06.05.1955
Efri deild: 83. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé, að fram er tekið í þessu frv., að vextir af lánum til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands, samkvæmt 3. tölul., skuli vera 51/2% á ári. Þetta gefur mér tilefni til þess að spyrjast fyrir um það, hvort framlagið til ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, samkv. tölulið 1 og 2, sé ekki hugsað sem lán eða hvort hér sé um að ræða beint framlag óendurkræft; hér sé um gjöf til sjóðanna frá ríkissjóði að ræða. Ég leit svo á fyrst, þegar ég leit á frv., að það mundi vera hugsað að auka starfsfé þessara sjóða með slíkum lánum, en athugasemdir varðandi framlagið til veðdeildar Búnaðarbankans gefa mér tilefni til að spyrjast fyrir um þetta.

Þá vil ég einnig taka það fram, að ég sakna þess mjög, að ég skuli ekki sjá í þessu frv., að einhver upphæð sé ætluð til byggingarsjóðs verkamanna, sem er fullkomlega fjárþrota, eins og kunnugt er, og eðlilegt væri að fengi eitthvað af þessum óvanalega ríflegu umframtekjum, sem ríkissjóður hafði á síðasta ári, og mun ef til vill flytja brtt. um það efni.