05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla, að það hafi verið á Alþingi þann 16. jan. 1952, að afgr. var svolátandi till. til þál., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að beina þeirri áskorun til ríkisstj., að hún beiti sér fyrir heildarendurskoðun laga um skatta og útsvör, sem stefni að því, að lögfest verði heilsteypt kerfi skattamála, sem byggist á eðlilegri og samræmdri tekju- og verkaskiptingu ríkisins annars vegar og bæjarog sveitarfélaga hins vegar. Sé jafnframt við það miðað að ofþyngja ekki einstaklingum, hjónum, félögum og atvinnurekstri í opinberum gjöldum, tryggt samræmi og jafnrétti við álagningu gjaldanna, sem mundi auðvelda eftirlit með því, að framtöl séu rétt. Lögð skal einnig áherzla á að gera skattalöggjöfina svo einfalda og auðvelda í framkvæmd sem frekast er unnt. Rannsókn og undirbúningi málsins sé hraðað svo, að ríkisstj. leggi frv. til l. um málið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Þessi þáltill. var samþykkt í Sþ. fyrir tveim árum og tveim og hálfum mánuði. Nefnd til þess að vinna að þessu verki mun hafa verið skipuð rétt eftir að ályktunin var samþykkt, svo að hún hefur því haft full tvö ár til starfa, og það frv., sem nú liggur hér fyrir til umræðu, er árangurinn af starfi nefndarinnar.

Ég vil fullyrða það, að þegar litið er til þess verkefnis, sem n. var ætlað, og þeirra ávaxta, sem nú eru komnir hér í ljós eftir meira en 2 ár, þá hefur starf n. valdið almenningi í landinu og þeim þm., sem eitthvað hafa um þessi mál hugsað, verulegum vonbrigðum. Engin minnsta viðleitni kemur fram í þessu frv. til þess að sinna höfuðverkefni n., því að rannsaka skattakerfið í heild og samræma það, ekki aðeins skattakerfi ríkisins, heldur ríkisins og sveitar- og bæjarfélaga. Hér er aðeins tekinn einn þáttur út úr löggjöfinni um tekju- og eignarskatt til ríkisins og hann ekki sá veigamesti. Allt annað er ógert enn, eftir þessi rúm tvö ár.

Hæstv. ráðh. lét þess getið í upphafi máls sins, að með þessu frv. væri sýnd viðleitni til að efna það loforð, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið um skattalækkun. Ekki verður því neitað, að í þá áttina er þetta, en því verður heldur ekki neitað, að málflutningur hæstv. ríkisstj. og stuðningsblaða hennar hefur verið ákaflega einhliða og einkennilegur í sambandi við þetta mál. Það er látið í veðri vaka, og það er beinlínis auglýst í blöðunum, ef svo mætti segja, að hér sé um stórfellda skattalækkun að ræða, allt upp í 50% skattalækkun á almenningi, og langmest skattalækkunin sé á lágu tekjunum. Í heild gerir hæstv. ráðh. ráð fyrir að þessi lækkun á tekjuskattinum muni nema um 10 millj. kr. á ári. Það hefur verið bent hér á áður, hversu hverfandi dropi í skattahafinu þessar 10 millj. eru. Ég hygg, að það sé rétt, að opinber gjöld til sveita og ríkis muni nú vera milli 700 og 800 millj. kr. á ári, eða eitthvað á milli fjórði og þriðji hver peningur, sem landsmenn hafa í tekjur, ef allt er talið með. Verkefni n. átti að vera að rannsaka þetta heildarkerfi, samræma það og benda á eðlilegri leiðir til þess að jafna þessum sköttum á landsfólkið eða því af þeim, sem nauðsynlegt væri að jafna á það. Hér er aðeins tekinn þessi litli þáttur út úr, og auðséð er hverjum manni, sem á það lítur, að í raun og veru munar sáralítið um þær hækkanir, sem hér er um að ræða, og ekkert fyrir allan almenning í landinu.

Sé miðað við ríkistekjurnar einar, þá eru þær áætlaðar um 440 millj. kr. á næsta ári, og tekju- og eignarskatturinn yrði þá samkvæmt því að frv. samþykktu rétt innan við 7.5% af þessum tekjum ríkisins eins.

Í grg., sem fylgir frv., segir: „Þeir, sem þessarar lækkunar njóta, eru fyrst og fremst fjölskyldufólk, og því meiri lækkunar sem ómagarnir eru fleiri, hjón, sem stofna heimili“ o.s.frv., o.s.frv. Þetta er svo upplýst nánar í grg. með umsögnum um einstakar greinar frv. Þar segir, að skattur af 20 þús. kr. nettótekjum hjá hjónum, ómagalausum, lækki um hvorki meira né minna en 39%. Þetta segir hæstv. ráðherra að sé stórkostleg lækkun, og prósentan virðist kannske í sumra augum stór. En sé nú flett upp í gildandi skattalögum og athugað, hvaða skatt þessi hjón hafa haft og hafa nú, þá telst mér til, að þau ættu að greiða eftir gildandi lögum um 200 kr. 39% skattalækkun þýðir því 78 kr. lækkun á ári. Það er allt og sumt. Það er hægt að nota tölur margvíslega, en eigi að fara að telja landsfólkinu trú um það, að 78 kr. skattalækkun hjá hjónum sé stórkostleg breyting á þeirra kjörum, þá eru tölurnar notaðar ranglega; það vil ég fullyrða. En það eru ýmsir aðrir, sem samkvæmt þessu frv. fá mjög verulega lækkun. Það eru félögin, hlutafélög og önnur félög, sem hafa atvinnurekstur með höndum og eiga ekki að lækka nema bara um 20% eftir því, sem í frv. segir. Ég hef litið lauslega á skattskrár ársins 1953, og þar sé ég, að 24 félög hér í bænum eiga að greiða rétt í kringum 5 millj. kr. í tekju- og eignarskatt. stríðsgróðaskatt og viðaukaskatt á árinu 1953. Skattarnir á þessum 24 félögum lækka, ef frv. verður samþykkt, um rösklega 1 millj. kr. Þetta er eitthvað, sem vissulega munar dálítið um; ég skal játa það. Hina upphæðina, 78 kr. fyrir barnlaus hjón, munar ekkert um, Af þessum 24 félögum eru 5, sem samtals hafa nokkuð yfir 2 millj. kr. í tekju- og eignarskatt á árinu 1953. Þessi 5 félög fá lækkun, sem nemur nokkuð yfir 400 þús. kr., vegna þessa frv., eða milli 80 og 100 þús. kr. hvert. Það eru þessir aðilar, sem verða varir við þá stórkostlegu lækkun skattanna, sem svo mjög hefur verið gumað af af stjórnarflokkunum og blöðum þeirra undanfarið. En allur almenningur í landinu, sem hefur 30–40–50 þús. kr. tekjur, veit nær ekki af þeim hreinu skattalækkunum, sem fram koma, þó að það sé kannske dálítið drýgt með ýmsum sérákvæðum eins og húsaleigu í einstöku tilfellum.

Þetta er heildarsvipurinn á þessu frv., sem hér liggur fyrir og svo mjög hefur verið boðað almenningi sem stórkostleg lækkun á sköttum hjá honum. Sannleikurinn er sá, að svo rangsnúin sem tekjuskattalöggjöfin nú er, þá eru samt þeir skattar, sem almenningur greiðir samkvæmt henni, ekki nema örlítið brot af þeim sköttum, sem það opinbera tekur, og það brotið, sem tiltölulega minnst munar um.

Öllum ber saman um það, að eins og skattalöggjöfin nú er og eins og hún er framkvæmd, þá vanti ákaflega mikið á það, að rétt og áreiðanleg framtöl fáist, þannig að réttmætur skattur verði lagður á þá gjaldendur, sem hafa fjölþættan atvinnurekstur með höndum. Meginþungi tekjuskattsins hvílir þess vegna á launamönnum, sein geta ekki á nokkurn hátt, hvað sem þeirra tilhneigingum kynni að liða, komizt hjá því að gera grein fyrir tekjum sínum. Það hefur löngum verið talið eitt mest aðkallandi verkefnið í sambandi við endurskoðun skattalöggjafarinnar að bæta úr þessu, að gera ráðstafanir til þess að tryggja sem réttust framtöl og sem allra fyllst og áhrifaríkast eftirlit og endurskoðun á framtölunum. Í þessu frv., sem búið er að vera í smiðum væntanlega í rösklega tvö ár, er ekki einn stafur eða stafkrókur, sem bendir í þá átt, að nefndinni eða hæstv. ríkisstj. hafi orðið ljós þörfin í þessu efni. Það er ekkert gert í þessu frv. til þess að auka skattaeftirlitið, herða á því, að framtölin séu rétt, eða setja hæfilega endurskoðun á skattaframtölin, að ég ekki tali nú um, að sérstakur dómstóll verði settur á fót til þess að dæma í þessum málum. Þvert á móti. Ég fæ ekki betur séð en að ef þetta frv. verður að lögum, þá verði skattprettir og undandráttur undan skatti stórum mun auðveldari eftir en áður.

Eitt af nýmælum þessa frv. er það, að spariféð almennt skuli vera skattfrjálst, og enn fremur, að skyldan til að telja fram eignir sínar í sparisjóðum sé felld niður, þannig að skattanefndir fái engar upplýsingar um þessar eignir manna. Mér virðist alveg augljóst, hvað sem um skattfrelsi er sagt, sem ýmislegt má segja til stuðnings, að með því að aflétta framtalsskyldu á innstæðufé séu beinlínis skapaðir margbættir og auknir möguleikar fyrir menn til að fela fé sitt, tekjur sínar og eignir, og koma þeim undan skatti. Ég sé ekki annað en að það sé beinlínis stórkostleg ívilnun og hægðarauki gerður þeim, sem vilja svíkja skatt, með því að aflétta framtalsskyldu sparifjár. Ég skal játa, að það mælir ákaflega margt með því að fella sparifé almennings undan skattgreiðslu. Þó hygg ég, að sannleikurinn í því efni sé sá, að allan þorra manna, sem hafa ekki nema litlar innstæður, kannske tugi þúsunda, munar sáralítið um skattinn, sem af því er greiddur. En mætti þetta verða til þess að örva sparihvöt manna, þá væri rétt spor stigið með því að gefa skattfrelsi á þessu uppsafnaða sparifé. Hins vegar fæ ég ekki neitað því, að mér virðist nokkurt ósamræmi í því, að ég sé hvergi í þessu frv., að gert sé ráð fyrir því, að nokkur verðbréf skuli vera skattfrjáls. Nú er það vitað, að bæði ríkissjóður og ýmis fyrirtæki nákomin honum og hinu opinbera leita mjög eftir sparifé almennings á þann hátt að bjóða til sölu vaxtabréf, verðbréf, og á ýmsum tilfellum hefur lánazt að safna nokkru fé til gagnlegra hluta einmitt á þennan hátt, með verðbréfasölu til almennings. Það er augljóst mál, að ef það sparifé, sem er geymt í bönkum og sparisjóðum og kaupfélögum, verður skattfrjálst, þá fer enginn maður að verja sparifé sínu til þess að kaupa slík verðbréf sem þessi og greiða svo af þeim fullan skatt og eiga að telja þau fram á sinni framtalsskýrslu. Mér finnst, að ef samræmi á í þessu að vera, og það er nauðsynlegt, þá verði að athuga þetta jafnframt skattfrelsi innstæðufjár.

En í sambandi við hugleiðingar hæstv. ráðh. um nauðsynina á því að efla sparifjársöfnun og viðleitni stjórnarinnar í þá átt að auka sparnaðarhvötina vildi ég segja það, að þó að nokkurs árangurs megi ef til vill vænta af þessum skattfríðindum fyrir sparifé, þá er annað atriði, sem er miklu, miklu þyngra á metunum í því samhandi heldur en hvort féð er skattfrjálst eða ekki skattfrjálst, og það er það, hvort menn hafa trú á því, að peningarnir haldi gildi sínu, ef þeir eru geymdir einhvern ákveðinn eða óákveðinn tíma.. Og sannleikurinn er sá í þessu efni, að það er engan veginn vegna lágra vaxta af sparifé né heldur framtalsskyldu né heldur af því, að skattur er greiddur af vöxtum, að sparifjársöfnunin hefur orðið svo lítil sem raun ber vitni nm. Meginástæðan til þess er sú, að menn hafa vitað, að mönnum hefur verið sannað í hverjum mánuði, á hverju ári, að með því að geyma fé þann:g hefur minnkað verðgildi þess, þeir misst stórkostlegan hluta af fénu vegna gengisfalls, verðbólgu og vaxandi dýrtíðar. Það er þessi ótrú á peningana, viðleitni manna til þess að eignast föst verðmæti eða laus eða ánægjustundir í stað peninga, sem verða verðlitlir eftir skamman tíma, sem veldur því, að sparnaðarhvötin er svo rýr sem hún er. Eigi því að meta það, hvers árangurs sé að vænta af þessari viðleitni ríkisstj. til þess að efla sparnaðarhvötina, þá verður einnig að lita til þess, hvort stefna hæstv. ríkisstj. í fjárhags- og efnahagsmálum sé líkleg til þess að styrkja gjaldmiðilinn, gera hann traustan, skapa þá trú hjá fólkinu, að peningarnir séu óhagganleg verðmæti. Því miður verð ég að segja það sem mína skoðun, að ég hygg, að ákaflega mikið skorti á, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. í fjárhagsog atvinnumálum verði til þess að styrkja trú fólksins á stöðugt verðgildi peninganna.

Ég skal viðurkenna það, að að nokkru leyti að því er lægri tekjurnar snertir er stigið rétt spor með þessu frv. og ýmislegt af þeim nýmælum, sem þar eru tekin upp um ívilnanir í sköttum í sérstökum tilfellum, beinist einnig í rétta átt. Hitt getur mér ekki dulizt, að meginhagnaðinn af þessu frv. fá stóreigna- og hátekjumennirnir í landinu, af þessum 10 millj., sem gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs lækki um. Aðeins hverfandi lítill hluti kemur í hlut almennings vegna þess, hversu skammt er gengið í því að létta sköttunum þar af.

Eftir frv. á einstaklingur að byrja að greiða skatt, ef hann hefur 2 þús. kr. umfram persónufrádráttinn, sem er 6500 kr. samkvæmt frv. Eftir að tekjur einhleyps manns eru komnar yfir 8 þús. kr., þarf hann að greiða skatt. Nú er það öllum vitað og augljóst, að það er fullkominn ógerningur fyrir einhleypan mann, hversu spart sem hann vill lifa, að halda saman sál og líkama, ef hann þarf allt að kaupa fyrir 8000–8500 kr. Það er því alveg andstætt heilbrigðri skynsemi að ætla honum að fara að greiða skatt af tekjum, þegar þessu marki er náð. Alveg á sama hátt er það augljóst mál hverjum einum, að hjón, þótt barnlaus séu, geta ekki, hvar sem er á landinn og allra sízt hér í Reykjavík og hinum stærri bæjum, með nokkru lifandi móti lifað á 12–14 þús. kr. Skattmarkið er þar einnig langt fyrir neðan það, sem skynsamlegt er eða sanngjarnt. Ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði átt að ganga nokkru lengra í þessu efni og ekki sízt þegar þess er gætt, að fólk á þessu tekjumarki og undir því verður að greiða stórkostleg gjöld til hins opinbera í hvert skipti sem það fær bita eða sopa eða spjör utan á sig. Þetta fólk er skattlagt í gegnum tolla og aðra óbeina skatta svo freklega sem hér hefur verið lýst, og er það náttúrlega fullkomin endileysa að ætla svo að fara að leggja beinan skatt, tekjuskatt, ofan á það í viðbót.

Þær ívilnanir, sem viðleitni er sýnd í frv. til þess að veita sjómönnum vegna sérstaks kostnaðar og erfiðs og áhættusams starfs, eru ekkert annað en sýndarplagg, því að sannleikurinn er sá, að þetta munar þá ekki neitt, 200 kr. á mánuði; það eru 2 þús. kr., ef um 10 mánaða úthald er að ræða á ári. Sá munur, sem fram kemur í sköttum við það, að þessi upphæð er felld undan, nemur engu og hefur engin áhrif á það, hvort menn vilja ráðast til þessa starfs eða ekki. Það veit hæstv. ríkisstj. fullkomlega vel. Eigi að fara að gera fiskveiðarnar og sjómennskuna álitlegri í augum þeirra manna, sem vilja stunda þær, heldur en nú er, þá þarf vissulega meira til en að lækka skattskyldu tekjurnar á ári um 2–3 þús. kr., því að skattur af þeirri upphæð í þeim tekjuflokkum, sem þessir menn almennt eru í, er það lágur, að það munar ekkert um hann, — það hefur engin áhrif í þá átt að hvetja menn til þess að stunda þessi störf, þó að hann sé felldur niður. 10% af 2 þús. kr. eru 200 kr. á ári. Komist frádrátturinn upp í 13%, sem stundum getur verið, þá munar það 260 kr. á ári, og það getur hver maður hugsað sér, hvort slík skattalækkun hjá sjómanni mundi auðvelda t.d. togurum að fá menn á skipin.

Ég skal ekki hafa um þetta mjög langt mál. Það gefst tækifæri til í n. að athuga þetta og ræða hér síðar, en mér þykir rétt að gera grein fyrir því við þessa 1. umr., um hvað ég tel í aðalatriðum frv. vera áfátt. Ég tel, að það hefði átt að miða skattfrjálsar tekjur einstaklings, sem honum væru ætlaðar til lífsframfæris, áður en skattur væri á lagður, við ekki lægri upphæð en 15 þús. kr. Ég tel, að fyrir hjón með t.d. 3 börn ættu tekjur upp í 35–37 þús. kr. að vera með öllu skattfrjálsar. Þetta er ekki annað en brauðfæði, sem fyrir slíkar tekjur er hægt að afla sér. Ég tel, að það eigi að taka upp sérsköttun hjóna, eins og gerð hefur verið grein fyrir í till. okkar Alþfl.-manna hér áður á Alþ. Ég tel enn fremur, að við endurskoðun laganna hefði átt að taka upp það nýmæli að veita sérstök skattfríðindi fyrir það fé, sem einstaklingar leggja til hliðar af tekjum sínum til þess að eignast þak yfir höfuðið, þeir sem ekki eru svo lánsamir að vera komnir það langt. Það fé ætti að leggjast til hliðar nokkurn veginn með svipuðum reglum og kjörum og félög og fyrirtæki mega leggja til hliðar varasjóði, nýbyggingarsjóði eða afskrifa fasteignir, en um það allt eru mjög frjálsleg ákvæði í núverandi löggjöf og einnig í þessu frv. Að sumu leyti hafa þau kannske verið of frjálsleg, eins og t.d. afskriftarákvæðin og annað slíkt. En einmitt vegna þessara ákvæða um fríðindi fyrir fyrirtæki og félög virðist alveg sjálfsagt og eðlilegt, að einstaklingar, sem vilja leggja til hliðar af tekjum sínum og neita sér um marga hluti þess vegna, fái þá undanþegið skatti það fé, sem þeir binda í þeim tilgangi einum að koma sér þaki yfir höfuðið fyrir sig og fjölskyldu sína. Þá tel ég einnig, að eins og okkar atvinnu er háttað nú, þá sé alveg óhjákvæmilegt að setja sérákvæði um, hve mikill hluti sé skattskyldur af tekjum fiskimanna og annarra sjómanna og verkamanna; sem hverfa um langtíma burt frá heimilum sínum til þess að afla sér tekna. Þessir menn hafa alveg sérstaka aðstöðu í þjóðfélaginu, sem skylda er til af ríkisvaldinu að taka tillit til. Loks er svo það nýmæli, sem ég tel sjálfsagt að taka upp og að vísu virðist vera heimild til í lögunum og sennilega ekki fullnægjandi þó, þ.e. að taka skattana jafnóðum og tekjurnar falla til, þannig að ekki safnist hjá mönnum tímum saman og verði því erfiðara að greiða það. Þetta eru þeir meginágallar, sem á frv. eru, burt séð frá því, sem ég fyrr sagði hér, að sá léttir, sem hér er gerður á lágtekjunum, er hverfandi 1ítill, þó að það spor sé í rétta átt, og meginhlutinn af skattalækkuninni kemur að sjálfsögðu, eins og ég hef gert grein fyrir, til góða þeim, sem mestar eiga eignirnar og hæstar hafa tekjurnar.