08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

179. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þarf nú ekki að svara þm. Barð. neinu í raun og veru. Hann reyndi svolítið að hártoga það, sem ég sagði. Hann sagði sjálfur, að hann væri samkvæmur við skattstjórann, hvernig þetta yrði haft í framkvæmdinni. Það voru ekki mín orð. Það voru hans orð. — Þá minnti ég hann á, að það væru í kringum 260 skattanefndir í landinu, svo að það væri ekki skattstjórinn í Reykjavík, sem talaði við alla um framtölin. Sömuleiðis er það, að þótt skattan. verði færri og framkvæmdin gerð einfaldari seinna meir, þá kemur það þessu máli ekkert við núna. Þær eru núna þetta.

En það, sem gaf mér tilefni til að standa upp, var það, að ég fór að lesa till. á þskj. 730 frá 4. þm. Reykv. og vildi leyfa mér að gera við eina brtt. Hún er við 3. liðinn. Hjá honum hljóðar till. svona: „Fjölskyldumenn, sem eiga ekki 90 ferm. íbúð eða stærri, þegar l. þessi öðlast gildi“ o.s.frv. Hann ætlast í fyrsta lagi til þess, að þeir menn, sem geti orðið þeirra hlunninda aðnjótandi, sem í þessari gr. stendur, verði að vera fjölskyldumenn. Nú er það vitaður hlutur, að meðan maðurinn er einhleypur og hefur sínar tekjur, þá á hann hægra með að leggja fyrir, ef hann hefur ákveðið mark að stefna að og vill safna fé til þess, og þess vegna legg ég til, að í staðinn fyrir fjölskyldumenn komi „menn“ og þeir þurfi ekki að eiga íbúð. Ég legg til, að gr. byrji svona: „Menn, sem eiga ekki íbúð, þegar l. þessi öðlast gildi“ o.s.frv. Með því fá allir menn í landinu, ógiftir eða giftir, sem eiga ekki íbúð, loforð um það, að allt að 15 þús. kr. af þeirra tekjum, ef þeir geta lagt þær fyrir til að tryggja sér framtíð, annaðhvort með því að kaupa hús í kaupstað eða kaupa jörð í sveit, — það er íbúð líka á henni, — ef þeir geta lagt það fyrir, þá fái þeir það frádráttarbært á ári, allt þangað til þeir eru búnir að fá 150 þús. Og þó að fjölskyldur ýti á eftir, börnin ýti á eftir um að reyna að fá sér íbúð, þá er ég alveg viss um það, ef svona ákvæði væri sett inn, þá mundi það verða mjög til þess, að einhleypir menn hugsuðu meira um sína framtíð og reyndu frekar að tryggja sér fé til þess að geta búið um sig, þegar þeir giftast eftir nokkur ár. Ég tel þess vegna, að þessi brtt. mín sé til bóta, og ég vona, að frsm. geti fallizt á hana, og ég vona, að þm. Barð., þegar hann fer að hugsa um þetta seinna, — hann segist nú hafa verið að hugsa um þetta sama, — sjái líka, að það þarf að víkka tillöguna út, þannig að hún geti náð ekki bara til fjölskyldumanna, heldur manna, sem eiga ekki hús. Aftur á móti sé ég enga ástæðu til þess fyrir menn, sem eiga hús, 90 m2, að láta þá bara fá þetta til þess að geta selt það hús og byggt annað.

Nú skal ég geta þess í sambandi við þetta ákvæði um tvö árin, sem við höfum deilt um og ég vil fá skýrara ákvæði um, að það versta verk, sem ég hef þurft að gera sem ríkisskattanefndarmaður, er einmitt út af fimm ára ákvæðinu, sem var í l. um það að selja hús. Ég skal þá segja það líka, og þið getið þá séð á því líka, hve nauðsynlegt er að prenta lögin, að það var lögfræðingur í Reykjavík, sem hafði mikinn praksís og sat á Alþ. um tíma, sem lét konu, sem hann var fjárhaldsmaður fyrir, selja húseign fimm dögum áður en hún var búin að eiga það í 5 ár og fá á sig tekjuskatt á annað hundrað þúsund krónur fyrir ágóða af hússölunni. Lögin voru ákaflega skýr, og hún varð að borga tekjuskatt af því. En hann hefði haft fulla þörf á því, sá lögfræðingur, þó að hann væri lögfræðingur og ekki skattanefndarmaður, að hafa lögin í einu lagi, svo að hann gæti séð, hvað eru l., en ekki á ótal stöðum, eins og nú á að vera. Og ég spái því, að þegar skattanefndir fara að toga sitt á hvað þetta ákvæði og hvort það sé nú búið að byggja húsið, þegar þrjú ár eru liðin eða fjögur ár eru liðin eða fimm ár eru liðin, þá fari mörgum svipað. Það má náttúrlega segja það, að það eru tvö ár tiltekin í frv., en ekki sagt, hvort það á að vera búið. Það á að halda opnum sköttunum í nokkuð mörg ár, þangað til það er víst, að húsið sé búið. — En það var nú til þess að gera grein fyrir þessari brtt., sem ég hef nú hripað hérna upp við brtt. á þskj. 730, sem ég kvaddi mér hljóðs.