06.05.1955
Neðri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

150. mál, kostnaður við skóla

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er sannfærður um það, að það atriði, sem hv. 11. landsk. þm. (LJós) drap á núna, mun sýna sig að vera rétt. Ég veit, að það mun verða miklum vandkvæðum bundið í hinum fámennari skólum að koma stundaskrá þannig saman, að aukakennsla verði ekki mun meiri en gert er ráð fyrir í frv., þannig að sveitarfélögin verði eftir lagabókstafnum að bera miklu meira af þeim kostnaði en sanngjarnt er.

En ég er jafnsannfærður um það, að þessi ágalli mun líka koma fram að því er snertir húsmæðraskólana. Það eru líka fámennir skólar, með þetta 36–40 nemendum, og komast alls ekki af með það fasta kennaralið, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég er því afar hræddur um, að þar komi þetta sama í ljós.

Í þriðja lagi er , ég sannfærður um það, að þetta kemur í ljós í þeim gagnfræða- og héraðsskólum, sem farnir eru að nokkru verulegu ráði að framkvæma nýja og gildandi skólalöggjöf um verknám, því að í verknáminu verður að haga kennslu þannig, að ekki séu nema 10–15 nemendur á hvern kennara í kennslustund, og þannig verður að heimila miklu ríflegri kennslukrafta til framkvæmda á þeirri kennslu en í bóklegu greinunum. Ég er þess vegna alveg viss um, að þar sem farið er að framkvæma verknámið á þann hátt, sem til er ætlazt samkvæmt skólalöggjöfinni, þannig að helmingur stundafjöldans sé kennsla í verklegu námi, þá verður ekki hægt að komast hjá því að aukakennsla samkv. ákvæðum þessara laga verður miklu meiri en gert er ráð fyrir, og hlýtur þá kostnaður af henni, ef bókstafnum verður stranglega fylgt, að leggjast á sveitarfélögin. Það er sjálfsagt ekki tími til þess að knýja fram breytingar á þessu nú, en sjálfsagt er þó að vekja athygli á þessu, og það er alveg vitað mál, að á næsta þingi mun koma til breytinga á þessari löggjöf, ef ekki er ætlun ríkisstj. að ýta nokkrum verulegum hluta af kostnaðinum við þetta skólahald yfir á sveitarfélögin, þar sem skólarnir eru.