31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

184. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls í gær var vakin athygli á því af hv. þm. Mýr., að tímatakmark í ákvæði til bráðabirgða í frv., sem hér liggur fyrir, væri ekki hentugt fyrir sveitarstjórnir; það væri æskilegra, að skýrslur þær, sem það gerir ráð fyrir að sveitarstjórnir fái frá fyrrverandi innheimtumönnum ríkisins á þessum skatti, komi þeim fyrr í hendur eða um það leyti, sem þær hafa til meðferðar niðurjöfnun útsvara og ganga frá áætlun sveitarsjóðanna fyrir árið til fulls. Fjhn. hefur talið rétt að taka þessa bendingu til greina, og ég vil nú hér með fyrir hennar hönd leggja fram skriflega brtt. á þá leið, að í stað orðanna „1. júní“ komi : 1. maí, og afhendi hér með hæstv. forseta till.