þess fólks, sem getur dvalið heima hjá sér við störf. Væntum við þess því, að hv. alþm. liti með sanngirni á þessa brtt. okkar og ljái henni lið. Sérstaklega viljum við vænta þess af hv. fjhn., að hún líti sanngjörnum augum á till., og í trausti þess, að hún sjái sér fært að gera þessa brtt. okkar að sinni till., þá munum við flm. hennar taka hana aftur til 3. umr.