09.05.1955
Efri deild: 85. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

198. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Skeð er skeð, og ég sé því ekki annað en að eftir atvíkum verði það að teljast eðlilegt að samþ. þetta frv., sem fyrir liggur, um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs 1954.

Ef ég man rétt, upplýsti hæstv. fjmrh., þegar hann gaf yfirlitið um afkomu ársins 1954, að umframtekjurnar hefðu orðið kringum 100 millj. kr. Það er býsna mikið fé, eins og þdm. öllum er ljóst. En jafnframt upplýsti hæstv. ráðh., að af þessum umframtekjum væru þá þegar eyddar um 65 millj. kr., þannig að sá greiðsluafgangur, sem hann taldi þá að fyrir hendi mætti teljast, væri rétt um 35 millj. kr. Hæstv. ráðh. gat þess þá einnig, að ríkisstj. hefði gefið fyrirheit um að ráðstafa nokkrum hluta af þessum greiðsluafgangi til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs; ekki man ég, hvort hann nefndi fleira. Og mér er tjáð, að þessar greiðslur muni þegar hafa verið inntar af hendi.

Ég vil alveg taka undir ummæli hv. frsm. n., að það væri mjög æskilegt, þegar slíkan hvalreka ber á fjörur ríkissjóðs sem varð á seinasta ári, 1954, að unnt væri að taka sem mest af umframtekjunum og mynda af þeim eins konar varasjóð til þess að mæta sveiflum næsta eða næstu ára og til þess að geta notað til atvinnujöfnunar, ef ríkissjóður þyrfti að auka sínar framkvæmdir, vegna þess að atvinnulífið, sem er í einstaklinga og fyrirtækja höndum, drægist saman. Og mér skildist á hæstv. fjmrh. þá, að hann teldi þetta mjög æskilegt. Raunin hefur þó orðið sú, að hér er lagt til, að þessum 35 millj. verði úthlutað eins og hér er gert ráð fyrir. Ég skal sem sagt ekki vera meinsmaður frv.; það er komið sem komið er.

En ég tel, að úr því að á annað borð er farið að úthluta greiðsluafganginum, þá sé rétt að gera nokkra breytingu á þeirri tilhögun, sem í frv. er lagt til að höfð verði, og ber því fram brtt. á þskj. 774. Hún er ósköp smávægileg eða veigalítil, eins og hv. 1. þm. Eyf. (BSt) mundi orða það. Hún gengur aðeins í þá átt, að 3 millj. kr. af afganginum verði lagðar fram sem sérstakt framlag til byggingarsjóðs verkamanna, sem ég hef rætt hér um við meðferð annarra mála á þinginu og öllum hv. þdm. er kunnugt um að er í hinu mesta greiðsluþroti. Í frv. er gert ráð fyrir, að lagðar verði fram 4 millj. kr. til veðdeildarinnar, 8 millj. kr. til ræktunarsjóðs og 8 millj. kr. til fiskveiðasjóðs. Nú hafa verið töluvert myndarlegar ráðstafanir gerðar á þessu þingi, sem nú er að ljúka, til þess að tryggja þessum sjóðum öllum starfsfé, sérstaklega bæði ræktunarsjóði og fiskveiðasjóði, svo að ég tel, að svo mikla þörf sem þeir hafi fyrir að fá nokkra viðbót af þessum greiðsluafgangi, þá sé þörfin hjá byggingarsjóði verkamanna enn þá ríkari og því sé rétt og verjandi að lækka framlagið t.d. til fiskveiðasjóðs um 1 millj., þó að mér sé sárt um það, og um 1 millj. hjá veðdeild Búnaðarbankans og 1 millj. hjá ræktunarsjóði, en verja þessum 3 millj. kr. til þess að leggja sérstakt aukaframlag til byggingarsjóðs verkamanna, sem ég veit að á við hinn allra erfiðasta fjárskort að búa.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn hér inn, og mundi vilja mega vænta stuðnings hans í þessu efni, því að ég veit, að honum er annt um, að þessi sjóður geti að gagni komið, og leyfi mér því að gera mér vonir um, að hv. d. og hæstv. ráðh. geti fallizt á þessa tiltölulega litlu brtt.