14.10.1954
Neðri deild: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

7. mál, veitingaskattur

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fyrir rúmum 20 árum var gripið til þess ráðs að leggja hér á svokallaðan veitingaskatt, en þessi skattur hefur ætið verið hálfgert vandræðabarn. Veitinga- og gistihúsarekstur hér á ákaflega erfitt uppdráttar, og þó að ætlunin hafi nú verið að vísu, að þeir, sem skipta við þessar stofnanir, greiddu skattinn í verðlagi varanna, hefur þessi skattur að sjálfsögðu orðið til þess að gera erfiðara um rekstur gisti- og veitingahúsa. Það má taka svo til orða, að það hafi á undanförnum árum verið setið um færi til þess að afnema þennan skatt. Ég fyrir mitt leyti hef litið þannig á þennan skatt, að hann væri eitt af því fyrsta, sem þyrfti að losa sig við, ef hægt væri að lækka skatta og tolla. Það hefur nú orðið að ráði að leggja fram þetta frv. til l. um afnám veitingaskattslaganna.

Ég vil óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari 1. umr.