22.04.1955
Neðri deild: 76. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1027)

3. mál, ríkisborgararéttur

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. hefur flutt hér mjög svo skeleggar og skörulegar ræður, þar sem hann leggur á það mikla áherzlu, að menn skuli sýna íslenzkri tungu ræktarsemi og virða gamlar erfðir í þeim efnum. Ég virði fullkomlega áhuga hv. þm. í þessu sambandi, og það var í sjálfu sér ekkert ofmælt af því, sem hann sagði almennt um þau efni. Það er vitanlega alveg rétt, að við eigum að sýna gamalli arfleifð ræktarsemi og þá ekki síður nafnaarfleifð Íslendinga en öðru. Um þetta get ég verið hv. þm., frsm. n., algerlega sammála. En að öðru leyti eru skoðanir dálítið skiptar og þó aðallega um það, hvort sú till., sem hv. 1. landsk. og við nokkrir aðrir þm. flytjum hér til breytingar á frv. og prentuð er á þskj. 498, muni verða, eins og hér hefur verið haldið fram, til þess að brjóta niður, að því er manni skilst, alla góða og gamla siði um íslenzkar nafngiftir. Ég held, að það, sem hv. 1. þm. Árn. hefur um þetta sagt og sömuleiðis hv. 3. þm. Reykv., sé mjög svo ofmælt og á þeirri staðhæfingu þeirra einni byggt, að það sé ekki hægt að framfylgja ákvæðum þeirra l., sem sett yrðu, ef þessi brtt. yrði samþ.

Þeir tala stöðugt um það, þessir hv. þm., að hér eigi um aldur og ævi að innleiða þessi nöfn, sem þeir hafa verið að vitna til og eru á þeim útlendu mönnum, sem nú sækja um íslenzkan ríkisborgararétt. En eins og stendur skýrt og greinilega í brtt., þá er fyrst og fremst til þess ætlazt, að þessir menn allir breyti um fornafn, en fái að halda ættarnafni sínu til æviloka. Síðan er mjög skýrt tekið fram, að börn þeirra skuli algerlega lúta íslenzkum nafnasiðum. Ég hygg, að það verði erfitt að færa rök að því, að það sé ekki hægt að framkvæma þetta ákvæði, en það muni vera hægt að framkvæma það lagaákvæði til fulls, að þessir menn raunverulega skipti um nöfn nú þegar. Ég sé ekki, að það verði á neinn hátt auðveldara að koma því í framkvæmd, að þessir nýju ríkisborgarar breyti raunverulega um nafn, heldur en að koma hinu í framkvæmd, að börn þeirra verði skírð samkvæmt íslenzkri nafnvenju.

Í sambandi við þetta mál vil ég litillega minnast á nafnalöggjöfina frá 1925. Hv. 1. þm. Árn. kom aðelns inn á það og sagði, að hann vildi gera sitt til þess, að þeirri löggjöf yrði betur framfylgt en verið hefur. Þetta er nú gott og blessað, og ég held, að þeir hv. þm., sem eru að berjast fyrir því, að menn, sem hafa um langan aldur gengið undir nafni sínu, því nafni, sem þeir hafa verið skírðir, en eru nú að sækja um íslenzkan ríkisborgararétt, þurfi nú að kasta því, ættu að beita áhrifum sínum og dugnaði í þá átt, að lögin um mannanöfn verði framkvæmd að því er varðar þá íslenzka ríkisborgara, sem hér eru bornir og barnfæddir. Það virðist ekki vera bein ástæða til þess að gera strangari kröfur til manna, þó að þeir séu fæddir erlendis, heldur en til þeirra, sem hér eru bornir og barnfæddir. En til þess að skýra lítillega það, sem ég á hér við, vil ég minnast á nokkur atriði varðandi lög um mannanöfn og hvernig þeim er framfylgt. Ég gerði þetta mál lítils háttar að umtalsefni hér á þingi í fyrra í fsp. og skal nú ekki endurtaka nema fátt eitt af því, sem ég þá sagði, en vil þó aðeins minnast á þessi atriði:

Í lögum um mannanöfn frá 1925 er svo ákveðið í fyrsta lagi, að hver maður skuli heita einu íslenzku nafni eða tveim. Hvernig er þetta nú framkvæmt í voru ágæta þjóðfélagi? Þetta ákvæði 1. gr. nafnalaganna er brotið á tvennan hátt: það er oft skírt algerlega óíslenzkum nöfnum og í öðru lagi er stundum skírt mörgum nöfnum. Ég nefndi hér í fyrra dæmi um, að sumir ríkisborgarar bera allt upp í 6 nöfn.

Annað ákvæði nafnalaganna frá 1925 segir: „Hver maður skal kenna sig við föður, móður eða kjörföður.“ Hvernig er nú þetta framkvæmt? Ég hygg, að allir viti mýmörg dæmi þess, að þetta ákvæði er brotið.

Þá er í þriðja lagi í nafnalögunum þetta ákvæði: „Ættarnafn má enginn taka sér hér ettir“ — þ.e. eftir að lögin tóku gildi fyrir 30 árum. Það mun vera farið nokkuð í kringum þetta. Ég veit ekki, hversu mikil brögð eru að því, en þó mun mega finna þess allmörg dæmi.

Þá eru í þessum lögum ákvæði um þá menn, sem búnir voru að taka ættarnöfn, og segir í því sambandi, að þeir þegnar og niðjar þeirra, sem bera ættarnöfn, eldri en frá 1913, megi halda þeim framvegis, en þeir, sem tekið hafa upp ættarnöfn á tímabilinu 1913–1925, megi halda sínum ættarnöfnum ævilangt, en niðjar þeirra mega hins vegar ekki taka þau upp. Þetta er áreiðanlega brotið allmikið.

Þá er enn fremur tekið fram í nafnalöggjöfinni frá 1925, að enginn megi bera önnur nöfn en þau, sem rétt eru að lögum íslenzkrar tungu. Ég staðhæfi, að þessi regla er enn í dag mjög oft og freklega brotin. Ég hirði ekki að nefna ný dæmi þessa, en hef þau þó á takteinum, ef þetta skyldi verða vefengt. Það vita margir, að jafnvel sum þau nöfn, sem nú er verið að vitna til og þeir útlendu menn bera, sem nú er verið að sækja um ríkisborgararétt fyrir, eru alls ekkert óalgeng á íslenzkum mönnum, og það virðist ekki vera brýn þörf á því að banna þessum mönnum, þó að þeir fengju ríkisborgararétt, að halda slíkum nöfnum, meðan það er látið, að því er virðist, óátalið af þeim, sem eiga að framfylgja nafnalöggjöfinni, að íslenzkir menn, bornir hér og barnfæddir, beri þessi nöfn.

Enn er þess getið í lögunum um mannanöfn, í 6. gr., ef ég man rétt, að stjórnarráðið skuli gefa út skrá eftir till. heimspekisdeildar háskólans yfir þau mannanöfn, sem uppi eru á hverjum tíma og bönnuð skuli samkvæmt þessum lögum um mannanöfn. „Skráin skal gefin út,“ segir í lögunum, „á hverjum 10 ára fresti að lokinni útgáfu hins almenna manntals.“ Þetta atriði mannanafnalaganna hefur aldrei verið framkvæmt. Ég hygg, að það hafi ekki verið sýndir neinir tilburðir til þess, og er það ábyggilega miður farið, því að ég hygg að með útgáfu slíkrar skrár á 10 ára fresti mætti lítils háttar halda því í skefjum, að sá ósiður að skíra erlendum og ambögulegum nöfnum festi rætur í landinu; það væri heldur til þess að útrýma honum.

Ég held, að það sé fremur erfitt að færa að því fullgild rök, að það sé íslenzkri tungu eitthvað hættulegra, að fullorðnir og jafnvel rosknir menn af útlendum uppruna fái að halda ættareða kenningarnafni sínu til æviloka, heldur en hitt, að það sé látið viðgangast hér óátalið og það jafnvel í stórum stíl, að börn fædd á Íslandi beri óþjóðleg og alútlend nöfn og það jafnvel sömu nöfnin sem á að svipta þessa tilvonandi íslenzku ríkisborgara.

Hv. 1. landsk. gerði hér ljósa grein fyrir því, hvað vakir fyrir okkur, sem flytjum hina umdeildu brtt., hvaða rök það eru frá okkar s jónarmiði, sem gera eðlilegt, að þessi tilhliðrun eða miðlunarstefna, ef svo mætti segja, sem við leggjum til í þessum málum, verði upp tekin. Ég hef þar í sjálfu sér engu við að bæta. Ég hygg, að það standi allt enn óhrakið, sem hann sagði um það efni, og annað, sem hann tók hér til meðferðar.

Hv. 1. þm. Árn. ræddi hér í sinni síðari ræðu dálítið um Stephan G. Stephansson, og var það að vísu að gefnu tilefni frá hv. 1. landsk., og hv. 1. þm. Árn. las hér upp fagurt ættjarðarkvæði eftir þetta ágæta og snjalla skáld okkar. Það fór ekki hjá því, að þegar ég hlustaði á þennan upplestur þm., þá datt mér í hug, að þó að það væri gott að hlusta á þetta kvæði núna í sambandi við þær umræður, sem hér fara fram, þá hefði hann nú kannske og fleiri félagar hans í þessu máli og öðrum mátt muna eftir þessu kvæði við fyrri tækifæri og hafa það þá yfir, þegar ef til vill stóð þannig á, að það var um meiri hættu að ræða, sem steðjaði að íslenzku þjóðerni, heldur en af þessari litlu till., sem hér var flutt. Ég man ekki til þess, að hv. 1. þm. Árn. færi með þetta kvæði hér á Alþ. 30. marz 1949. Hann mun ekki hafa farið með það hér við umræður um herstöðvasamninginn, sem gerður var 1951; ekki minnist ég þess að minnsta kosti. En ég vil nú vona, að sú þjóðerniskennd, sem nú kom fram hjá honum og ég virði og þakka vissulega, eigi eftir að brjótast út oftar og við þau tækifæri, þegar mest er þörfin á.