03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

6. mál, gengisskráning

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er lagt til, að framlengd verði gildandi lagaákvæði um verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna. Leggur fjhn. til, að frv. verði samþ., en einn nm., hv.. þm. A-Húnv., hefur þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. og hefur þegar flutt brtt., sem hann mun væntanlega gera sjálfur grein fyrir.

Núgildandi reglur um kaupuppbót á laun opinberra starfsmanna eru, svo sem kunnugt er, þannig, að á grunnlaun, sem eru ekki hærri en 1830 kr. á mánuði, greiðist uppbót samkv. vísitölu 158 stig, en á hærri grunnlaun er ekki greidd hærri uppbót en samkv. vísitölu 153. Í sambandi við lausn vinnudeilunnar, sem varð á s.l. vetri, var kveðið svo á, að á 1830 kr. grunnlaunin skyldi greiða uppbót samkv. kaupgjaldsvísitölu að viðbættum 10 stigum, en á þau grunnlaun, sem væru hærri en 1830 kr., skyldi miða uppbótina við kaupgjaldsvísitölu siðasta mánaðar, að viðbættum aðeins 5 stigum. Skyldi vísitalan breytast ársfjórðungslega, 1. marz, 1. júní, 1. september og 1. desember hvers árs. Þetta eru lagareglurnar, sem gert er ráð fyrir að verði framlengdar óbreyttar og fjhn. hefur mælt með að samþ. verði, að frátalinni þó þeirri till., sem einn nm., hv. þm. A-Húnv., hefur flutt og mun gera sérstaka grein fyrir.