29.04.1955
Neðri deild: 81. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

187. mál, togarinn Valborg Herjólfsdóttir

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kom hér í ræðustólinn áðan og gaf okkur svör um það, hvernig á því stæði, að togari var af ríkisvaldinu tekinn úr umferð eitthvað dálítið á fjórða mánuð á hávertíðinni, og svör hans voru efnislega eitthvað á þessa leið: Eigendurnir vildu selja í desember. Það varð að svara því þá þegar, en kaupendur, sem áttu að fá skipið, voru ekki tilbúnir að taka við því fyrr en í marz, og þá var ekki um annað að ræða en að geyma skipið. — Mér skilst, að þetta sé það, sem hæstv. ráðh. vildi upplýsa okkur um í þessu máli. En ég vildi nú benda þessum hæstv. ráðh. á það. að þetta köllum við í stjórnarandstöðunni mikið úrræðaleysi og teljum lítinn glæsibrag á þeirri íslenzku ríkisstjórn, sem telur sig það eitt hafa að gera við íslenzka skipaflotann, ef hún á einhvern umráðarétt yfir honum, að geyma hann — að geyma stórvirkustu fiskiskipin yfir vertíðina.

Það kann vel að vera, að þetta telji ríkisstjórnin vera fullkomna afsökun fyrir öllu sínu framferði í málinu. Ég get ekki talið, að svo sé, og ég tel, að hún ætti að fara öðruvísi að næst, þegar hún verður eitthvað við slíkt mál riðin. Það væri það minnsta, sem hún gæti gert, að gera fyrri eigendum skipsins að skyldu að gera það út, þar til kaupin hefðu farið fram, eða ef það væri ekki fyrir hendi, þá ætti nú ríkisstj. að geta ráðizt í það að taka þann þátt í höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar að gera út einn togara á hávertíð um þriggja mánaða tíma fyrir ríkisins reikning. Á hvorugan þennan möguleika virðist ríkisstj. hafa komið auga, og ráðh. svarar fyrir hönd allrar ríkisstj., að ekki hafi verið um annað að ræða en að geyma skipið. Ekki get ég nú tekið aftur mótmæli mín gegn svona vinnubrögðum þrátt fyrir þessar upplýsingar ráðh., en ég skal ekki segja um það, hvort allir hans samstarfsmenn telja þetta vera fullnægjandi afsökun fyrir því framferði, sem ríkisstj. hefur viðhaft í þessu máli.