21.03.1955
Efri deild: 60. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

150. mál, kostnaður við skóla

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það voru nú aðeins örfá orð. Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það, hvort hv. menntmn. hefur rætt við námsstjóra húsmæðraskólanna um ákvæði 8. gr. um kennarafjölda í þeim skólum. Ég skal ekki fara efnislega út í þessa grein, en vil aðeins leyfa mér að beina þessari fyrirspurn til nefndarinnar.

Annað atriði, sem ég vildi minnast á, er viðkomandi 1. gr. frv. Þar er kveðið svo á, að menntmrn. ákveði fræðsluhéruð og skólahverfi barnafræðslu og gagnfræðastigs. Þetta frv. tekur annars til þriðja skólaflokksins, húsmæðraskólanna. Nú er þannig ástatt, eins og öllum er vafalaust kunnugt, að það er ekkert ákveðið skipulag um skólahverfi húsmæðraskólanna. Sums staðar stendur einn kaupstaður að húsmæðraskóla, enda þótt sami skóli sé vitanlega sóttur víðs vegar að af landinu, sums staðar fleiri sýslur, en án skipulags. Af þessu leiðir, að kostnaður við stofnun og rekstur húsmæðraskóla kemur ákaflega ójafnt niður á hin ýmsu sveitarog bæjarfélög landsins. Mér virðist, að full ástæða væri til að taka húsmæðraskólana einnig inn í 1. gr. Ég ætla þó ekki að flytja um þetta brtt. nú við 2. umr., en leyfi mér að beina því til hv. n., hvort hún vildi ekki athuga þetta sérstaka atriði á milli 2. og 3. umr.