03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

6. mál, gengisskráning

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að flytja eina litla brtt. við þetta frv., og hún er á þá leið, að á eftir orðunum „og 1. des. 1953“ komi: og eftir það fyrsta dag hvers mánaðar allt árið 1954. — Ég held áreiðanlega, að það sé nægilega formlegt þannig. Ég hef nú hripað þetta hér niður í flýti og vona, að hæstv. forseti geti lesið það. Það er því miður, að meiri parturinn af því að skrifa einhverja brtt. við þessi lög og prenta fer í alla fyrirsögnina. Og ég verð nú að segja, að ég er hálfhissa á hv. fjhn. að hafa ekki lagað þessa fyrirsögn. Það var bent á það hér við 1. umr. þessa máls, að þetta væri nokkuð löng fyrirsögn, fyrir utan það, að það er eiginlega ekki beinlínis tillitssemi til alþýðu manna, til ólögfróðs almennings í þessu, þ.e. frv. til l. um breyt. á l. nr. 16/1953, um breyt. á l. nr. 105/1951, um breyt. á l. nr. 117/1950, um breyt. á l. nr. 22/1950, um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl., og á l. nr. 9/1951, svo og l. nr. 70/1952. Hvers er eiginlega ætlast til af almenningi? Ég veit t.d., að hæstv. fjmrh. hefur verið alveg agndofa yfir þessari fyrirsögn og bara af því, að hann tók ekki eftir henni áður en hann kom á þingið, annars hefði þetta aldrei komið frá fjmrn., en hins vegar verð ég nú að segja það, að ég eftirlæt hv. fjhn. að gera breyt. á fyrirsögninni. Hins vegar hafði ég hugsað mér að flytja brtt. við efnið í þessu, og það er á þá leið, að í staðinn fyrir, að með þriggja mánaða fresti hækki vísitalan, þ.e., kaupið sé greitt með vísitölu, sem sé reiknuð út bara á þriggja mánaða fresti, eða eins og hún er eftir þrjá mánuði, þá .legg ég til, að það sé mánaðarlega. Ég var nú búinn að minnast á þetta við 1. umr. Í fyrra átti ég ásamt þáverandi formanni Alþfl., Stefáni Jóh. Stefánssyni, sæti í fjhn., og fluttum við þá saman brtt. um þetta, sem því miður náði ekki samþykki, en ég vil leyfa mér að vonast til þess, að það sé máske meiri grundvöllur fyrir það nú, og leyfi mér þá að æskja þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari till., af því að hún er skrifleg og of seint fram komin.