06.05.1955
Neðri deild: 86. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Frv. ríkisstj. um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1954 er raunar eitt af skárri blöðunum, sem ríkisstj. hefur lagt fyrir þetta þing, í vissum skilningi þó. Sem sagt, þeim greiðsluafgangi, 35 millj. kr., sem þar er gert ráð fyrir að ráðstafað verði með lögum, er að sumu leyti og að mestu leyti ráðstafað til hluta, sem eru mjög þarflegir. 8 millj. kr. er ráðstafað til ræktunarsjóðs, öðrum 8 millj. til fiskveiðasjóðs, og eru það stærstu liðirnir.

Ég skal taka það fram, að hér er að því leyti vel að verið, að þarna er um að ræða tvo höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sem vert er að styrkja og styðja. En vinnubrögðin, sem ríkisstj. hefur haft á um þessa hluti, eru hins vegar fullkomlega ámælisverð. Það er ekki hægt að taka það sem góða og gilda afgreiðslu mála, að ríkisstj. ráðstafi eigum ríkissjóðs, ráðstafi fé úr ríkissjóði algerlega á bak við Alþ. og það á meðan Alþ. er að störfum. Það ætti að vera ríkisstj. ljóst, að slíkt eru vinnubrögð, sem eru ekki sæmandi, þótt hún hafi viðhaft þau á s.l. vetri hvað eftir annað.

Ég skal líka taka það fram, að það liggja fyrir stjórnarfrumvörp til afgreiðslu á þessu þingi um báða þessa sjóði, þar sem ríkisstj. gerir ráð fyrir því, að þeir hækki útlánsvexti sína svo að verulega um munar. Ég tel, að það hefði verið fullkomlega vert að athuga þá hluti í sambandi hvorn við annan, að um leið og ríkissjóður leggur þessum sjóðum til stórar fjárhæðir, þá hefði það líka átt að geta orðið til þess, að sjóðirnir héldu áfram starfsemi sinni þannig, að þeir þyrftu ekki að láta koma til stórfelldrar vaxtahækkunar á sínum útlánum.

Í sambandi við 5. lið í þessum greiðslum, þ.e. til greiðslu bóta á sparifé, 11/2 millj. kr., væri fróðlegt að rifja upp þá forsögu, sem að því máli liggur, en hún er sú, að þegar uppbótargreiðsla á sparifé var upphaflega ákveðin, var gert ráð fyrir, eins og fram hefur verið tekið í umr. um þetta mál, að sú uppbót yrði greidd af stóreignaskatti þeim, sem á pappírnum var lagður á, en í framkvæmd og innheimtu hefur orðið ráðandi stétt á Íslandi og þá fyrst og fremst ríkisstj. hennar til meiri vanvirðu en margt annað, sem hún hefur gert, og er þar þó af ýmsu að taka. Sem sagt, þegar ríkisstj. þóttist vera búin að skattleggja stóreignirnar, sem mynduðust í landinu á vissu tímabili, til þess að bæta þeim upp, sem höfðu orðið fyrir skakkaföllum vegna gengisbreytinga, kemur í ljós, að skattheimta ríkisstj., þegar í hlut á íslenzk yfirstétt, er með þeim hætti, að hún nær hvergi nærri heim. Það vantar fé til þess, að hægt sé að standa við þær greiðslur, sem átti að fá fé til með álagningu stóreignaskattsins, svo að þessi 11/2 millj. kr., sem þarna á að greiða úr ríkissjóði, er þess vegna greiðsla, sem ríkisstj. nú tekur að sér að ná út úr íslenzkum almenningi, en hún á sínum tíma hafði gert ráð fyrir og lofað, að íslenzkir stóreignamenn ættu að greiða. Við könnumst við það, hvernig skattinnheimtan á stóreignaskattinum var lögfest og framkvæmd þannig, að stóreignamennirnir þurftu ekki að standa frammi fyrir skattyfirvöldunum á sama hátt og launþegar og aðrir slíkir verða að láta sér líka, að það sé tekið innbú þeirra og hverjar þær eignir, sem til næst. En stóreignamennirnir fengu að afhenda ríkisstj. aflóga skúra og hvers kyns dót, sem þeir vildu losna við úr sinni eigu, og ríkissjóður hafði af sumu því, er tekið var, ekki annað en kostnaðinn. Þetta er saga, sem rifjast upp við að líta yfir þetta blað, frv. til l. um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs. En með því að ekki er vert að hafa umr. um þetta allt of langar, enda skammt til eldhúsdags, þá mun ég láta nægja að vitna til þess, að ég hef skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Sá fyrirvari er í því fólginn, að ég vil nota tækifærið til þess að mótmæla enn einu sinni þeim vinnubrögðum ríkisstj. að framkvæma hluti, sem Alþ. á að ákveða, og stilla síðan Alþ. upp fyrir þeim sem orðnum hlutum, og jafnt í þessu máli sem í nokkrum öðrum hefur ríkisstj. hér gert sínar ráðstafanir einmitt á meðan Alþ. sat og engin ástæða er sýnileg til þess að fara fram hjá Alþ. um ráðstöfun málanna.

Ég vil líka taka það fram, að það væri eðlilegra, að ríkisstj. beitti sér fyrir því, að með lagasetningu væri hlutur sjóða eins og ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs gerður betri en hann er, og hætti því að líta á þessa sjóði sem svo mikið aukaatriði í íslenzkum þjóðarbúskap, að starfsemi þeirra megi ekki styrkja með l. með eðlilegum hætti, heldur skuli þeir einungis koma til álita sem aðilar, sem fengið geti eitthvert fjármagn, ef afgangur verður hjá ríkissjóði, en annars ekki. Ég lít svo á, að hér sé um að ræða sjóði, sem eiga að hafa forgangsrétt að íslenzku fjármagni fram yfir marga aðra, sem nú njóta þess. Þess vegna tel ég, að eðlilegra væri, að þeir fengju fjármagn til starfsemi sinnar tryggt með lögum og þyrftu ekki að bíða eftír því, hvort afgangur verður á greiðslu ríkissjóðs eða ekki.