05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég gaf í vetur yfirlit til bráðabirgða um afkomu ríkissjóðs árið 1954. Áætlað var, að greiðsluafgangur mundi verða 35 millj. kr. Endanlegt uppgjör hefur ekki enn þá farið fram, og það er ekki hægt að fullyrða um það, að þessi áætlun standist, en í trausti þess, að niðurstaðan verði ekki langt frá því, sem áætlað var, hefur ríkisstj. gert frv. það til l. um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1954, sem hér liggur fyrir, og er þetta í formi heimildarlaga, eins og hv. þm. sjá.

Í raun réttri hefði þurft að leggja til hliðar talsvert af þessum greiðsluafgangi til þess að auka jöfnuð í þjóðarbúskapnum. Það er mikil þensla í peningakerfinu, eins og við vitum, og hefði við þessar ástæður í raun og veru þurft að safna fyrir fé, sem mætti þá síðar nota, þegar sérstök þörf væri á því að auka framkvæmdir. En vegna þess, hversu mikil þörf er fyrir ýmiss konar framlög af hendi ríkisins, hefur stjórnin ekki séð sér annað fært en að gera till. um að ráðstafa meginhluta þessa afgangs. Að vísu er ekki gert ráð fyrir því, að þar komi til greina útborganir strax í öllum greinum, þannig að nokkuð af greiðsluafganginum mun hafa áhrif til jöfnunar í þjóðarbúskapnum. Sérstaklega má í því sambandi minna á 9. lið frv., þar sem gert er ráð fyrir að leggja til hliðar upp í framlag ríkisins til atvinnuleysistrygginga 6 millj. kr. Það er sem sé ekki ástæða til að gera ráð fyrir því, að þessu fé þurfi að halda til útborgunar á næstu missirum. Mundi þetta á hinn bóginn verða vísir að þeim sjóði, sem á að koma upp til atvinnuleysistrygginga. Því miður er því hins vegar svo varið um flesta hina liðina, að þeir verða að greiðast strax.

Ég mun fara örfáum orðum um hvern lið fyrir sig.

Fyrst er til ræktunarsjóðs 8 millj. kr. Ég hef ekki á reiðum höndum yfirlit um fjárþörf ræktunarsjóðs, en hún er orðin gífurlega mikil, miðað við að fullnægja eftirspurninni eftir lánum út á ræktun og útihúsabyggingar og raunar önnur þau verkefni, sem sjóðnum eru ætluð. Ég held þó, að það mætti áætla lauslega, að ef vel ætti að vera, þyrfti að útvega þessum sjóði 30 millj. kr. eða meira árlega af nýju fé næstu árin. Undanfarið hefur verið útvegað mikið fé til þessa sjóðs, og á síðastliðnu ári varð að ráði að greiða sjóðnum 8 millj. kr. upp á væntanlegt samþykki Alþ. af fyrirsjáanlegum greiðsluafgangi, og er hér með leitað staðfestingar á þessu framlagi. Þetta var gert í samráði við þann þingmeirihluta, sem stjórnina styður. Það er gert ráð fyrir því, að þetta verði framlag ríkissjóðs til ræktunarsjóðsins, sem ekki verði endurheimt og ekki verði greiddir vextir af. Sumir hefðu kannske viljað, að þetta hefði verið lán og greiddir af því vextir til ríkissjóðs og féð endurheimt smátt og smátt með það fyrir augum, að því gæti þá orðið ráðstafað í öðru skyni. En þegar það liggur fyrir, að ræktunarsjóður hefur svo mikla fjárþörf sem ég var að lýsa, svo og hitt, að það er stórkostlegur vaxtahalli í rekstri ræktunarsjóðsins árlega og fer sífellt vaxandi vegna þess, að hann verður að taka mjög mikið fé að láni með mun hærri vöxtum en hann tekur aftur af þeim lánum, sem hann lánar út, þá verður að láta sjóðinn hafa meiri framlög, meira eigið fé til þess að starfa með en hann hefur haft fram að þessu. Þess vegna er það till. ríkisstj., að sjóðurinn fái þetta sem framlag, en ekki sem lán.

Enn fremur hefur ríkisstj. átt hlut að því, að í hv. Ed. er tekið inn í frv. það um ræktunarsjóð, sem er á leiðinni gegnum þingið, ákvæði um að hækka hið árlega framlag til ræktunarsjóðs úr ríkissjóði um 1 millj. og 100 þús. kr. Mun sízt af öllu þessu veita til þess að styðja sjóðinn, jafnstórfelldur vaxtahalli og hlýtur að verða á viðskiptum hans á næstu árum þrátt fyrir vaxtahækkun þá, sem gert er ráð fyrir að verði á lánum úr sjóðnum, svo sem hv. þm. kannast við.

Þá er það fiskveiðasjóður, hann þarf mjög á fjármagni að halda á næstunni. Bæði er verið að byggja báta hér innanlands, þó nokkuð marga, sem fiskveiðasjóður þarf endilega að lána út á, og enn fremur er gert ráð fyrir að flytja inn talsvert marga báta á næstunni, sem líka verður að lána út á. Í þessu sambandi er og rétt að minna á, að verið er að setja nýja löggjöf um fiskveiðasjóðinn, þar sem ætlazt er til, að hann hækki útlán sín út á innanlandssmíðaða báta upp í allt að 75% af andvirði þeirra og lán sín út á innflutta báta upp í allt að 2/3 af andvirði þeirra. Sjóðurinn þarf því mjög á fé að halda og verður að fá stórfé að láni á næstunni, ef vel á að fara. Gert er ráð fyrir, að þetta fé verði einnig beint framlag til hans, en ekki lán, og er þar að nokkru leyti um sömu ástæður að ræða og ég rakti um ræktunarsjóðinn, því að búizt er við, að fiskveiðasjóður verði að greiða mun hærri vexti af lánum þeim, sem hann þarf að taka á næstunni, en hann tekur af lánum út á vélbáta. Það kemur því fram mikill vaxtahalli, og því þarf að styrkja sjóðinn sem mest.

Þá er 3. liður, það er lán til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands. Það hefur verið stórkostlegur skortur á lánsfé til ýmissa framkvæmda í landbúnaðinum, sem ekki falla undir lánareglur byggingarsjóðs eða lánareglur ræktunarsjóðs. Menn kaupa jarðir, stofna til búskapar með margvíslegum kostnaði, sem ekki er lánað beint til úr öðrum deildum bankans. Það hefur skort mjög tilfinnanlega fjármagn í veðdeildina og lítið verið hægt úr þessu að bæta, því að það er takmarkað, sem hægt er að ná saman af lánsfé innanlands, og það eru ekki síður takmörk fyrir því, hvað hægt er að fá af lánum erlendis. Menn hafa haft hug á því undanfarið að leggja veðdeild bankans nokkurt fé af ríkisfé, en aldrei séð sér fært að stíga neitt verulegt spor í því efni. Dálítið spor var þó stigið hér í fyrra, þar sem gert var ráð fyrir að útvega veðdeildinni rúma milljón á ári að láni með vissum hætti, en það er líka það eina, sem Alþingi hefur séð sér fært að aðhafast í þessu nú um sinn. Vegna þess, hve þörfin er hér brýn, gerir ríkisstj. að sinni till., að veðdeildinni verði lánaðar 4 millj. af greiðsluafgangínum. Þykir rétt, að hér sé um lán að ræða, en ekki framlag, m.a. byggt á því, að veðdeildin lánar með nokkru hærri vöxtum en byggingarsjóður og ræktunarsjóður og getur því betur staðið undir lánum en þær deildir. Það er sem sé ekki sama þörf til þess að styrkja veðdeildina að eigin fé og hina sjóðina, fiskveiðasjóð og ræktunarsjóð, þótt nauðsynlegt sé að útvega henni lánsfé til þess að starfa með.

Þá er 5. liður: Til greiðslu uppbóta á sparifé. Fyrir löngu — það mun hafa verið árið 1950 var sett í lög, að bæta skyldi sparifé. Þetta hefur dregizt, vegna þess að flókinn undirbúningur, skilst mér, hefur orðið að eiga sér stað. Í löggjöfinni, sem þá var sett, var gert ráð fyrir að greiða sparifjárbæturnar af stóreignaskatti, en stóreignaskattur var þannig á lagður, að 10% voru innheimt í peningum, en það sem eftir var í skuldabréfum til 20 ára. Ákveðið var, að aflatryggingasjóður skyldi fá fyrstu 5 millj., sem inn kæmu í peningum af stóreignaskatti, og svo varð að greiða kostnaðinn við að leggja skattinn á af þeim peningum, sem inn komu, en síðan var auðvitað meiningin, að til sparifjárbóta gengju þeir peningar, sem þá væru eftir.

Nú hefur niðurstaðan orðið sú, að peningar þeir, sem inn komu, urðu ekki nógir til þess að greiða aflatryggingasjóði, kostnaðinn og allar sparifjárbæturnar, 10 millj. Var raunar sett í lögin frá 1950 heimild til þess að greiða sparifjáruppbæturnar að einhverju eða öllu leyti í ríkisskuldabréfum. Þegar viðskmrn. hafði lokið undirbúningi að greiðslu bótanna, sem var í vetur, kom til að ákveða, hvernig greiða skyldi bæturnar, hvort notfæra ætti sér heimildina til þess að greiða þær að einhverju leyti í skuldabréfum. Sýndist þá ekki réttmætt að greiða bæturnar að einhverju leyti í skuldabréfum, heldur væri einsýnt að keppa að því að greiða þær að öllu leyti í peningum. Mönnum fannst ekki mega minna vera en að menn fengju þessar bætur í peningum, þegar búið var að bíða svo lengi eftir þeim sem raun var á orðin og ég hef lýst. Fannst ekki vera sæmilegt af ríkinu að afhenda mönnum skuldabréf í bæturnar, þegar loks kom að því, að menn skyldu fá þær greiddar út. Þá kom í ljós, að það vantaði 11/2 milljón til þess, að hægt væri að borga bæturnar upp af stóreignaskattsfé. Er lagt til, að af greiðsluafgangi nú verði heimiluð 11/2 millj. í þessu skyni.

Þá er 6. liður: Til greiðslu á framlagi ríkissjóðs fyrir árið 1955 til útrýmingar heilsuspillandi íbúða. Í löggjöfinni um íbúðamálin, sem er á leiðinni gegnum þingið, er gert ráð fyrir 3 millj. kr. árlegu framlagi af ríkissjóðs hendi til útrýmingar heilsuspillandi íbúða.

Það er búið að ganga frá fjárlögum fyrir þetta ár og að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir þessu framlagi á þeim, þar sem ekki var búið að setja lögin, þegar gengið var frá fjárlögunum. Nú eru horfur ekki svo góðar á þessu ári um afkomu ríkissjóðs, að það þyki rétt að gera ráð fyrir að greiða þessar 3 millj. af tekjum þessa árs, og var því það ráð tekið, til þess að hægt væri að leggja fram þegar á þessu ári fyrstu 3 millj. í þessu skyni, að leggja til, að þær verði teknar af greiðsluafgangi ríkissjóðs fyrir s.l. ár.

Þá er næst lagt til, að lagðar verði til brúasjóðs, til endurbyggingar gamalla stórbrúa, 11/2 millj. Brúasjóði er ætlað það hlutverk að standa undir kostnaði við að byggja stórbrýr. Þar eru mörg verkefni framundan. Sumar af hinum eldri stórbrúm eru að verða ónýtar, sérstaklega brúin á Jökulsá í Axarfirði og brúin á Lagarfljóti. Báðar þessar brýr eru alveg að verða ónýtar og ekki bægt að draga lengur að hefjast handa um að endurbyggja þær. Að réttu lagi kemur það í hlut brúasjóðs að standa undir þessum framkvæmdum, en það er augljóst, að hann getur það ekki nógu fljótt, nema hann fái meiri tekjur en hann hefur af benzínskatti. Hann hefur mikil önnur verkefni með höndum. Það er verið að byggja stórbrú á Iðu og búið að ákveða að byggja brú á Hofsá í Álftafirði í sumar, og það er enn þá verið að starfa að brú yfir Skjálfandafljót. Fleira kemur og til hjá brúasjóði. Í vetur var tekinn nýr liður á fjárlög, til endurbyggingar gamalla stórbrúa, 11/2 millj., og á það að vera til þess að styðja brúasjóð til að standa undir endurbyggingu stórbrúnna. En vegna þess, hve þörfin er brýn, hefur ríkisstj. ákveðið að leggja til við hv. Alþ., að heimilað verði til viðbótar þessu að leggja 1 1/2 millj. af greiðsluafganginum s.l. ár til brúasjóðs, til að standa undir endurbyggingu gömlu brúnna.

Þá kemur næst heimild til þess að greiða upp í hluta ríkissjóðs af stofukostnaði skóla, sem þegar hafa verið byggðir eða eru í byggingu, 2 millj. kr. Það er öllum hv. þm. vel kunnugt, að mjög mikið vantar á, að ríkið hafi getað lagt fram sinn hluta af skólakostnaði undanfarin ár. Á fjárlögum var nú heimiluð nokkur fjárhæð í þessu skyni sérstaklega, að borga upp í áfallnar greiðslur til sveitar- og bæjarfélaga vegna skólabygginga, en ógreiddar fjárhæðir eru svo háar, að ríkisstj. hefur ekki þótt annað fært en að leggja til, að til viðbótar því, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum, verði nú heimilað að taka 2 millj. af greiðsluafganginum og verja í sama skyni.

Segja má, að um næsta lið, heimild til þess að greiða upp í hluta ríkissjóðs af kostnaði við hafnargerðir, sem þegar hafa verið framkvæmdar, gildi nákvæmlega sama og um skólaliðinn, sem ég var að lýsa. Gert er ráð fyrir, að ríkisstj. verði heimilað að borga 1 millj. upp í greiðslur vegna hafnargerða, sem þegar hafa verið framkvæmdar, en ekki hefur verið hægt að leggja á móti vegna þess, að fjárveitingar hafa ekki hrokkið til.

Loks kem ég að 9. lið, heimild til að leggja til hliðar upp í framlag ríkisins til atvinnuleysistrygginga 6 millj. kr. Eins og hv. þdm. er öllum vel kunnugt, hefur orðið samkomulag um, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar beiti sér fyrir því, að á næsta hausti verði sett löggjöf um atvinnuleysistryggingar, og hefur verið samið um höfuðatriði þeirrar löggjafar. Eitt atriðið er, að frá 1. júní þessa árs skuli greiða í atvinnuleysissjóð. Þarf þá auðvitað að hugsa strax fyrir því, að ríkið hafi sitt framlag tilbúið í sjóðinn. Ómögulegt er að bæta þessu ofan á fjárlögin af ástæðum, sem ég greindi áðan, og vill stjórnin því hafa þann hátt á þessu, að fá heimild Alþ. til þess að leggja þessa fjárhæð til hliðar af greiðsluafgangi s.l. árs.

Ég vil taka það fram til fróðleiks, að mjög lausleg áætlun hefur verið gerð um væntanlegan kostnað ríkissjóðs af löggjöf þeirri, sem heitið hefur verið um atvinnuleysistryggingar. Er þar gert ráð fyrir, að árlegur kostnaður ríkissjóðs verði í kringum 14 millj. Það mætti því gera ráð fyrir, að þessar 6 millj. yrðu hátt upp í það framlag, sem ríkissjóður þarf að greiða á þessu árí. Sá er kostur á þessari ráðstöfun, eins og ég gat um áðan, að þetta fé verður ekki útborgað strax, heldur mun verða geymslufé, sem verkar í jafnvægisátt í þjóðarbúskapnum, og það sama má segja um þessar fyrirhuguðu atvinnuleysistryggingar yfirleitt, að sjóðssöfnun sú, sem gert er ráð fyrir í sambandi við þær, mun áreiðanlega hafa mjög bætandi áhrif á fjármálakerfið. Er gott til þess að vita, að eitt stórt atriði þannig vaxið hefur verið ákveðið í sambandi við þær ráðstafanir, sem annars hafa nú verið gerðar og auðvitað verka í hina áttina margar hverjar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að skýra frv. nánar við þessa umr., en nauðsyn er að ljúka nú málinu, eins og allir hv. þm. sjá sjálfsagt. Vil ég því fara fram á það við hv. fjhn., að hún taki þetta mál fyrir annaðhvort í dag eða í fyrramálið, eins og málið um vísitöluuppbótina, og reyni að skila áliti svo fljótt, að frv. geti orðið afgr. frá hv. d. á morgun. Það ætti nú að vera léttara vegna þess, að sumir liðir frv. eru vel kunnir hér á hv. Alþingi. Sumir hafa verið ræddir hér áður, svo sem framlagið til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs. Og framlag til atvinnuleysistrygginganna er mönnum vel kunnugt að hlaut að koma samkvæmt því samkomulagi, sem gert hefur verið til lausnar vinnudeilunni.