21.03.1955
Efri deild: 60. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

150. mál, kostnaður við skóla

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar fræðslulögin voru sett 1946, höfðu þau í för með sér miklar breytingar frá því, sem áður hafði verið um þessi mál. Lögin voru mikill bálkur og höfðu að geyma mörg nýmæli. Var það því ekki undarlegt, þó að þau yrðu að ýmsu leyti erfið í framkvæmd, enda kom það fljótt í ljós. Ákvæði l. um kostnað ríkisins vegna stofnkostnaðar skóla og rekstrar eru á víð og dreif í þrennum lögum um þessi mál og mörg ekki nægilega skýr eða ákveðin. Hefur af þessum sökum reynzt illframkvæmanlegt að setja fullkomna reglugerð í sambandi við lögin, vegna þess að ýmislegt, sem þar þurfti að ákveða um almenna framkvæmd í þessum efnum, hafði ekki nægilega eða þá vafasama stoð í l., og eftir að frv. að reglugerð hafði verið samið, var sýnt, að ekki varð hjá því komizt að setja ný lagaákvæði, til þess að samræmi næðist um framkvæmd laganna.

Hæstv. menntmrh. beitti sér því fyrir því, að sett yrði heildarlöggjöf um þetta efni, og liggur nú sú löggjöf hér fyrir í frumvarpsformi. Í þessu frv. eru felld saman í eina heild öll hin dreifðu ákvæði fræðslulaganna frá 1946, sem fjalla um kostnað ríkissjóðs af skólum þeim, sem lögin taka til, og ýmis nýmæli, sem sum eru þýðingarmikil.

Þegar frv. þetta var til 1. umr. hér í hv. d., fylgdi hæstv. menntmrh. því úr hlaði með ýtarlegri ræðu. Minntist hann þar á, hvernig þessi mál standa nú, skuldir ríkis við bæjar- og sveitarfélög vegna skólabygginga, skuldir, sem alltaf aukast ár frá ári, eru nú rúmar 17 millj. kr., ýmsa erfiðleika og óvissu, sem þessu ástandi eru samfara, bæði fyrir sveitarfélögin og ríkissjóð, og lýsti, hver nauðsyn væri á að kippa þessu í lag á einhvern hátt. Hæstv. ráðh. tók þetta svo glögglega fram, að ástæðulaust er að fjölyrða um það nú. Ég mun því ekki fara frekara út í málið almennt, en víkja nokkrum orðum að frv. sjálfu.

Frv. er í fjórum köflum, og fylgja því ýtarlegar athugasemdir. Er I. kaflinn um stofukostnaðinn. 1. gr. kveður á um, hvernig ákveða skuli fræðsluhéruð, en það gerir menntmrn. að fengnum tillögum fræðslumálastjóra, námsstjóra og hlutaðeigandi fræðsluráðs eða skólanefndar. Á sama hátt er ákveðið, hvort stofna skuli heimavistarskóla eða heimangönguskóla. Ákvæði þessarar gr. svara að mestu til ákvæða í núgildandi lögum um fræðslu barna og lögum um gagnfræðanám, en þó skýrari og ákveðnari.

Með ákvæðum 1. gr. er ætlazt til þess, að unnið verði markvisst að því að koma þeirri skipan á skólahverfi bæði barnafræðslu- og gagnfræðastigsins, að stærð skóla og deildaskipan verði þannig, að fenginn sé sem hagkvæmastur rekstur skólanna, og stefna ákvæði 1. gr. að þessu.

Í 2. gr. segir, að sveitarfélög skuli leggja til lóðir undir allar skólabyggingar, sem tilheyra skólakerfinu og kennslukerfinu. Er ríkisframlag m.a. bundið því skilyrði, að þessu sé framfylgt, og eru þessi ákvæði að mestu samhljóða núgildandi lögum. — Þá segir í 3. mgr. þessarar greinar:

„Alþingi ákveður hverju sinni, til hvaða skólaframkvæmda stofnkostnaðarframlög eru veitt, og er ekki heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en fyrsta fjárveiting er fyrir hendi. Nú hefur Alþingi samþ. slíka fjárveitingu, og ákveður það þá einnig, hvernig greiðslu skuli háttað framvegis. En skylt er ríkissjóði þó að hafa lokið greiðslu framlaga til hverrar framkvæmdar, miðað við upphaflega kostnaðaráætlun, innan fimm ára frá því, er fyrsta framlag var innt af hendi. Ef hafnar eru framkvæmdir, án þess að framantöldum skilyrðum sé fullnægt, er stofnkostnaður ríkissjóði óviðkomandi.“

Þetta eru nýmæli, og segir svo um þessi ákvæði í athugasemdum, sem fylgja frv.:

„Á undanförnum árum hafa ýmsar skólaframkvæmdir haft það í för með sér, að kröfur á hendur ríkissjóði vegna stofnkostnaðar hafa að meira eða minna leyti komið eftir á. Hefur því skort yfirlit um fjárþarfir í þessu skyni, kröfur safnazt saman ár frá ári og mjög verið umdeilt, hvers eðlis þær væru, hvort þær væru eiginlegar réttarkröfur eða ekki. Á þessu verður að ráða bót og viðurkenna, að fjárveitingavaldinu sé skylt að standa við þær skuldbindingar, sem lögboðin fræðsla leggur því á herðar. Með þetta fyrir augum eru sett ákvæðin í 3. mgr. 2. gr. um, að Alþ. ákveði fyrir fram, í hverjar skólaframkvæmdir skuli ráðizt, enda sé ríkissjóður ábyrgur fyrir þeim framlögum og greiðslum, sem af þeim stofnframkvæmdum leiðir.“

Í 3. gr. eru ákvæði um ákveðna skiptingu á stofnkostnaði skólabygginga milli bæjar- og sveitarfélaga og ríkissjóðs. Eru ákvæði þessi samhljóða núgildandi lögum, en að ýmsu leyti fyllri og ákveðnari.

Í 4. gr., sem er síðasta greinin í þessum kafla, er svo ákveðið, að þar, sem svo hagar til við barnaskóla og gagnfræðaskóla, að akstur nemenda til og frá skólastað geti komið í stað heimavistar eða stuðlað að því að sameina skólahverfi eða fámenna skóla, skuli greiða framlag úr ríkissjóði til kaupa á skólabifreið, er nemi 3/4 kostnaðarverðs. Þetta er hvað barnafræðslustigið snertir í samræmi við gildandi lög, en nýmæli að láta ákvæðið ná til gagnfræðastigsins einnig, og þykir það sanngjarnt, þar sem skólaskyldan nær til 1. og 2. deildar þessa skólastigs.

II. kafli frv. er um rekstrarkostnaðinn. Í 5. gr. er ákveðið, að fastir kennarar skuli vera starfsmenn ríkisins, og er samhljóða núgildandi lögum. — 6. gr. er einnig samhljóða núgildandi lögum og fjallar um tölu fastra kennara við barnaskólana. — Í 7. gr. eru settar ákveðnar reglur um, við hvað skuli miðað, þegar ákveðin er tala fastra kennara við skóla gagnfræðastigsins.

Er þetta nýmæli að því leyti, því að í gildandi lögum um gagnfræðanám segir aðeins um þetta atriði, að tölu fastra kennara við skóla gagnfræðastigsins skuli miða við það, að 20–30 nemendur komi á hvern kennara, eftir því hvað verknám er mikið. Eins og 7. gr. ber með sér, er þetta tekið allt miklu nánar og skýrar fram en í núgildandi lögum.

8. gr. fjallar um fasta kennara í húsmæðraskólunum. Svara ákvæði gr. til gildandi laga, en nánar útfærð. Nýmæli er það ákvæði, að húsmæðraskóli skuli ekki starfræktur með færri nemendum en 15.

Ákvæði 9. gr. fjalla um nánari útfærslu á ákvæðum 22. gr. um fræðslu barna, hvað snertir sérstörf kennara. Í frv. er gert ráð fyrir, að ákvæðið taki einnig til gagnfræðaskóla og húsmæðraskóla.

10. gr. fjallar um þátttöku ríkissjóðs í greiðslu fyrir stundakennslu og forfallakennslu. Er þar kveðið skýrar á um en í gildandi lögum og stundakennslan ekki greidd ótakmarkað, eins og nú mun vera yfirleitt venja.

Í 12. gr. er ákvæði um, að sé tekið á leigu húsnæði til skólahalds, þá taki ríkissjóður þátt í greiðslu húsaleigu að sama hluta og í stofnkostnaði. Er þetta nýmæli að því leyti, að nú mun það vera svo, að ríkissjóður tekur þátt í húsaleigu, t.d. við barnaskólana, eins og öðrum rekstrarkostnaði að einum fjórða hluta.

Í 13. gr. er ákvæði um, að þar sem svo hagar til við barnaskóla og gagnfræðaskóla, að akstur nemenda til og frá skóla með skólabifreiðum stuðlar að því að sameina smá skólahverfi eða fámenna skóla eða sparist við það rekstur heimavistar, greiði ríkissjóður 3/4 hluta flutningskostnaðarins. Í gildandi fræðslulögum nær þetta ákvæði aðeins til barnaskóla, en þá er gert ráð fyrir því í gildandi lögum, að ríkissjóður greiði laun bifreiðarstjóra skólabifreiðar. Þetta hefur aldrei komizt í framkvæmd og virðist ekki heppilegt. Ákvæði þetta er því fellt niður, en greiðsluhlutfall ríkissjóðs hækkað, þegar flutningar á nemendum tryggja hagkvæmari rekstur. Það hefur sýnt sig, þar sem þetta hefur verið framkvæmt, að það getur verið mjög hentugt upp á reksturinn að gera að láta aka nemendum til og frá skóla, heldur en að koma á stofn t.d. heimavistarskóla eða halda við mjög litlum skólum.

Í 10. gr. eru upp tekin ákvæði úr gildandi lögum um þátttöku ríkissjóðs í greiðslu á öðrum kostnaði skólahaldsins. Er þar ekki um breytingar á greiðslunum að ræða.

III. kafli frv. er um reikningshald, endurskoðun og eftirlit. Segir í 19. gr., að hlutaðeigandi sveitarfélög annist fjármál og reikningshald skóla, og er það eftir núverandi lögum óbreytt.

Í 20. gr. segir, að námsstjórar skuli veita leiðbeiningar um bókhald í skólum, sem umsjón þeirra lúta, og hafa eftirlit með eignum þeirra, fjárreiðum og reikningsfærslu. Þeir skulu framkvæma efnislega og tölulega endurskoðun á bókhaldi skólanna og ársreikningum.

Þá segir í 21. gr., að menntmrn. feli sérstökum reikningsfróðum og skólafróðum manni að hafa yfirumsjón með eftirlitsstarfi og endurskoðunarstarfi þessu og eftirlit með félagslegri framkvæmd þessara ákvæða. Í athugasemdum við frv. segir um kaflann um reikningshald, endurskoðun og eftirlit:

„Með setningu núgildandi fræðslulaga frá 1946 gerðist ríkissjóður hluttakandi í stofnkostnaði og rekstrarkostnaði skólanna í ákveðnum hlutföllum. Af þessu leiðir, að af hálfu ríkissjóðs verður að vera öruggt eftirlit með fjárhagslegri framkvæmd fræðslulaga, sannprófun á réttmæti greiðslukrafna á hendur ríkissjóði og samskiptum ríkisins og sveitar- og bæjarfélaga í skólamálum. Enn fremur verður að halda uppi fullnægjandi eftirliti með eignum skólanna, meðferð þeirra og viðhaldi.

Fyrir þremur árum gerði menntmrn. þá ráðstöfun að fela sérstökum skólafróðum manni eftirlit þetta, og hefur það gefið góða raun.

Rekstur barnaskóla og gagnfræðastigsskóla fer saman í um 27 skólum. Vart er hægt að fullvissa sig um réttmæti kostnaðar vegna annars skólaflokksins, nema athugaður sé kostnaður hins. Gæti hæglega svo farið, að kostnaður yrði eila tvítalinn. Þá er þess einnig að gæta í þessu sambandi, að sé réttur annars skólaflokksins til fastra kennara ekki sannprófaður, þá er óvíst, að samræmi náist.“

Þá segir svo um námsstjóra, að telja megi, að námsstjórar hafi betri aðstöðu en aðrir til þess að rannsaka fjárreiður skólanna, um leið og þeir heimsækja þá í öðrum erindum. Er ófært kostnaðar vegna að senda aðra menn í slóð þeirra til þess að rannsaka fjárreiðurnar.

Þá er nýtt ákvæði um viðhald skólanna. Með ákvæðum fræðslulaganna um hlutdeild ríkissjóðs í stofnkostnaði skóla, ýmist að helmingi eða 3/4 hlutum, hefur ríkið þar mikilla hagsmuna að gæta um það, að allt viðhald eignanna sé í góðu lagi. Kostnaðarsamt hefur það reynzt, þegar þurft hefur að endurbyggja skóla vegna ónógs viðhalds árum saman. Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að hvor aðili, ríki og sveitarfélag, viðhaldi sínum hluta í eigninni, þ.e. greiði viðhaldskostnað í sama hlutfalli og stofukostnað. Þetta er nýtt ákvæði, a.m.k. hvað snertir barnaskólana, því að hingað til hefur viðhaldið verið borgað eins og hver annar rekstrarkostnaður.

Ég vildi svo að síðustu benda á það, að með frv. þessu er ætlazt til, að auðveldara verði að hafa vald á þessum málum, þannig að samskipti ríkis og sveitarfélaga færist í einfaldara og samræmdara horf en verið hefur, að greiðara verði um allt aðhald og eftirlit og að áætlanir til fjárlaga um skólakostnað hverju sinni verði reistar á eins traustum forsendum og við verður komið.

Eins og nál. á þskj. 401 ber með sér, þá hefur þetta mál verið hjá menntmn. Til meðferðar. N. hefur haldið fund um málið og kvatt á sinn fund fræðslumálastjóra, sem því miður gat ekki mætt hjá n., og einnig Aðalstein Eiríksson námsstjóra. Hann mætti, og n. átti tal við hann um málið í heild. Einn nm., hv. 1. þm. Eyf. (BSt), var veikur um það leyti sem n. fjallaði um þetta mál og gat þess vegna ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins, en tjáði sig síðar samþykkan málinu óbreyttu eins og meiri hl. n. hafði gengið frá því. En þrír nm., sem voru á öllum fundunum, sem fjölluðu um málið, voru sammála um að leggja

til, að frv. yrði samþykkt óbreytt. Einn nm., hv. 4. þm. Reykv. (HG), var á fundi n. og tók þátt í afgreiðslu málsins, en síðast, þegar tekin var fullnaðarákvörðun um afgreiðslu þess í n., var hann vikinn af fundi, var kallaður í burtu og gat ekki setið fundinn allan út. Hann hefur því ekki skrifað undir nál., tók sem sagt þátt í nefndarstörfunum um málið, en er samt vitanlega óbundinn af ákvörðun nefndarmeirihlutans. Fjórir nm. í menntmn. leggja sem sagt til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 358.