29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

187. mál, togarinn Valborg Herjólfsdóttir

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv., sem hefst á þeim orðum: „Ríkisstj. er heimilt að kaupa togara.“ Það er mjög ánægjulegt, að ríkisstj. skuli þó vera komin inn á þá braut og hafa þannig stigið sitt fyrsta spor í því að bæta úr atvinnuleysisástandi vissra staða úti á landi með þeim hætti að aðstoða þá við að kaupa mikilvirkt atvinnutæki eins og togara.

Þó verður að segja, að þrátt fyrir það að þetta er lofsvert, þá hefur þetta framtak hæstv. ríkisstj. strax miklu minna gildi en ella fyrir það, að hér er aðeins um það að ræða að taka togara frá einum stað og flytja hann á annan. Þetta hefði haft meira innihald, ef hæstv. ríkisstj. hefði keypt nýtt skip í togaraflotann, átt frumkvæðið að því og aðstoðað t.d. þessa 3 kaupstaði, sem hér er um að ræða, til þess að eignast slíkt skip. Þá hefði það verið viðbót við atvinnulífið í landinu og efling framleiðslunnar og gefið aukið fé áreiðanlega bæði fólkinu á þessum stöðum og einnig í ríkiskassann til hæstv. fjmrh.

En þetta frv. sýnir þó, að hæstv. ríkisstj. hefur nú opnað augun fyrir því, að það er þörf á að hjálpa vissum stöðum úti á landi, einkanlega ef þeir eru í stjórnarkjördæmum, til þess að eignast ný atvinnutæki. Hér verða fyrir náðinni 3 tiltölulega litlir kaupstaðir, Húsavíkurkaupstaður, Ólafsfjarðarkaupstaður og Sauðárkrókskaupstaður, en það er alveg áreiðanlegt og hlýtur að vera hæstv. ríkisstj. kunnugt, að það eru margir fleiri kaupstaðir og kauptún, sem þyrftu að fá sams konar aðstoð.

Til þessarar tilfærslu á togara milli staða útvegar hæstv. ríkisstj. fé með lánum og ábyrgð, að upphæð 3 millj. og 200 þús. kr. Það er vafalaust, að fleiri staðir munu óska eftir slíkri aðstoð, og á ég erfitt með að sjá, hvernig hæstv. ríkisstj. gæti synjað öðrum stöðum, sem hefðu sams konar atvinnuþörf, um einhverja hliðstæða aðstoð í þessu. Það getur áreiðanlega ekki verið neitt „prinsip“-mál fyrir ríkisstj. að kaupa einungis togara innanlands. Hún getur auðvitað alveg eins keypt ný skip, og það hefði miklu meira gildi.

Ég fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur brotið ísinn með þessu, og vil vona, að hún stígi fleiri spor í þá átt að byggja upp atvinnulífið úti um land, því að áreiðanlega er það virkasta ráðið til þess að draga úr þeim fólksstraum, sem sífellt er af Austur-, Norður- og Vesturlandi til Suðvesturlandsins. Hins vegar finnst mér það undarlegt, úr því að hæstv. ríkisstj. virðist nú hafa öðlazt nýjan skilning á þessum málum, að stjórnarflokkarnir skuli ekki enn þá hafa fengið leyfi til þess að hleypa úr nefnd því frv., sem hér liggur fyrir um ríkisútgerð togara til atvinnujöfnunar, því að með því að samþykkja það frv. og framkvæma síðan togarakaup á grundvelli þess, kæmu togarar, sem væru ekki bundnir við neina ákveðna, nafngreinda staði, heldur gætu orðið til atvinnueflingar, þar sem þörfin væri mest á hverjum tíma, og þannig miklu betur leyst úr þeim vanda, sem hvílir á ríkisstj. á hverjum tíma að koma atvinnulífinu til aðstoðar, þar sem vanda ber að höndum hverju sinni. Ég harma þetta og tel, að hæstv. ríkisstj. ætti nú að gefa sínum fylgismönnum bendingu um það, að þeim væri nú óhætt að lofa frv. að koma úr nefnd og til umræðu í þinginu, og hefði verið eðlilegt, að það frv. hefði komið hér til umr. fljótlega eftir þessi ríkiskaupafrv. á togurum, því að það mun áreiðanlega verða fastar kallað eftir því, að stjórnin geri það frv. að lögum, eftir að hún er búin að bæta úr þörf nokkurra einstakra staða með því að aðstoða þá við togarakaup.

Ég fyrir mitt leyti óttast, að sú verði reynslan, að það, að ríkið kaupi togara og selji einum eða tveimur kaupstöðum eða kauptúnum, sé ekki framtíðarskipulag. Ég er hræddur um, að það geti farið svo, að slíkir staðir geti sligazt undir slíkri togaraútgerð og hún þannig orðið skammgóður vermir atvinnulífinu. Stundum eru þeir atvinnutæki í þjónustu þessara staða, þegar ekki hefði kannske verið þörf á, að þeir þjónuðu þeim, og meiri þörf á, að þeir þjónuðu öðrum stöðum, og koma þannig ekki að því gagni, sem mátt hefði verða með því, að þeir hefðu verið í eign ríkisins og ríkisstj. síðan fært þá til, látið þá leggja upp afla eftir því, sem þörfin heimtaði á hverjum stað og tíma. Það, vill svo vel til, að í hinu nýafstaðna verkfalli örlaði í fyrsta sinn dálitið á því, að til væri skilningur á því að leggja upp aflann hér og þar úti um land, og eins og það væri svona vaxandi skilningur á því, að það væri framkvæmanlegt, að sama skipið legði upp á Vestfjörðum í einni veiðiför, á Norðurlandi í annarri og í þeirri þriðju við Breiðafjörð. Mætti það verða okkur líka til íhugunar eftir verkfallið, að þetta er vel framkvæmanlegt og þetta er ekki afleit hugmynd, en því miður fer það líklega svo, að áhuginn fyrir þessari atvinnujöfnunarstarfsemi dvínar nú þegar verkfallið er búið. En það væri ástæða til þess, að hæstv. ríkisstj. myndi eftir því, hversu vel þetta var þegið á ýmsum stöðum núna meðan á verkfallinu stóð, og áreiðanlega vakna vonir um, að þeirri atvinnujöfnunarstarfsemi ljúki ekki með lausn verkfallsins.