06.04.1954
Efri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef borið hér fram nokkrar brtt. og þarf nú ekki að hafa um þær langt mál. Ég þarf ekki heldur að svara miklu af því, sem hv. frsm. sagði hér í dag. Í raun og veru staðfesti hann allt það, sem ég sagði í ræðu minni í gær. Munurinn var aðeins sá, að hann taldi það réttlæti, sem ég tel ranglæti, sem líka eðlilegt er, þar sem hann er fulltrúi annarrar stéttar, fulltrúi þeirrar stéttar, sem hefur hag af því, að þetta frv. nái fram að ganga. Frá hans sjónarmiði, sem vill afnema alla stighækkandi skatta og í stað þess láta afla allra tekna með tollum og nefsköttum, þ.e., að sköttum sé létt af hátekjumönnum og í stað þess lagðir á almenning, einnig þá, sem hafa miklu lægri tekjur en nægir til framfærslu, — frá hans sjónarmiði stefnir frv. þetta í þá átt að gera þessa hugsjón hans að veruleika, enda skortir nú ekki mikið á, að svo sé. T.d. lagði hann áherzlu á það í ræðu sinni, sem ég gerði líka, að skattur á einstaklingum með lágar tekjur lækkar ekki samkv. frv., heldur hækkar nokkuð í sumum tilfellum. Hins vegar lækkar mjög verulega skattur á einhleypum hátekjumönnum. Þetta taldi hann hið mesta réttlæti, alveg sérstakt réttlæti að skattleggja t.d. mann með 13–14 þús. kr. hreinum tekjum, á meðan skatturinn er lækkaður á hinum, sem hefur t.d. 200 þús. kr. í tekjur. Því næst lagði hann ríka áherzlu á það, hversu mikilvægt það ákvæði væri, sem leyfir að láta koma til frádráttar skattskyldum tekjum allt að 7 þús. kr. vegna iðgjalda af lífeyristryggingu. Þetta er náttúrlega ágætt fyrir mann með 70–89 þús. kr. tekjur og meira. Hann hefur ráð á að kaupa sér þessa tryggingu, en fjölskyldumaður með 36 þús. kr. tekjur, þ.e. venjulegur verkamaður, hefur ekki ráð á að greiða 7 þús. kr. á ári í iðgjöld vegna líftrygginga. Hér er því blátt áfram um sérréttindi fyrir hátekjumenn að ræða. Mönnum er skipt í tvo réttindaflokka. Hér er um að ræða sérréttindi um skattafrádrátt, sem menn beinlínis njóta af því, að þeir eru ríkir, og menn eru sviptir af því, að þeir eru fátækir. Af þessu ákvæði var hv. frsm. ákaflega hrifinn. Er nú hægt að hugsa sér öllu skýrari sönnun t;yrir því, hvaða stétt hv. þm. er fulltrúi fyrir?

Ég sagði, að ég hefði borið hér fram nokkrar brtt., sem snerta aðeins þau atriði, sem mestu máli skipta. Ég þarf ekki að fara um þær mörgum orðum, því að ég gerði í rauninni nógsamlega grein fyrir þeim með þeim fáu orðum, sem ég sagði hér við 1. umr.

1. till. mín er þess efnis, að skattur verði ekki lagður á minni tekjur en 15 þús. kr., en þessi breyting er samkv. till. mínum ekki látin hafa nein áhrif á skattaupphæðina, þegar komið er upp í 30 þús. kr. í skattskyldum tekjum. Þetta þýðir, að einstaklingur með 21500 kr. í hreinar tekjur og barnlaus hjón með 27 þús. kr. hreinar tekjur þurfa ekki að greiða skatt. Ég skal játa, að mér finnst þetta tekjumark allt of lágt, sem ég set hér í þessari tillögu. Ég hefði kosið, að það væri ekki lægra en 20 þús. kr. í skattskyldum tekjum, eins og lagt var til í hv. Nd., en sú tili. var felld þar, og nú. vildi ég freista þess að bera fram till. um 15 þús. kr. sem lágmark skattskyldra tekna. Af sömu ástæðum læt ég skattstigann ekki breytast frá því, sem hann er í frv., af tekjum, sem talið er að séu nálægt því að nægja til framfærslu, svo að þetta hefur sáralítil áhrif á heildarupphæð skattsins, þó að þessi breyting yrði samþ. Hins vegar losar það okkur í öllu falli við þau leiðindi og þá fásinnu að innheimta skatt af ellilaunum og örorkuhótum.

2. till. mín er svipuð till., sem flutt var af þm. úr öllum flokkum í hv. Nd., þ.e. um leyfi manna, sem dveljast fjarri heimilum sínum, til að draga fæðis- og dvalarkostnað frá tekjum sínum, áður en skattur er á þær lagður. Þó er gerð hér sú breyting á, að rétturinn til þess að draga fæðis- og dvalarkostnað frá skattskyldum tekjum, þegar um aðra en fiskimenn er að ræða, nær aðeins til fjölskyldumanna samkv. þessari till., en náði til allra samkv. þeirri till., sem flutt var í hv. Nd. Þar var till. felld með jöfnum atkvæðum, en ýmsir hv. þm., sem greiddu atkvæði gegn henni, sögðust mundu hafa greitt atkvæði með henni, ef þessi réttur hefði aðeins verið takmarkaður við fjölskyldumenn. Ég hef því nokkra ástæðu til þess að ætla, að í þessu formi, sem ég flyt till. nú í, ætti hún að hafa meiri hl. á Alþingi.

3. till. er um sérstök skattfríðindi fyrir sjómenn á fiskiskipum, sem líka hefur verið flutt í hv. Nd. Það hafa áður verið tærð ýtarleg rök fyrir nauðsyn þessarar ráðstöfunar, og ég gerði það síðast í gær, og ég get látið það nægja. En hv. frsm. mælti hér áðan á móti þessari till. út frá því sjónarmiði, að þetta leysti ekki vanda togaraútgerðarinnar að fá vana menn á skipin.

Hann tók dæmi af manni með 40 þús. kr. árstekjur. Ég veit nú, að togarasjómenn eru illa launaðir, en þó hygg ég, að þeir séu æði margir, sem hafa meira en 40 þús. kr. í árstekjur. Ef tekjurnar eru t.d. 50 þús., þá munar strax talsvert um frádrátt á 1/3 hluta launanna, a.m.k. hefur það oft kostað langvinnt stríð að fá árslaunin hækkuð um þótt ekki væri nema svona 2 þús. kr. Það er að vísu rétt, að þetta nægir ekki til þess að leysa vandann, það þarf að bæta kjör togarasjómanna mjög verulega til þess, en hækkun á tekjunum kemur sjómönnum þá fyrst verulega að gagni, ef þeir þurfa ekki að borga bróðurpartinn af hækkuninni í skatt. Það er því enginn vafi á því, að veigamesta framlagið, sem Alþingi getur nú lagt fram til þess að bæta kjör togarasjómanna, er að veita þessi skattfríðindi, enda eru bæði sjómenn og útgerðarmenn sammála um það.

Þá er till. þess efnis, að hjónum, sem hvort um sig hafa sjálfstæðar tekjur, sé heimilt að telja fram hvort í sínu lagi, og skulu þau þá skattlögð sem einstaklingar. Hv. frsm. ruglaði algerlega saman í ræðu sinni spurningunni um sérsköttun eða samsköttun hjóna almennt og sérsköttun hjóna, sem bæði vinna fyrir sjálfstæðum tekjum. Það er talsvert flókið mál að koma fyrir sérsköttun hjóna, þar sem aðeins annað hjónanna hefur sjálfstæðar tekjur, þannig að það valdi ekki misræmi, en sérsköttun hjóna, sem bæði vinna úti, er einfalt mál. Það er í alla staði eðlilegt, að þau séu skattlögð sem einstaklingar, en samsköttun óeðlileg og ranglát, eins og bezt sést á því, að það er beinlínis tjón fyrir karl og konu, sem bæði vinna fyrir tekjum, að ganga í hjónaband, eins og fyrirkomulagið er nú. Og þetta fyrirkomulag, sem nú ríkir, miðar að því að torvelda hjónabönd. Það var aðeins krafan um sérsköttun hjóna, sem svo er ástatt um, sem ég gerði að umræðuefni í gær og ég geri nú að till. minni að fullnægt verði. Þessi krafa hefur verið borin fram um margra ára skeið af öllum kvennasamtökum landsins og nú síðast í bréfi, sem Kvenréttindafélag Íslands hefur skrifað öllum alþm., með leyfi hæstv. forseta:

„Kvenréttindafélag Íslands leyfir sér að krefjast þess, að felld séu úr gildi svo fljótt sem framast er unnt öll þau lagaákvæði, sem torvelda stofnun hjónabanda og draga þar með úr þeirri virðingu, sem enn er fyrir slíkri heimilisstofnun til verndar og uppeldis barnanna. Til bráðabirgða mætti lagfæra skattskyldu hjóna, sem bæði afla skattskyldra tekna, með því að heimila þeim að greiða sérskatt, og væntir félagið þess, að sú leið verði farin, ef ekki verða gerðar svo gagngerar breytingar á frv., að hægt verði að taka upp sérsköttun allra giftra kvenna.“

Ég held, að það sé ekki stætt á því öllu lengur fyrir Alþingi að standa gegn þessari kröfu. Loks er lagt til, að þegar hjón telja fram sameiginlega, þá skuli þau bæði skrifa undir framtalsskýrsluna. Þetta hefur líka lengi verið krafa kvennasamtakanna og er nú ítrekuð í þessu sama bréfi Kvenréttindafélags Íslands, sem ég gat um. Um þetta atriði segir svo þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum vill félagið mælast til þess, að því ákvæði verði bætt í frv., að hjón, sem samkv. lögunum bera bæði ábyrgð á skattgreiðslu heimilisins, séu einnig bæði skyldug til þess að bera ábyrgð á skattaframtalinu með eiginhandarundirskrift sinni.“

Það ætti að vera útlátalaust fyrir Alþingi að samþykkja svona sjálfsagða sanngirniskröfu, að í sameignarfélagi tveggja aðila hafi báðir aðilar jafnan rétt til þess að fylgjast með sameiginlegum fjármálum.