06.05.1955
Neðri deild: 86. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil helzt ekki þreyta hér kappræður um fjármál Breta, fjármálastjórn Butlers. Ég sagði hér áðan, að ég hefði litið svo til, að Bretar greiddu ekki öll ríkisútgjöldin — með ríkisútgjöldum á ég þar við rekstrarútgjöld og fjárfestingarútgjöld — af tekjum ríkissjóðs einum saman, heldur tækju lán til þess að greiða hluta af þeim. Þetta var það, sem ég sagði áðan, og hv. 1. landsk. þm. (GÞG) staðfesti þetta. Ég skal ekkert fara út í það, hvort þetta er kallaður greiðsluhalli eða greiðsluhalli ekki í Bretlandi, en hitt veit ég, að eftir þeirri venju, sem við notum, þá mundum við segja, að það væri greiðsluhalli á okkar ríkisbúskap, ef við fengjum fé til einhvers hluta ríkisútgjaldanna með lánum, og það alveg eins þó að við tækjum þau lán innanlands. Út frá þessu má náttúrlega ræða mikið um þessi mál almennt. Það er auðvitað mjög ólíkt ástand í Bretlandi og hér, þannig að segja má, að þetta hafi ekki stórkostlega þýðingu í sambandi við þessar umræður. En samt vildi ég vekja athygli á þessu, út af ummælum hv. 1. landsk. þm. Það staðfestist, sem ég sagði áðan, að Bretar útvega sér hluta af því fé, sem þeir nota í fjárfestingu ríkissjóðs, með lánum, þeir greiða hluta af ríkisútgjöldum sínum með lánum, og við mundum ekki kalla þetta hér greiðsluhallalausan ríkisbúskap.

Þá vildi hv. 1. landsk. ræða það, hvaða afleiðingar verkfallið kynni að hafa, og minntist í því sambandi á ýmis varnaðarorð, sem féllu um það efni á meðan á verkfallinu stóð. Það leikur enginn vafi á því, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í kaupgjaldsmálum, eiga eftir að hafa geysilega mikil áhrif á allt fjárhagslíf landsins. Það veit hv. 1. landsk. þm., en ég sé ekki ástæðu til þess að fara að ræða þau áhrif nú í þessu sambandi og þá ekki heldur, hvaða ráðstafanir koma til greina. Á hinn bóginn mun vafalaust verða rætt eitthvað um þetta, áður en þessu þingi lýkur, því að senn verða almennar stjórnmálaumræður.