22.03.1955
Neðri deild: 63. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

3. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í þessu frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að þeir nýju ríkisborgarar, sem fá ríkisborgararétt með frv., ef að lögum verður, skuli fyrir það greiða það gjald að skipta um nafn og taka upp íslenzkt heiti. Sá háttur hefur verið hafður á nú í nokkur skipti um þetta efni, að slíkt skilyrði hefur verið sett fyrir veitingu ríkisborgararéttarins. Ég hef flutt brtt. um þetta atriði og þá við þau tækifæri flutt þau rök, sem ég hef talið vera gegn þessari ráðstöfun. Ég skal að þessu sinni ekki rekja þau rök öll, því að ég hygg, að hv. alþm. séu þau kunn í aðalatriðum, frá því að mál þetta hefur verið áður til umr. hér í þessari hv. deild.

Ég skal láta mér nægja í þetta skipti að benda á, að það mun vera einsdæmi meðal nágrannaþjóða a.m.k., að slíkt skilyrði sé sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar, að menn verði að segja skilið við fyrra nafn sitt og taka upp nýtt. Ég tel, að engin löggjafarsamkoma geti í raun og veru sóma síns vegna sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar skilyrði, sem snerta svo náið persónuleg réttindi manna eins og það hlýtur að teljast að fá að bera til æviloka það nafn, sem manni hefur verið gefið í skírninni. Hitt er annað mál, að ég viðurkenni fúslega, að sökum þess, hve íslenzkt mál er sérstætt og lýtur að ýmsu leyti sérstökum reglum, er Íslendingum í þessum efnum nokkur vandi á höndum. Ég viðurkenni fúslega, að það er ekki æskilegt, að í málinu festist erlend nöfn. Þess vegna tel ég réttmætt og sjálfsagt að ganga eins langt og unnt er til móts við það sjónarmið, en án þess þó að skerða bein persónuleg réttindi manna, eins og ég tel að gert verði, ef fullorðinn maður er skyldaður til að leggja til hliðar nafn sitt.

Í þessu sambandi vil ég einnig á það minna og undirstrika, að þegar löggjafarsamkoman veitir erlendum mönnum ríkisborgararétt, þá er hún engan veginn að gera ráðstöfun, sem sé þeim mönnum einum í þágu, þannig að ástæða sé til þess að láta þá greiða gjald fyrir, heldur eru það eða ættu að vera einnig íslenzkir hagsmunir að fá nýja og nýta ríkisborgara til starfs í þágu hins íslenzka samfélags. Ég teldi sem sagt mjög æskilegt, ef hægt væri að samelna þetta tvennt, það, að komandi kynslóðir beri sem minnst af erlendum nöfnum, og hitt, að ganga ekki á persónulegan rétt manna með þeim hætti að gera þeim á fullorðinsárum skylt að segja skilið við nafn það, sem þeir hafa borið frá barnæsku. Þetta er hægt að gera með þeim ofur einfalda hætti að leyfa þeim mönnum, sem nú er gert ráð fyrir að verði ríkisborgarar, að halda hinu erlenda ættarnafni sínu, en skylda þá til að taka upp íslenzkt fornafn, en láta síðan börn þessara aðila, þ.e.a.s. alla niðja þeirra, kenna síg við föður sinn með sama hætti og venja er að íslenzkum lögum. Með því móti er hvort tveggja fengið, það er tryggt, að erlend ættarnöfn festist ekki hér á Íslandi, en hitt er líka fengið, að fullorðnum mönnum er ekki lögð á herðar sú skylda að segja skilið við nafn sitt. Hér er um að ræða málamiðlun, sem ég hygg að sanngjarnir menn hljóti við athugun að fallast á að er skynsamleg, og ég skil ekki, að þeir geti haft á móti því, sem hafa haft það sem aðalröksemd, að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir, að óbornar kynslóðir hér á Íslandi beri erlend nöfn. Það er tryggt, ef þessi hugmynd nær fram að ganga, og þá hitt jafnframt, að þau skilyrði, sem ég tel að séu vansæmandi og sett hafa verið nú í nokkur skipti, verði felld niður.

Í framhaldi af þessu ætlum við fimm þm. að leyfa okkur að flytja skriflega brtt., sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Flm. eru auk mín Helgi Jónasson, Jónas Rafnar, Gils Guðmundsson og Karl Guðjónsson. Till. hljóðar svo:

„2. gr. orðist svo:

Þeir, sem heita erlendum nöfnum, skulu þó ekki öðlast íslenzkan ríkisborgararétt með lögum þessum fyrr en þeir hafa fengið íslenzkt fornafn. Sama skal gilda um barn, sem fær ríkisfang samkvæmt lögum þessum með foreldri sínu, en kenna skal það sig við föður, móður eða kjörföður samkv. lögum um mannanöfn. Þeir niðjar þessara nýju ríkisborgara, sem fæðast eftir gildistöku laga þessara, skulu á sama hátt kenna sig við föður, móður eða kjörföður.“

Ef þessi till. nær fram að ganga, þá tel ég, að þeir, sem á undanförnum þingum hafa lagt höfuðáherzlu á að koma í veg fyrir, að erlend nöfn skjóti rótum hér á Íslandi, hafi fengið sitt mál fram. Jafnframt er það tryggt, að enginn fullorðinn maður þarf að greiða fyrir ríkisborgararéttinn íslenzka með því að segja skilið við nafn sitt. Mér er persónulega kunnugt um, að fjölmörgum mönnum, sem þessi regla hefur verið látin ná til undanfarið, hefur verið þetta mikið tilfinninga- og sársaukamál. Þeim hefur verið það mjög nauðugt að þurfa að greiða þetta verð fyrir að fá ríkisborgararéttinn. Þess vegna er mikilvægt, að snúið verði nú við á þessari braut. Ég endurtek það enn, að ég ber fulla virðingu fyrir því sjónarmiði, sem flutt hefur verið í þessu máli á undanförnum þingum, að rétt sé að halda tungunni sem hreinastri af erlendum nöfnum, sem ekki lúta íslenzkum lögmálum. Ég tel, að í þessari till. sé þessu sjónarmiði full virðing og viðurkenning sýnd, en hinn mikla kost hennar þann, að með því móti yrði ekki gengið svo mjög á persónulegan rétt nokkurs manns eins og gert mundi vera, ef frv. næði fram að ganga óbreytt.