16.03.1954
Neðri deild: 62. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

168. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Með lögum nr. 59 frá 1946 voru heimilaðar sérstakar fyrningarafskriftir á skipum og nokkrum öðrum tækjum. Þessi heimild náði til þeirra tækja, sem aflað var eða tekin voru í fyrstu notkun árin 1944–48. Síðan hafa þessi lög verið framlengd tvisvar, en nú eru þessar heimildir runnar út. Er nú lagt til, að þetta fyrirkomulag verði enn framlengt til ársloka 1956 eða í þrjú ár. Það hefur verið höfð um þetta sérstök löggjöf, en ekki blandað inn í skattalögin, og er stungið upp á því enn, að svo verði framvegis. Það er vonazt eftir, að upp úr helginni verði lagt fram frv. til l. um breyt. á skattalögunum, en það hefur ekki verið tekinn sá kostur að láta þetta atriði bíða eftir þeim, heldur er ráðgert, að þetta verði áfram í sérstökum lögum. Þykir það réttara. Ég vil leyfa mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. fjhn. deildarinnar að lokinni þessari umr.