21.02.1955
Efri deild: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

150. mál, kostnaður við skóla

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú ekki hljóðs til þess að fara að ræða frv. þetta efnislega á þessu stigi. Það felur í sér fjölmörg atriði, sem þurfa nákvæmrar athugunar og ekki er rétt að festa í lög án mjög gaumgæfilegrar athugunar. Mér virðist það ekki óeðlilegt, að þau atriði, sem frv. þetta fjallar um, séu tekin út úr hinum ýmsu l. um fræðslukerfið og sameinuð í ein lög, eins og hér er lagt til að gert verði. Það hefur a.m.k. þann kost, að það er aðgengilegra og auðveldara að átta sig á löggjöfinni, ef þessi atriði eru tekin út úr og höfð í sérstökum lögum. Það er líka rétt, að þörf er samræmingar í ýmsum efnum og skýrari og fyllri ákvæða í samræmi við fengna reynslu, frá því að fræðslulögin voru sett. En í þessu frv. felast einnig ýmis nýmæli og sum allmikilvæg og þó einkum ákvæðið í 3. málsgr. 2. gr., sem fjallar um ákvörðunarvaldið í sambandi við byggingarframkvæmdir og skyldur ríkissjóðs í sambandi við greiðslur síns hluta af stofnkostnaði skólanna.

Það er ekkert minnzt á það í grg. og var ekki gert í framsöguræðu hæstv. menntmrh., hvaða aðilar hafi unnið að samningu þessa frv. með ráðuneytinu eða hvaða samráð rn. hefur haft við þá, sem hlut eiga að máli. En nú er það mjög nauðsynlegt, að slík lög sem þessi, sem ætlazt er til þess að verði samræmd heildarlöggjöf til frambúðar, séu mjög vandlega undirbúin, og til þess þurfa að koma til ráð og till. þeirra manna og þeirra aðila, sem mesta þekkingu og reynslu hafa í þessum málum og gerst mega um það vita, hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar af hálfu hins opinbera, til þess að fræðslulögin geti náð tilgangi sínum og orðið þjóðinni að sem beztum notum.

Ég vil þess vegna beina því til hv. menntmn., sem nú væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún sendi frv. til umsagnar slíkra aðila sem fræðslumálastjóra, námsstjóra og til fræðsluráða og jafnvei skólanefnda, áður en hún afgr. það af sinni hálfu.

Það var mjög fróðlegt að heyra, hvað skuldir ríkissjóðs eru orðnar miklar í þessu sambandi, að skuldir ríkissjóðs vegna skólabygginga skuli nú vera orðnar yfir 17 millj. kr. Þegar ný löggjöf er sett um þetta efni, þá er alveg nauðsynlegt, að það verði gerðar ráðstafanir til þess, að þessi lögboðnu framlög verði greidd á eins skömmum tíma og unnt er.