31.03.1954
Neðri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt 6. þm. Reykv. (SG) og 4. landsk. þm. (GJóh) eina brtt. á þskj. 586, en hún fer í þá átt, að meðal þess, sem skuli undanþegið tekjuskatti, sé kaup verkafólks fyrir eftir-, nætur- og helgidagavinnu, að svo miklu leyti sem þessi vinna er greidd með hærra kaupi en dagvinna.

Þessi vinna, sem framkvæmd er ýmist á kvöldin eða nóttunni að liðnum vinnudegi eða þá á helgum dögum, er þjónusta, sem verkafólk innir af hendi umfram það, sem þjóðfélagið yfirleitt krefst af mönnum. Það er ákaflega þýðingarmikið fyrir okkar þjóðfélagshætti, að hægt sé að fá fólk til vinnu utan hins venjulega vinnutíma. En hins ber að gæta, að allar menningarþjóðir hafa nokkurn hemil á slíkri vinnu, en sumar munu banna hana með öllu, og er það gert til verndar verkafólki, að það fyrirgeri ekki heilsu sinni um aldur fram vegna ofþrælkunar. Íslenzka ríkisvaldið og löggjafinn virðast líta að verulegu leyti á þessa vinnu sem nokkurs konar skylduþjónustu við þjóðfélagið, og það má segja, að nokkuð sé til í að líta þannig á. Þetta álít ríkisvaldsins kemur ekki sízt fram í l. um orlof, þar sem ákveðið er, að einmitt þessi vinna, sem hér um ræðir, eftirvinna, næturvinna og helgidagavinna, sé ekki orlofsskyld nema til jafns við það, sem hún hefði verið, ef um dagvinnu hefði verið að ræða. Ég tel þess vegna liggja í augum uppi, að rökrétt afleiðing af því, að löggjafarvaldið lítur þannig á, sé það, að þessi sérstaka þjónusta við þjóðfélagið, sem menn leysa af hendi umfram það, sem almennt er krafizt af fólki, verði undanþegin skatti til ríkisins, og í trausti þess, að hv. alþm. sjái samræmið á milli þessa, vildi ég mega vænta þess, að slíkri tili. verði tekið með skilningi.

Þá flyt ég á þskj. 587 aðra brtt. við frv. um tekjuskatt, en sú till. fer í þá átt, að inn í 7. gr. frv. verði felldur nýr tölul., sem orðist þannig:

„Nú óskar gift kona, sem hefur sjálfstæðar atvinnutekjur, að telja fram sem sérstakur skattþegn, og skal það þá leyft og skattur hjónanna reiknaður sem tveggja einstaklinga. Persónufrádráttur skylduómaga slíkra hjóna skiptist að jöfnu.“

Ég varð var við það í ræðu frsm. meiri hl. fjhn. þessarar hv. d., er hann ræddi þetta frv., að hann tók fram, að það hefði öllum aðilum, sem að samningu þess stóðu, þótt vera of mikil fríðindi til handa hjónum, að þau fengju sinn skatt reiknaðan í tvennu lagi, og alveg sérstaklega þætti þetta ósanngjarnt gagnvart þeim konum, sem ynnu heimilisstörf, en tækju ekki þátt í því út í frá að afla heimilinn tekna. Ég get viðurkennt, að það er mjög mikið til í þessu sjónarmiði, en það þýðir hins vegar ekki að ganga fram hjá því, að sérsköttunarréttinn, sem ég legg til að hjón fái að lögum, geta þau fengið sér með því að fara dálítið öðruvísi að. Hjón geta fengið þennan rétt með því að slíta sínu hjónabandi og telja fram sem tveir einstaklingar, og væntanleg hjón geta líka komið sér hjá því að lenda í samsköttunarskyldu með því að smeygja fram af sér þeirri hefðbundnu venju að gifta sig. Ég tel að sjálfsögðu, að þjóðfélagið sé ekkert betur komið fyrir það, þótt menn hættu að gifta sig og giftir menn tækju að skilja við konur sínar, en að því stefnir alveg greinilega bæði með núgildandi skattreglum og einnig eftir frumvarpinu.

Enda þótt hjón fái nokkra leiðréttingu sinna skattamála í frv. eins og það liggur fyrir, þá er það alls ekki fullnægjandi, og sú þróun í þessum málum, sem þegar er farin að gera nokkuð vart við sig, sem sé, að löggjöfin hindri hjónabönd, hlýtur að halda áfram, og fyrr eða síðar verður löggjafarvaldið að gera það algerlega upp við sig, hvort það vill stuðla að slíkri þróun eða ekki, því að augljóst er, að haldi svo fram sem horfir í skattalöggjöfinni, að menn njóti þess að vera ógiftir, gjaldi þess hins vegar að hafa stofnað til hjónabands eftir erfðavenju sinnar þjóðar, þá leysist hjónabandið fyrr eða síðar upp.

Ég vænti þess, að þeir, sem um þessi mál fjalla, geti að athuguðu máli fallizt á það, að till. mín um það, að hjón skuli eiga rétt á því að fá skatt sinn reiknaðan sem tveir einstaklingar, sé till., sem er óhjákvæmilegt að samþ. fyrr eða síðar, og því fyrr því betra.