05.05.1955
Neðri deild: 84. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

199. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mér þótti miður, að mér fannst kenna í ræðu hv. 2. þm. Reykv. (E01) nokkurs kala í garð samtaka opinberra starfsmanna og óska þeirra um að fá nú þegar breytt launakjörum meðlima sinna í framhaldi af þeim breytingum, sem nýlega hafa verið gerðar á launakjörum ýmissa fagfélaga í landinu, svo sem alkunnugt er.

Ég hefði óskað þess, og hafði raunar vænzt þess, að hjá hv. þm. kæmi fram eindregnari stuðningur við þær mjög hófsömu kjarabætur, sem í þessu frv. felast til handa opinberum starfsmönnum. En það hefur stundum borið við áður, að úr þessari átt hefur ekki komið, að því er mér finnst og ýmsum fleiri, nægur skilningur á hagsmunamálum og hagsmunabaráttu opinberra starfsmanna, og þykir mér það miður. Ég skal í þessu sambandi og við þessa 1. umr. málsins ekki ræða þessi mál almennt, en aðeins minna í örfáum orðum á fáeinar meginstaðreyndir í þessu sambandi.

Það hefur verið svo allan þann tíma síðan gildandi launalög voru sett, eða næstum áratug, að opinberir starfsmenn hafa ávallt dregizt verulega aftur úr öðrum starfsstéttum að því er snertir kaupgjaldsmál sín og raunar ýmis önnur réttindamál. Þegar launalögin voru sett 1945, voru þau sett eftir tveggja ára baráttu fyrir þeim, og loksins þegar þau voru sett, voru þau sniðin í form, sem þeim hafði verið valið fyrir hálfu öðru ári, en á þeim tíma voru þau þegar orðin mjög úrelt, því að einmitt á því hálfu öðru ári, sem fór á undan setningu síðustu launalaga, varð veruleg kauphækkun hjá ýmsum öðrum mikilvægum starfsstéttum, sem ekki var tekið tillit til við setningu launalaganna. Það má því segja, að þegar launalögin voru sett, hafi þau verið orðin á eftir tímanum og ekki veitt opinberum starfsmönnum þau kjör, sem viðurkennt hafði verið við undirbúning málsins að þeir ættu að njóta, samanborið við aðrar starfsstéttir. Alkunna er, hvernig þróun níu áranna, sem síðan eru liðin, hefur verið. Á s.l. hausti var gerður samanburður á launauppbótum þeim, sem opinberir starfsmenn nytu, og þeim launauppbótum, sem þær stéttir, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup sín og kjör, höfðu fengið. Það kom í ljós, að uppbætur til opinberra starfsmanna voru 10–17%, — þeim var núna á þessu þingi breytt almennt til 17% hækkunar, — en á sama tíma hafði kauphækkun hjá almennum verkamönnum numið 26%. Taxtar hjá iðnstéttunum höfðu að meðaltali hækkað um 24% og þó raunverulega miklu meira vegna upptöku ákvæðisvinnutaxta, og hjá verkakonum hefur taxtakaup meira að segja hækkað um 37%.

Um það er því engum blöðum að fletta, að á þessu níu ára tímabili, sem liðið er síðan opinberir starfsmenn fengu sín launalög sett, drógust þeir enn verulega aftur úr, jafnvel miðað við þann úrelta grundvöll, sem lagður var 1945. Í raun og veru er það sama enn að gerast núna, því að í þessu frv. er lagt til, að uppbæturnar verði hjá langflestum þeim, sem uppbætur koma til með að fá, aðeins 5%. Það er alkunna, að hinar beinu kauphækkanir, sem samið var um í hinni nýafstöðnu kjaradeilu, voru um 11%, og var það áreiðanlega sízt of mikið miðað við þarfir þeirra stétta, sem háð höfðu langa og harða baráttu. En ég vil á það mínna og undirstrika það alveg sérstaklega, að opinberir starfsmenn í lægstu launaflokkunum eru í raun og veru engu betur settir en daglaunamenn, launakjör þeirra eru í raun og veru engu betri. Samt sem áður er nú hér gert ráð fyrir því, þótt að vísu eigi að vera um bráðabirgðalausn að ræða, að launauppbót. þeirra verði aðeins 5%. Hér er sem sagt enn vegið í þann sama knérunn að láta þessa starfsstétt sitja við annað og lægra borð en hinar starfsstéttirnar, sem búa við frjálsan samningsrétt um kaup sitt og kjör. Ég vil enn fremur taka það fram, og er þar á öðru máli en mér skildist að hv. 2. þm. Reykv. væri, að það væri mjög ranglátt að láta skerðinguna á vísitöluuppbótinni haldast hjá opinberum starfsmönnum, eftir að hún hefur verið afnumin hjá þeim stéttum, sem semja frjálsar um kaup sitt og kjör, þ.e.a.s. iðnstéttunum. Hjá öðrum stéttum hafði hún litla þýðingu. Það teldi ég vera mjög ranglátt, og ef það væri gert, þá væri það mjög andstætt heildarhagsmunum opinberra starfsmanna. Ég tel það því vera rétt spor, sem stigið er með þessu frv., að afnema vísitöluskerðinguna hjá opinberum starfsmönnum á hliðstæðu launabili og gert var í hinum frjálsu samningum hjá stéttarfélögunum.

Um hitt er ég hv. 2. þm. Reykv. sammála, að fyllsta ástæða væri til þess, að þeir, sem eru meðlimir í bandalagi opinberra starfsmanna, taki starfshætti bandalagsins í framtíðinni til alvarlegrar athugunar. Það er ekki sæmandi fyrir bandalag opinberra starfsmanna, fyrir jafnfjölmenn og voldug launþegasamtök og þar er um að ræða, að láta verkalýðsfélögin og þá sérstaklega félög þeirra manna, sem eru lægst launaðir, hvað eftir annað heyja fyrir sig kjarabaráttu til sigurs og eiga engan þátt í henni annan en þann að hirða ávöxtinn af þeim sigrum, sem þar hefur verið barizt fyrir. Þetta er hlutverk, sem bandalag opinberra starfsmanna getur ekki látið sér lynda til frambúðar og þarf að taka upp til endurskoðunar. Ég tek líka undir það, að það er í hæsta máta óviðkunnanlegt, að forvígismenn opinberra starfsmanna skuli, meðan á kjaradeilunum stendur, hvað eftir annað á opinberum vettvangi leggjast gegn því, að stéttarfélögin eða meðlimir þeirra fái kjör sín bætt, en þegar í stað og sigur er unninn snúa við blaðinu og heimta sama rétt sér til handa. Hið minnsta, sem hægt væri að krefjast af þessum samtökum og forvígismönnum þeirra, væri að lýsa yfir, meðan á kjaradeilunni stendur, að slíkar kröfur muni verða settar fram, ef sigur vinnst. Helzt ætti auðvitað samstaðan að vera alger, ef sú er meiningin, að opinberir starfsmenn fái að njóta sömu sigra og stéttarfélögin vinna. Um það er ég því hv. 2. þm. Reykv. algerlega sammála, að hér þarf að verða breyting á.

Um frv. almennt vil ég á þessu stigi málsins aðeins segja það, að ég fagna því, svo langt sem það nær, tel þau spor, sem í því felast, vera í rétta átt, þó að ég hefði gjarnan viljað, að sporin hefðu verið myndarlegri og stærri en þau eru. Ég mun í n., sem þetta fer til, leita mér upplýsinga um það, hvort stefna frv. hefur einróma meðmæli þeirra stéttarsamtaka, sem um er að ræða, þ.e.a.s. bandalags opinberra starfsmanna, og ef svo er, þá gjalda því samþykki mitt, en þó aðeins með þeim fyrirvara, að um hreina bráðabirgðalausn sé að ræða og að þegar launalögin verða endanlega endurskoðuð í sumar eða á næsta hausti, þá verði gerðar víðtækari breytingar á launamálum opinberra starfsmanna og gengið lengra í réttlætisátt á móts við óskir þeirra og kröfur en gert er í þessu frv.