22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

3. mál, ríkisborgararéttur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Það hafa orðið talsverðar umr. um till. þá, sem hv. 1. landsk. þm. (GÞG) flutti hér um breytingu á nöfnunum. Þetta er sama till. sem hv. þm. flutti á þinginu í fyrra og var þá felld hér með talsverðum atkvæðamun.

Ég gerði mér von um eftir ákvörðun þingsins í fyrra og eftir að menn í nokkur ár hafa orðið að sæta því ákvæði að þurfa að skipta um nöfn og taka upp íslenzk nöfn, að þessi till. mundi ekki fram koma öðru sinni. En hv. þm. vill sýnilega reyna til þrautar, hvort hægt er að koma inn þessari hugmynd sinni og valda með því skemmdum á nafnaskrám Íslendinga um ófyrirsjáanlega framtíð.

Menn verða að gæta þess, þegar um þetta er rætt, að þeim, sem nú sækja um ríkisborgararétt, er öllum ljóst, hvaða skilyrðum þeir verða að hlíta með nafngiftirnar. Það er því á engan hátt komið aftan að þessum mönnum og þeir vilja sýnilega fúslega öðlast þennan rétt, þó að þeir þurfi að taka á sig þá þungu byrði, sem hv. 1. landsk. þm. telur vera, að þurfa að taka upp íslenzkt nafn og verða þá íslenzkir ríkisborgarar að nafninu til einnig.

Ég verð að segja það, að mér finnst með öllu óskiljanleg sú viðkvæmni, sem kemur hér fram hjá hv. þm. gagnvart þeim, sem sækja um borgararétt, og ég trúi ekki öðru en það sé með öllu misskilin góðgerðarstarfsemi frá hálfu hv. þm. að hefja þessa baráttu þeirra vegna. Ég segi: það er misskilin góðgerðarstarfsemi gagnvart þeim, því að þeirra er þægðin fyrst og fremst að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt. Ríkisborgararéttur hér á landi er ef til vill meira virði en í mörgum öðrum löndum, m.a. vegna þess, að menn með íslenzkan ríkisborgararétt eiga hægara en flestar aðrar þjóðir með inngöngu í Kanada og Bandaríkin. Í Evrópu yfirleitt er það talið mjög mikils virði að geta haft inngöngurétt í þessi lönd. Þess vegna verðum við líka að vara okkur á því, að um íslenzkan ríkisborgararétt sé ekki sótt undir því yfirskini, að menn vilji gerast borgarar í öðru landi.

Hv. þm. minntist m.a. á þýzkan lækni, sem hér dvaldist um nokkurt skeið og fékk íslenzkan ríkisborgararétt, og hann segir: Þessi góði maður þurfti ekki að breyta um nafn, hann þurfti ekki að taka upp íslenzkt nafn til þess að fá ríkisborgararétt. — Nei, það er alveg rétt, maðurinn skipti ekki um nafn, en maðurinn skipti um borgararétt. Hann fór úr landi, þegar hann var búinn að öðlast þann dýrmæta íslenzka borgararétt, sem gat veitt honum mjög greiðan aðgang að borgararétti í öðru landi. Sá góði maður fór. Hann varð aldrei íslenzkur, enda tók hann aldrei íslenzkt nafn, og líklega hefur hann aldrei ætlað sér að verða lengi borgari í þessu landi. Við munum líka eftir öðrum manni, sem var þýzkur, að vísu var hann ekki læknir. Hann var talinn vísindamaður, mjög mikill vísindamaður og átti að gera stóra hluti hér á landi. (Gripið fram í: Það var heil hersing með honum.) Já, heil hersing með honum. Þeir fengu borgararétt á einni nóttu í þeirri trú, ég segi: í þeirri „góðu trú“ hjá þm., að þeir væru að vinna verk, sem gæti komið landi þeirra að gagni. En hvað gerði svo þessi maður? Hann þurfti ekki að taka íslenzkt nafn. Það er alveg rétt. Hann varð heldur aldrei Íslendingur. Þegar hann hafði fengið hinn íslenzka borgararétt, sem veitti honum mjög greiðan aðgang að borgara-, rétti í Vesturheimi, fór hann þangað. Hann hefur ekki sézt síðan.

Mér kemur ekki í hug að halda fram, að allir mundu verða kyrrir, sem taka íslenzkt nafn, en hitt vil ég segja, eins og ég gat um áðan, að gjalda verður varhuga við því, hverjum og hvernig borgararétturinn er veittur. Það á ekki að veita íslenzkan borgararétt allt of auðveldlega.

Ég efast ekki um, að nöfnin á þeim mörgu mönnum, sem hér er nú lagt til að fái borgararétt, séu góð og gild erlend nöfn, en á íslenzku verða þetta hrein orðskrípi. Ég efast ekki um, að hv. þm. hafi lesið þennan lista. Nöfnin eru m.a. Arge, Beth, Doretz, Gazeley, Gærdbo, Kuhn, May, Moravek, Münch, Ward, Wind, svo að eitthvað sé nefnt. Halda menn ekki, að þessi nöfn sómi sér vel innan um góð og gild íslenzk nöfn? Ég efast ekki um, að hv. flm. þessarar till. séu alveg á sama máli, að móðurmálið sé verndað, enda varði flm. talsverðum tíma í það að reyna að sannfæra menn um, að þeir, sem till. fluttu, og við, sem erum á móti því, að menn fái að halda sínum erlendu nöfnum, værum í raun og veru alveg á sama máli. En mig furðar mjög mikið á jafngreindum mönnum og hv. flm., að þeir skuli láta sér detta í hug, að með því að hafa það form, sem þeir leggja til, að þessir menn taki íslenzkt fornafn og börnin kenni sig svo við föður sinn, en þeir haldi sínu ættarnafni, muni þessi ættarnöfn falla niður, muni hverfa, þegar viðkomandi maður fellur frá. Hv. þm. sagði þó, að það væri nú svo, að þeir menn, sem hafa fengið borgararétt með því að taka íslenzk nöfn, hafi haldið áfram að nota sín erlendu nöfn. En hvernig haldið þið að það yrði þá með samvizkuna hjá börnum þessara manna? Ætli þau teldu sig hafa nokkra skyldu til að skipta um nöfn?

Það má kannske segja, að þetta sé ekki mikill ágreiningur, en ekki vil ég viðurkenna það, að við séum sammála. Við viljum ekki, að asninn sé leiddur inn í herbúðirnar. Ágreiningurinn er þess vegna sá, hvort eigi að leiða þennan asna inn í herbúðirnar eða hvort ekki eigi að gera það. Við segjum: Það á ekki að gera það — vegna þess að þær vonir, sem hv. flm. gera sér um meðferð þessara nafna, munu aldrei rætast. Við sjáum, hvernig það er með íslenzku ættarnöfnin. Samkvæmt nafnalögunum mega börn ekki taka sér ættarnafn foreldra sinna, en ég efast um, að til sé nokkur undantekning, þar sem börn hafa ekki tekið sér ættarnafn foreldra sinna, þó að það sé bannað með lögum. Dettur nokkrum mönnum í hug, að þetta verði öðruvísi með erlendu ættarnöfnin? Dettur nokkrum í hug, að ekki verði fylgt sömu reglunni, ef mönnum er heimilað nokkurn tíma að gerast ríkisborgarar með sínu erlenda nafni?

Ef þeir menn, sem nú hafa fengið borgararétt með því skilyrði að taka sér íslenzkt nafn, hafa samt sem áður ekki farið eftir því skilyrði og halda sínu erlenda nafni, þá geta menn gert sér ljóst, hvernig eftirleikurinn verður. Þó skulum við gera okkur grein fyrir því, að með því að nota sín erlendu nöfn brjóta þessir menn lög. Þeir geta ekki skrifað undir neitt löglegt plagg í þessu landi með sínu erlenda nafni. Þeir lifa undir fölsku flaggi. Þeir verða vafalaust að skrifa sitt íslenzka nafn í manntalið. En ef þeir ætla að nota sitt erlenda nafn einhvers staðar annars staðar, þá er það fals. Ég hef ekki trú á því, að margir af þessum mönnum, þó að hv. flm. vilji halda því fram, leyfi sér slíkt.

Það var tekið mjög greinilega fram af hv. 1. þm. Árn. í framsöguræðu hans, hvílíka sérstöðu Ísland hefur í þessu máli vegna hinnar ævafornu venju, sem enn er haldin með því, að börn kenni sig við föður. Erlendu nöfnin eru gagnstæð íslenzkri venju, þau samrýmast ekki íslenzku máli, og þau stríða á móti íslenzkum l. Það hefur mikil hreinsun farið fram í nöfnum þjóðarinnar á síðustu áratugum, og mikið af þeim nafnaskrípum, sem tíðkuðust hér áður, er horfið með öllu. Þess vegna væri það að færa enn á ný niðurlægingu yfir íslenzkar nafnaskrár, ef nú ætti enn að fara að innleiða erlendu nöfnin. Það yrði þjóðinni bæði til auðmýkingar og skapraunar.

Ég ætla að vona, að hv. þd. gangi þannig frá þessu máli, að engin hætta verði á, að erlend ættarnöfn verði innleidd hér í framtíðinni. Og ég vil taka undir orð hv. 1. þm. Árn., er hann sagði, að hann vænti þess, að frá till. yrði nú gengið þannig í þessari hv. d., að hún skyti ekki upp kollinum hér eftir.